Vigfús Ásbjarnarson Efra-Seli

Vigfús Ásbjarnarson Efra-Seli

Hann var kvæntur Margréti Lénharðsdóttur og var Guðrún dóttir þeirra gift Þorsteini Þorsteinssyni slátrara hér í bænum, bæði (?) eru á lífi. Sonur Vigfúsar og Margrétar var Ásbjörn á Skipum. Vigfús var hár og grannur, ljósleitur, með lítið skegg undir vöngum, kátur vel og skemmtilegur; vinnumaður var Vigfús talinn meðal hinna bestu til sjós og lands. Drykkfelldur var hann nokkuð og var hann þá svo hávaðasamur er hann var við vín að allt annað hljóðnaði fyrir þeirri háreysti og söng, og svo hafði Vigfús þann kæk að kalla svo hátt sem hann þoldi, og ávalt upp úr eins manns hljóð danska orðið „Ak!“. Sennilega hefir hann gert þetta til þess að láta mönnum bregða við og hefi ég búið að því alla æfi mína síðan.

Ég mun hafa verið á 2. eða 3. ári er hann kom einu sinni sem oftar að Syðra Seli, tók Stuttu Kristínu í fang sér og sagðist ætla að taka hana frá mér, hljóp til dyra með hana og kallaði í eyra mér „Ak!“ Hafði ég þá hnigið niður og er ég rankaði við mér var sagt að ég hefði verið óhuggandi alla nóttina, enda elskaði ég Stuttu Kristínu út af lífinu og hélt að Vigfús mundi ætla að ræna mig henni og meiða hana. Annars var Vigfús allra besti karl og vinsemd mikil milli heimilanna og barnanna. Vigfús og Margrét voru fátæk mjög, en komu þó börnum sínum, sem öll voru mannsefni góð, vel fram án hjálpar annarra. Vigfús reri lengi hjá Jóni Jónssyni í Eystri Móhúsum og var afbragssjómaður.

Close Menu