089-Ólafur Árnason og Kaupfélagið „Ingólfur“

Starfsemi Stokkseyrarfélagsins vakti margan dreng til dáða og kallaði fram nýja krafta. Sá maður, sem nú verður frá sagt og athafnasamastur hefir verið kaupmanna á Stokkseyri, byrjaði einmitt feril sinn þar sem starfsmaður hjá Stokkseyrarfélaginu. Þessi maður var Ólafur Árnason.

Ólafur var fæddur að Þverá í Hallárdal 23. febr. 1863, sonur Árna bónda og hreppstjóra þar Jónssonar og konu hans, Svanlaugar Björnsdóttur. Ólafur sneri sér á unga aldri að verzlunarstörfum, var fyrst við búðarstörf hjá V. Claessen á Sauðárkróki og síðan hjá Jóni Magnússyni á Eskifirði og Seyðisfirði. Eftir það fór hann til Kaupmannahafnar til frekara verzlunarnáms og kom þaðan til Eyrarbakka árið 1892 og gerðist starfsmaður við verzlun Guðmundar Ísleifssonar á Háeyri. Jafnframt hafði honum verið falið að gæta hagsmuna Salomons Davidsens heildsala í Kaupmannahöfn, sem hafði lánað Guðmundi mikið af vörum. Vorið 1893 varð Guðmundur gjaldþrota og verzlun hans leið undir lok. Sama ár, 24. júlí 1893, fekk Ólafur borgarabréf á Eyrarbakka. En árið eftir réðst hann afgreiðslumaður hjá Stokkseyrarfélaginu og settist að á Stokkseyri, fekk borgarabréf þar 12. júlí 1894 og byrjaði jafnframt eigin verzlun. Bjó hann og verzlaði í húsi Gríms í Nesi fyrstu tvö árin, en árið 1896 reisti hann þrílyft íbúðar- og verzlunarhús á Stokkseyri. Þar verzlaði hann, unz hann keypti hús Edinborgarverzlunar 1. maí 1903 og flutti sig þangað. Snemma árs 1907 seldi hann verzlun sína og öll verzlunarhús m. m. kaupfélaginu Ingólfi, sem þá var nýstofnað og Ólafur stærstur hluthafi í. Var hann síðan framkvæmdastjóri þess félags til dauðadags, en hann andaðist í Reykjavík 2. júní 1915.

Fyrstu árin var verzlun Ólafs ekki mjög stór, og fekk hann þá einkum vörur með skipum Stokkseyrarfélagsins. En eftir að hann hafði fengið næg húsakynni, jók hann skjótt við sig og fekk árlega fleiri eða færri skipsfarma frá útlöndum. Hann þótti bæta mikið verzlunina, seldi oft við lægra verði en aðrir kaupmenn og borgaði betur innlendar vörur gegn því, að menn verzluðu skuldlaust. Stundum sömdu margir bændur sameiginlega um vöruverð, t. d. landmenn, er létu Eyjólf í Hvammi semja fyrir sína hönd, og komust þannig að beztu kjörum. Verzlun sína rak Ólafur af dugnaði og hagsýni, enda varð hann ríkur maður. Var verzlun hans með húsum, lóðar- og hafnarréttindum t. d. metin á 103.950 kr. við virðingargerð 1. des. 1905, og var það mikið fé í þá daga.[note]Margrét Árnason, Auður og embættisvöld I, 10.[/note] Ólafur sigldi árlega til Danmerkur til að annast innkaup fyrir verzlun sína og eins fyrir kaupfélagið Ingólf, eftir að hann varð framkvæmdastjóri þess.

Verzlunarhús á Stokkseyri fyrir aldamót [1900]. Byggingar til vinstri, sem sér á gaflinn á eru verzlunarhús Ingólfs (Hærra húsið byggi Grímur í Nesi), fremst á myndinni geymsluskúrar fyrir kol, olíu o.fl.; háa til hægri er stóra pakkhúsið.
Sumar gamlar og grónar verzlanir hér á landi tóku upp þann sið að hætti Dana og fleiri þjóða að gefa út einkapeninga, sem giltu aðeins í viðskiptum við þær. Höfðu t. d. Lefoliisverzlun á Eyrarbakka og Guðmundur Ísleifsson á Háeyri gefið út slíka peninga. Þennan sið tók Ólafur Árnason einnig upp, og er það eini kaupmaðurinn á Stokkseyri, sem það hefir gert. Peningar Ólafs voru 10, 5, 2 og 1 krónu seðlar og 25 og 10-eyringar í sleginni mynt. Nokkur sýnishorn af peningum Ólafs eru til í Þjóðminjasafni; annars eru slíkir peningar nú orðnir fágætir og eftirsóttir safngripir.[note] Sjá grein eftir Otto Blom Carlsen í Nordisk numismatisk unions medlemsblad í des. 1953, bls. 221-27.[/note]

Ólafur Árnason beitti sér fyrir ýmsum nytsömum framkvæmdum eða átti þátt í þeim, svo sem hafnarbótum á Stokkseyri, stofnun brauðgerðarhúss og íshúss, Baugsstaðarjómabús o. fl. Hann flutti og inn fyrsta vélbátinn, sem kom til Stokkseyrar. Átti hann þannig beinan eða óbeinan þátt í mörgum framfaramálum í byggðarlaginu í þá tvo áratugi, sem hans naut við. Ólafur var glæsimenni, fríður sýnum og fyrirmannlegur. Hann var starfsmaður mikill, fær verzlunarmaður og vel að sér í tungumálum, hjálpsamur við þá, er hann reyndi að skilsemi, enda vinsæll af almenningi. Hann var kvæntur Margréti dóttur Friðriks Möllers póstafgreiðslumanns á Eskifirði, gáfaðri og mikilhæfri konu, og áttu þau fjögur börn.

Helztu starfsmenn við verzlun Ólafs Árnasonar voru þessir: Jón Vigfússon á Bjarmalandi og Sigurður Adólfsson á Stokkseyri, er fóru báðir til Ameríku, Guðmundur Vernharðsson kennari, Carl Möller, Hjálmtýr Sigurðsson frá Grímsfjósum, Bjarni Grímsson bóndi á Stokkseyri, Jón Sigurðsson í Aldarminni o. fl.

Ólafur varð oft fyrir miklu tjóni af skipsströndum með því að tapa vörum til að verzla með, enda þótt þær væru vátryggðar. Hann átti t. d. vörur í skipum Stokkseyrarfélagsins, ,,Kamp“eldra, sem strandaði við innsiglingu 27. apríl 1895, og „Alline“, sem strandaði 16. ágúst 1896. Einnig átti hann ásamt Jóni Árnasyni í Þorlákshöfn og Jörgen Hansen á Eyrarbakka vörur í ,,Kepler“, sem strandaði í Þorlákshöfn 3. maí 1895 og rak á land í Skötubót. Mikið af vörum Ólafs og Jörgens voru þó afhentar þeim, lítt skemmdar. Þess skal getið, að sundtréð fyrir vestan Kalastaði er siglutréð úr „Kepler“þessum. Hinn 20. maí 1904 rak norskt seglskip, er „Christian“hét, upp á svokallaðan Halldórssand undir Miðkletti í Vestmannaeyjum. Var það með timburfarm til Ólafs Árnasonar, en átti að skila nokkru af timbrinu í Landeyjum. Skipið brotnaði, en timbrinu skolaði á land.

Það er í frásögur fært, að skipstjóri á „Kamp“ eldra og eigandi hans hét Tobiesen, fullorðinn maður, stór vexti með mikla ístru. Þegar hann var í landi, smalaði hann saman 10-20 drengjum og fór með þá um borð í uppskipunarbátnum. Raðaði hann þeim meðfram káetu, setti vörð fyrir aftan þá og gaf hverjum um sig tvær stórar kexkökur, gætti þess, að enginn fengi nema í eitt skipti, og sagði þeim svo að fara í land. Tók hann andköf af hlátri, er hann var að afgreiða strákana. Það sögðu skipverjar, að oltið hefði á ýmsu fyrir honum. Ýmist var hann efnaður eða gjaldþrota, en það hefði hann orðið tvisvar.

Mesta skipskaðaárið var þó 1906, og strönduðu þá hvorki meira né minna en þrjú vöruskip til Ólafs Árnasonar. Fyrst þeirra var skonnortan „Guðrún“, um 100 smálestir að stærð, er Ólafur hafði þá nýkeypta. Hún kom til Stokkseyrar 26. apríl, fullhlaðin af vörum, og var henni þegar siglt inn á höfnina.  Um nóttina gerði ofsarok á norðan. Slitnaði þá landfesti, en skipið rak upp á sker og brotnaði. Engu var þá farið að skipa upp af vörunum. Annað skipið var „Union“, er strandaði við Landeyjar 27. júlí. Mun það hafa verið timburskip og átt að skipa þar upp nokkru af farminum. Þriðja skipið var „Christine“. Henni var siglt inn á höfnina á Stokkseyri 12. sept. Um nóttina gerði fárviðri af suðri með hafróti svo miklu, að brim gekk upp yfir alla varnargarða, og mundu menn ekki eftir meira veðri eða sjógangi en þá nótt. Um kl. 2 ætlaði skipstjóri að lengja festina við leguásinn, en tapaði henni út. Rak skipið svo vestur og lenti í ólagi upp á hellurnar fyrir framan Kalastaði. Skipverjar ætluðu þá að höggva reiðann af, en þá kom nýtt ólag og bar skipið upp fyrir venjulegt flóðfar. Þar var það um morguninn með öllum farmi, furðu lítið brotið. Vörurnar voru afhentar Ólafi með vátryggingarverði. Í fárviðri þessu varð víða tjón á Suðurlandi; þá brotnuðu 13 opin skip á Eyrarbakka og 17 á Stokkseyri, en Oddakirkja færðist á grunni.[note]Ísafold, 19. sept. 1906.[/note] Þetta skipstrand er hið síðasta, sem orðið hefir á Stokkseyri.

Hér skal loks skýrt frá óvenju miklum hrakningi, sem Ólafur B. Waage skipstjóri komst í á skipi sínu „Ingólfi“á leið til Stokkseyrar í febrúarmánuði árið 1900. Fiskazt hafði vel á Stokkseyri, og þótti sýnt, að saltskortur mundi verða. Fekk Ólafur Árnason þá nafna sinn til að flytja salt og fleira þangað austur. ,,Ingólfur“lagði af stað úr Hafnarfirði með saltið og aðrar vörur til Stokkseyrar 11. febrúar, en um nóttina brast á veður mikið af austri, og rak skipið til hafs um 118 sjómílur útsuður af Reykjanesi. Var það síðan um 20 dægur á hrakningi, en komst loks aftur í landsýn við Hjörleifshöfða og til Stokkseyrar 28. febrúar eftir 17 daga útivist. Voru skipverjar fjórir alls og orðnir nær matar- og vatnslausir, þótt mjög spart væri á haldið. Var talið víst, að skipið hefði farizt í veðri þessu. Mestöllu saltinu hafði orðið að moka útbyrðis, svo að af 120 tunnum voru ekki eftir nema um 20, er skipið náði lendingu á Stokkseyri, allmjög laskað, sem vonlegt var.[note]Þjóðólfur, 9. (sbr. 16.) marz 1900.[/note]

Árið 1902 gaf Ólafur Árnason út boðsbréf, þar sem hann bauð mönnum að ganga í félag við sig um verzlunina og breyta henni í hlutafélag. Þetta fekk þá litlar undirtektir. En á næstu árum glæddist mjög áhugi manna á því að koma á fót félagsverzlun, því að Stokkseyrarfélagið gamla hafði þá allmjög dregið saman seglin. Árið 1903 kom Gestur Einarsson á Hæli á fót pöntunarfélagi í kringum sig, sem hann nefndi Kaupfélag Árnesinga og Rangæinga. Tók það á leigu verzlunarhús Einars borgara á Eyrarbakka, fekk vöruskip frá útlöndum og starfaði þannig í tvö ár. Árið 1905 var myndað upp úr því hlutafélag 10- 20 efnaðra bænda í báðum sýslunum, og var það nefnt Hekla. En 26. jan. 1907 var því breytt í samvinnukaupfélag með sama nafni. Náði það mikilli útbreiðslu um allt Suðurland austanfjalls, einkum þó í Árneisýslu, og leysti loks algerlega af hólmi hina aldagömlu dönsku verzlun á Eyrarbakka árið 1919, er það keypti hin miklu og fornu hús þáverandi Einarshafnarverzlunar. Við hinar miklu og snöggu verðlagsbreytingar, sem urðu eftir styrjaldarárin, komst félagið í fjárþrot og lagðist niður að fullu árið 1925.[note]Sbr. Ágúst Helgason, Endurminningar, bls. 156-57.[/note] Í kjölfar þeirrar hreyfingar, sem varð í kringum pöntunarfélag Gests á Hæli og hlutafélagið Heklu, sigldi Bogi Th. Melsteð með fjölsóttan fyrirlestur um verzlunarmál við Þjórsárbrú í júlímánuði 1905, þar sem hann hvatti bændur mjög til að koma á fót samvinnuverzlun.

Ólafur Árnason hefir vafalaust séð, hvert stefndi í verzlunarmálum bænda og að þyngjast mundi fyrir fæti hjá kaupmannaverzlunum austanfjalls. Hann endurnýjaði því tilboð sitt til bænda um að ganga í félag við sig. Var komið saman fundi um þetta mál á Stokkseyri 31. maí 1906. Meðal fundarmanna voru auk Ólafs Árnasonar: Sigurður Ólafsson sýslumaður í Kaldaðarnesi, Eyjólfur Guðmundsson í Hvammi á Landi, Jón Sveinbjörnsson á Bíldsfelli, Bjarni Jónsson í Háholti á Skeiðum, Skúli Árnason læknir í Skálholti, Runólfur Halldórsson hreppstjóri á Rauðalæk, Grímur Thorarensen í Kirkjubæ og Guðmundur Erlendsson í Skipholti. Rætt var um að kaupa verzlun Ólafs Árnasonar og stofna hlutafélag með 60.000 kr. hlutafé, en hver hlutur yrði 25 kr. Í framkvæmdanefnd málinu til frekari undirbúnings voru kosnir Grímur í Kirkjubæ, Guðmundur í Skipholti og Ólafur Árnason.

Af störfum nefndarinnar fara ekki sérstakar sögur. Hún hefir auðvitað kynnt félagshugmyndina og hvatt menn til þátttöku, og á hennar vegum hefir það væntanlega verið, að Jóhann V. Daníelsson verzlunarmaður ferðaðist allmikið um sýslurnar til þess að mæla fyrir félagsstofnuninni. Einnig er kunnugt, að Einar Benediktsson skáld, sem þá var sýslumaður Rangæinga, var með í ráðum um tilhögun félagsins, og er þátttaka bænda einkum eignuð honum.[note]Valgerður Benediktsson: Frásagnir um Einar Benediktsson, bls. 60; Steingr. J. Þorsteinsson: Einar Benediktsson, æviþættir, bls. 637.[/note] Leitað var einnig samvinnu við forustumenn Stokkseyrarfélagsins um að breyta því félagi í það horf, sem hér var um að ræða, og láta það færa út kvíarnar að sama skapi, en þeir voru því mótfallnir og vildu halda því áfram með sama fyrirkomulagi og áður, enda var það gert.

Stofnfundur hins nýja félags var haldinn við Þjórsárbrú 30. jan. 1907, og hlaut það nafnið Ingólfur. Félagið skyldi hafa aðalaðsetur á Stokkseyri og útbú á Eyrarbakka, kaupa verzlun og húseignir Ólafs Árnasonar, hlutafé og einstakir hlutir vera sem áður segir. Ólafur var ráðinn framkvæmdastjóri, og skyldi hann eiga þriðjung hlutafjárins eða 20.000 kr. Ákveðið var að hafa dálitla pöntunardeild jafnframt vegna þeirra, er slíka verzlun kysu heldur. Í stjórn voru kosnir Eyjólfur Guðmundsson oddviti í Hvammi formaður, Einar Jónsson bóndi og síðar alþingismaður á Geldingalæk og Grímur Thorarensen hreppstjóri í Kirkjubæ.[note]Ísafold, 6. febr. 1907.[/note] Voru þessir menn lengst af í stjórn Ingólfs, en síðustu árin, sem félagið starfaði, mun Einar Jónsson á Geldingalæk hafa verið formaður þess og með honum í stjórninni Bjarni Grímsson á Stokkseyri og Runólfur Halldórsson á Rauðalæk. Sala á eignum Ólafs til félagsins fór fram 1. febr., en afhending 1. maí 1907.

Með framkvæmdastjóranum störfuðu við kaupfélagið Ingólf tveir sölustjórar, er svo voru nefndir. Var annar þeirra Helgi Jónsson frá Bráðræði, er sat á Stokkseyri, en hinn var Jóhann V. Daníelsson, er stýrði útibúi félagsins á Eyrarbakka. Útibúið var á Háeyri og starfaði þar á árunum 1907-14, en seint á því síðarnefnda ári seldi Ingólfur það Jóhanni, og rak hann þar síðan sjálfur verzlun frá ársbyrjun 1915. Eftir fráfall Ólafs Árnasonar varð Helgi Jónsson verzlunarstjóri Kaupfélagsins Ingólfs.

Helgi Jónsson var fæddur að Felli í Biskupstungum 16. des. 1868, og voru foreldrar hans Jón bóndi þar og í Narfakoti og síðast í Bráðræði í Reykjavík Magnússon kaupmanns í Bráðræði og Halla Árnadóttir dbrm. á Stóra-Ámóti í Flóa Magnússonar. Helgi vann á yngri árum við verzlunar- og skrifstofustörf í Reykjavík, en 1893 réðst hann bókhaldari við verzlun móðurbróður síns, Jóns dbrm. Árnasonar í Þorlákshöfn. Þar var hann í 6 ár, en fluttist 1899 til Stokkseyrar og átti þar síðan heima mikinn hluta starfsævi sinnar. Vann hann þar m. a. við Edinborgarverzlun, en þegar Kaupfélagið Ingólfur var stofnað 1907, gerðist hann sölustjóri þess á Stokkseyri og verzlunarstjóri eftir fráfall Ólafs Árnasonar 1915, sem fyrr segir. Eftir að kaupfélagið hætti störfum, gerðist hann meðstofnandi að verzlun Ásgeirs Eiríkssonar, en fáum árum síðar, 1926, fluttist hann með fjölskyldu sína til Reykjavíkur. Þar vann hann enn mörg ár að verzlunarstörfum. Kona hans var Guðrún Torfadóttir veitingamanns í Reykjavík Magnússonar, systir Magnúsar sýslumanns, og áttu þau tvo sonu. Helgi lézt í Reykjavík 24. marz 1950, rúmlega 81 árs að aldri. Hann var vinsæll maður og vel metinn. Á Stokkseyri dvaldist hann manndómsár sín og kom þar víða við sögu, ekki aðeins stöðu sinnar vegna sem sölustjóri og verzlunarstjóri, heldur vegna áhuga síns á ýmsum félags- og menningarmálum. Tók hann virkan þátt í mörgum félögum á Stokkseyri og lagði þar gott til mála. Hann hafði mikinn áhuga á leiklist og tók um skeið þátt í leiksýningum Stokkseyringa og þótti vel takast. Einnig var hann skáldmæltur vel. Hann var prúðmenni í framgöngu, og í viðræðum brá hann oft á gaman.

Kaupfélagið Ingólfur rak mikla verzlun, og voru viðskipti þess langmest við Rangæinga. Það er án efa stærsta verzlunarfyrirtæki, sem rekið hefir verið á Stokkseyri. Eitt árið fekk það t. d. 12 skipsfarma af vörum frá útlöndum. Þess má geta til gamans, að haft er eftir A. Obenhaupt heildsala í Reykjavík, að Kaupfélagið Ingólfur hefði eitt árið fengið 800 kassa af kandíssykri frá Þýzkalandi og verið þá stærsti innflytjandi þeirrar vörutegundar á landinu.[note]Sögn Bjarna Jónssonar bankamanns í Reykjavík. Til marks um fjölbreytni vörutegundanna má benda á auglýsingakvæði um vörurnar í Ingólfi eftir Ingimund í Suðurlandi 16. des. 1911. Í þessu sambandi er ástæða til að minna á ummæli í blaðinu Suðurlandi 23. júní 1910, að óvíða muni ganga fljótar uppskipun en á Eyrarbakka og Stokkseyri. ,,enda fá erfiðismenn héðan orð fyrir dugnað, hvar sem þeir vinna.“
[/note] Ingólfur hafði einkaumboð hér á landi fyrir ýmsar landbúnaðarvélar, t. d. „Deering“ sláttuvélar, rakstrarvélar, plóga og herfi frá sömu verksmiðju og skilvinduna „Diabolo“. Var Jón Jónatansson leiðbeinandi um tíma um meðferð vélanna, annaðist samsetningu þeirra og kenndi mönnum notkun þeirra. Starfsemi félagsins var mikil lyftistöng fyrir þorpið; þar var mikið um atvinnu, og hagur almennings fór batnandi. Ýmiss konar starfsemi dafnaði í skjóli kaupfélagsins, einkum vélbátaútgerðin, sem náði hámarki sínu á stríðsárunum fyrri. En þessa blómlega félags biðu sömu örlög sem kaupfélagsins Heklu á Eyrarbakka. Verðsveiflur áranna eftir stríðið urðu þeim báðum ofviða, samfara breyttri samgöngutækni. Að lokum komst Ingólfur í fjárþrot og hætti störfum 1923.

Auk verzlunarstjóranna Ólafs Árnasonar og Helga Jónssonar voru helztu starfsmenn félagsins þessir: Sigurður Einarsson, Ívar Sigurðsson, Bjarni Grímsson, Edvald Möller, Nikulás Torfason, Eyjólfur Sigurðsson, Þórður Jónsson, Sigurður Ingimundarson, Símon Jónsson, Eiríkur Eiríksson bakari, Ásgeir Eiríksson, Jón Sigurðsson í Aldarminni og dætur hans Ragnheiður og Arnheiður o. fl.

Leave a Reply