Ranakot var hjáleiga frá Stokkseyri og er getið fyrst í manntali 1703. Bærinn dregur nafn af hæðardragi því, er hann stendur á og myndaði dálítinn rana vestur á milli dælanna, áður en landið var þurrkað, á svipaðan hátt og Ranakot efra dró nafn af tanga þeim eða rana, er það stóð á og gengur út í Traðarholtsvatn. Ranakot í Stokkseyrarhverfi var oft nefnt Fram-Ranakot til aðgreiningar frá Ranakoti í Traðarholtshverfi, er þá var kallað Upp-Ranakot. Hefir hið síðarnefnda nú verið í eyði í meira en fjóra áratugi, svo að slíkrar aðgreiningar er eigi þörf nú á dögum. Ranakot hefir jafnan fylgt Stokkseyrartorfunni og er ásamt henni eign ríkissjóðs síðan 1935.