Tilskipun um póstferðir hér á landi var fyrst gefin út 13. maí 1776, en ekki hófust þær ferðir þó fyrr en 1782. Farnar voru þrjár ferðir á ári, og voru þær fyrst og fremst miðaðar við þarfir embættismanna og þá einkum stiftamtmannsins á Bessastöðum, samband hans við sýslumenn landsins og jafnframt við skipaferðir til Danmerkur. Fóru þeir póstar oft gangandi og báru póstinn. Svo vart. d. um Klemenz Þorsteinsson, sem úti varð í Jórugili í Nesjaskógi í Grafningi í árslok 1791 á leið með póst austur í Árnessýslu og Rangárvallasýslu. En því læt eg þessa atburðar hér getið, að Klemenz póstur var ættaður úr Stokkseyrarhreppi, sonur Þorsteins Péturssonar bónda á Stóra-Hrauni og Ingunnar Klemenzdóttur skipasmiðs í Einarshöfn Jónssonar, en uppruni hans hefir lengi verið ókunnur.[note] Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka, 22; Söguþættir landpóstanna I, 31-35; Saga Kolviðarhóls, 37-41. [/note]
Um póstferðirnar á þeim tímum og lengi síðan get eg annars verið fáorður. Yfirleitt voru þær stopular, óreglulegar og komu almenningi lítt að gagni að dómi samtíðarmanna.
Tekjur, gjöld og eignir
Ár | Útsvör | Gjaldendur | Hreppsvegagjöld | Fasteinaskattar | Jöfnunarsjóður |
---|---|---|---|---|---|
1916 | 8.634 | 251 | 354 | ||
1920 | 15181 | 252 | 552 | ||
1925 | 23986 | 298 | 860 | ||
1930 | 20465 | 286 | 660 | ||
1935 | 16765 | 266 | 645 | ||
1940 | 15450 | 261 | 410 | 2.890 | 8.069 |
1945 | 125740 | 258 | 6240 | 3.418 | 9.660 |
1950 | 264830 | 224 | 8905 | 3.568 | 16.322 |
1955 | 463005 | 195 | 9600 | 5.317 | 33.988 |
1958 | 596595 | 192 | 9680 | 4.073 | 560.608 |
Með tilskipun um póstmál á Íslandi 26. febr. 1872 og auglýsingu um póstmál 3. maí sama ár hófst stjórnin handa um að koma póstferðum í betra horf. Þar eru m. a. rækileg fyrirmæli um póstferðir og afgreiðslu pósta, skipun póstafgreiðslumanna og bréfhirðingarmanna, og þá er fyrst tekin upp notkun frímerkja hér á landi. Póstferðir voru fyrst í stað 8 á ári, en póstafgreiðslur 15 á öllu landinu og bréfhirðingarstaðir 54. En þessu var hvað eftir annað breytt og ferðum fór sífjölgandi, svo að tveimur áratugum síðar voru ferðirnar 14-15 á ári. Út frá aðalpóstleiðunum fóru svo aukapóstar í allar áttir. Fram að aldamótum fóru allir póstflutningar á landi fram á klyfjahestum, en þá var byrjað að nota vagna til þessara flutninga frá Reykjavík um Suðurland. Voru það fjórhjólaðir vagnar, tjaldaðir segldúksþaki. Fór fyrsti vagninn úr Reykjavík austur yfir fjall 17. júní 1900, og þótti það mikill viðburður. Póstferðirnar, sem farnar voru eftir fastri áætlun árið um kring, höfðu mikla þýðingu fyrir almennar samgöngur, því að ferðamenn seildust eftir því að verða samferða póstinum, einkum á langleiðum eða að vetrarlagi. Var að því mikið traust og öryggi, því að póstarnir voru hinir ötulustu og reyndustu ferðamenn og margir þjóðkunnir fyrir dugnað. Meðal þeirra má nefna Hannes Hansson póst, sem var borinn og barnfæddur í Stokkseyrarhreppi.[note] Bólstaðir o. s. frv., 302. [/note]
Sonur hans var Hans póstur, sem margir muna enn. Hann var sunnanpóstur síðastur manna og lét af póstferðum vorið 1927. Voru bílar þá fyrir mörgum árum komnir til sögunnar, er leystu af hólmi hina gömlu póstvagna.
Samkvæmt auglýsingunni um póstmál 1872 var aðeins einn póstafgreiðslustaður á öllu Suðurlandsundirlendinu, og var hann á Velli í Hvolhreppi. Í stað hans voru skömmu síðar settar upp póstafgreiðslur á tveimur stöðum, þ. e. í Hraungerði í Flóa og Breiðabólstað í Fljótshlíð, sem seinna var flutt að Odda á Rangárvöllum. Nokkru eftir 1880 var sett upp bréfhirðing á Eyrarbakka, og lá hún undir póstafgreiðsluna í Hraungerði. Auk aðalpóstleiðarinnar austur var tekin upp sérstök póstleið um eða litlu eftir 1890 frá bréfhirðingunni í Keflavík um Miðnes, Hafnir og Grindavík og þaðan um Selvog og Þorlákshöfn allt til Eyrarbakka. Þessi póstleið mun hafa verið tekin upp einkanlega með tilliti til vermanna. Hins vegar var svo póstsamband milli Keflavíkur og Reykjavíkur um Kálfatjörn og Hafnarfjörð. Áður en bréfhirðing kom á Eyrarbakka, þurftu Stokkseyringar að koma bréfum og póstsendingum frá sér upp að Hraungerði, en eftir að Eyrarbakki varð bréfhirðingarstaður, þá ekki lengra en þangað. En er nær dró aldamótum og umsvif urðu meiri en áður í verzlun og viðskiptum á Stokkseyri, varð þessi póstþjónusta mjög ófullnægjandi, og var því sett þar á stofn bréfhirðing árið 1899 með bein skipti við Hraungerði. Stóð svo, þar til póstafgreiðsla var sett á Eyrarbakka 1. jan. 1912, og var þá bréfhirðingin á Stokkseyri lögð undir hana.
Eftir að Stokkseyri varð bréfhirðingarstaður árið 1899 og fram undir 1920, fór Keflavíkurpóstur alla leið til Stokkseyrar, en sú póstleið lagðist síðan niður. Pósturinn á þeirri leið fór jafnan gangandi og bar póstinn. Hann hét Einar, lítill vexti og digur. Hann byrjaði að blása í pósthornið úti á sandi fyrir vestan Kalastaði til þess að tilkynna komu sína. Var karl alldrjúgur af embættinu. Þessar ferðir voru farnar mánaðarlega árið um kring.
Auk hinna föstu áætlunarferða landpóstanna voru í mörg ár fastar póstferðir til Stokkseyrar með strandferðaskipunum, sem áður er getið. En ferðir þeirra voru svo strjálar, að þær komu að fremur litlu gagni um póstflutning í þrengra skilningi.
Árið 1935 setti alþingi lög um sameiningu pósts og síma. Skyldu þessar stofnanir lúta einni stjórn, póststöðvar og símstöðvar smám saman sameinaðar og einum manni falin umsjá þeirra á hverjum stað. Þessi lög hafa verið að koma til framkvæmda síðan, eftir því sem aðstæður leyfa. Á Eyrarbakka voru póstur og sími sameinaðir 1. maí 1942, en á Stokkseyri 1. okt. 1945, og jafnframt var sett þar á stofn póstafgreiðsla í stað bréfhirðingarinnar. Meðan bréfhirðing var á Stokkseyri, önnuðust hana þessir menn:
- Ólafur Árnason kaupmaður 1899-1915,
- Þórður Jónsson bóksali 1915-1924 og
- Ásgeir Eiríksson kaupmaður 1924-1945.
Póstafgreiðslumenn og jafnframt símstjórar hafa verið þeir
- Axel Þórðarson kennari 1945-1951 og
- Baldur Teitsson 1951 og síðan.
Eftir að hinar gömlu póstferðir lögðust niður, er allur póstur fluttur með áætlunarbílum, og er áður sagt frá ferðum þeirra. Nú þurfa menn ekki lengur að bíða póstsins allt að mánaðartíma. Nú ekur hann heim í Stokkseyrarhlað á nokkurra klukkustunda fresti með fréttir utan úr heimi.
Sími var lagður hingað til lands árið 1906 og opnaður til afnota sama ár.
Markar hann stórkostlegt framfaraspor, einkum í verzlun og viðskiptum landsmanna bæði innan lands og utan. Til Stokkseyrar var sími lagður árið 1909, og var þar framan af 2. flokks stöð, er var breytt 1919 í 1. flokks stöð B, sem verið hefir síðan. En árið 1957 var símaþjónustan lengd, svo að nú er sími opinn frá 8.30 til 22 að kvöldi, og greiðir hreppurinn að nokkru kostnaðinn vegna þessarar auknu þjónustu. Fyrstu árin voru símanotendur aðeins 3, Kaupfélagið „Ingólfur“, Jón Jónasson kaupmaður og Ólafur Árnason framkvæmdastjóri. Voru símanotendur lengi mjög fáir, ekki nema 4-6, með því að útbúnað vantaði til þess að fjölga þeim, en margir biðu þess að fá síma. En árið 1945 var símajarðstrengur lagður um þorpið, þó til bráðabirgða, og eftir það urðu símanotendur um 40. Haustið 1955 var svo lagður um þorpið nýr jarðstrengur til frambúðar, og var þeim framkvæmdum lokið árið eftir. Fjölgaði þá enn símanúmerum, og eru þau nú um 60 í þorpinu sjálfu. Auk þess er sími á 16 sveitabæjum í hreppnum, þ. e. öllum nema Stokkseyrarseljunum, Oddagörðum og Gljákoti.