106-Pöntunarfélag Rjómabúsins

Það byrjaði starfsemi sína árið 1930 og hófst með þeim hætti, að bændur, sem fluttu rjómann til búsins, sérstaklega þeir, sem langt áttu í verzlun, vöktu máls á því, hversu hentugt það væri að geta fengið vörur með rjómavögnunum til baka; það lægi og beint við að láta bílinn, sem flutti smjörið frá búinu suður til Reykjavíkur, taka vörur austur í staðinn. Þetta varð til þess, að Margrét Júníusdóttir rjómabústýra tók að panta vörur hjá heildsölum í Reykjavík, en Gunnar Ingimundarson í Hellukoti, sem var bílstjóri rjómabúsins í 19 ár og hafði á hendi afurðasöluna, keypti inn vörurnar eftir fyrirlagi hennar og flutti þær austur. Leysti Gunnar verk þetta vel og samvizkusamlega af hendi. Þessi starfsemi hefir haldið áfram óslitið síðan, einnig eftir að rjómabúið sjálft hætti störfum, og viðskiptin aukizt ár frá ári. Pantaðar eru alls konar

vörur, sem bændur þarfnast, þar á meðal byggingarvörur, ef þess er óskað, svo og kol og olía. Skráðir viðskiptamenn árið 1957 voru 54, og eru þeir aðallega úr Stokkseyrarhreppi og Gaulverjabæjarhreppi auk ferðamanna; verzla sumir meira og aðrir minna, en nokkrir hafa þar alla verzlun sína. Verzlunarveltan hefir síðustu árin komizt yfir 800 þús. krónur. Margrét Júníusdóttir hefir veitt pöntunarfélagi þessu forstöðu alla tíð, og má hún með réttu kallast skapari þess og forsjón. Hefir hún rekið það með einstakri hagsýni og furðulega litlum tilkostnaði. Með henni hefir unnið ein kona, Guðrún Andrésdóttir frá Hellukoti, við félagið frá stofnun þess. Hafa þær báðar fórnað því miklum tíma og fyrirhöfn, sem þær hafa lítt metið til fjár.[note]Sjá ennfremur „Suðurland“ 9. okt. 1954.[/note]

Leave a Reply