Vernharður var stór maður vexti, krangalegur, leggjalangur, dökkur á hár og hörund, með lágt enni og lítil augu, nefið langt og söðulbakað, skegglaus var hann að mestu og skarplegur í andliti. Vernharður var iðjumaður hinn mesti, sparsamur og nýtinn, enda þurfti hann alls þessa með, því ómegð hans og fátækt var mikil, enda var kona hans ekki eins sparsöm og nýtin sem hann. Vernharður var álitinn vera mikill matmaður, en það held ég að ekki hafi verið; hitt var satt, að hann talaði mikið um mat og var nærfærinn mjög um það hvað aðrir höfðu til matar á heimilum sínum . Hann var vel greindur, en naumast góðgjarn eða „hollur“ í umtali. Vernharður gjörði sér margar ferðir um allan Flóa á sumrin, með Lagna-Brún sinn og belgi til þess að fá sýru á þá, einnig á haustum austur í Rangárvallasýslu og fékk hann þá og svo mikið í þeim ferðum, af kjöti, skinnum og ull. Langi Brúnn bar það eigi í einni ferð og varð hann því að fara selflutning með það, eða sækja síðar. Voru þetta kallaðar „snýkjuferðir“, en voru í raun og veru heimsóknir í átthagana gömlu.
Góður sjómaður var Vernharður og snillingur í því að hlaða veggi úr torfi og grjóti, enda vandvirkur og vinnusamur; var hann því mjög eftirsóttur til þessarar vinnu.
Þegar Vernharður kom einhverju sinni úr sýru-snýkjuferð sinni sagði hann: „Ég fékk mysu að drekka í Litlu-Sandvík (ríkasta heimilinu), skyrhræring í Geirakoti (bjargálna heimili) en mat í Nabba (sárafátækasta heimili; en við „mat“ átti hann við að því leyti, að þar fékk hann hausfisk, brauð og fleira, eitthvað annað en spónamat“.
Öðru sinni, er Vernharður kom úr haustferð sinni sagði hann: Ekki bað ég hann Guðmund á Keldum neins, en hann rétti mér gemlingsbjór að skilnaði, svo þunnan, að hann hefir víst ekki átt annan þynnri til“. Þetta voru þakkirnar; hann vildi sýna rausn frænda síns, síðasta mannsins í Rangárvallasýslu.
Vernharður reri ávalt hjá Sigurði á Kaðlastöðum, og fékk þar margan góðan bitann og sopann. Báðir notuðu þeir neftóbak, þó eigi mjög mikið, en ávalt var „baukurinn á lofti“ og báðir ósparir á það að „gefa í nefið“.
Þegar Vernharður kom einhverju sinni frá Hallgrími á Kaðlastöðum, sem hafði mikla ánægju af því, að gefa Vernharði hrosshausa og slátur, sagði hann: „Hann Grímur (Hallgrímur) var að slátra í dag, vænum hesti og folaldi. Ég fékk hausa og ellefu lappir hjá honum og fjóra hausa og sjö lappir í Ranakoti, og svo fékk ég nærri því alt folaldið hjá honum Grími“. – þetta voru því 13 hrosshausar og 18 hrossalappir í þeirri ferð!
Naumast voru svo byggðar eldhúslóðir, hlaðinn veggur eða því um líkt þar í Hverfinu að Vernharður væri eigi til þess fenginn. Af honum lærði ég að byggja húsveggi svo, að vel þótti fara, enda þótti okkur bræðrum gaman að vina með Vernharði, því hann var ræðin og skemmtilegur. Hann varð bráðkvaddur á sandmelum sunnan við Kaðlastaði 4. febrúar 1892, 60 ára að aldri. Árið eftir fór fjölskylda hans öll til Ameríku nema Valgerður.
Ísleifur Vernharðsson kvongaðist Sigríði Einarsdóttur frá Dvergasteinum; hann var ágætur barnakennari og hagmæltur vel, hár og þrekinn, karlmannlegur á velli, bjartur ásýndum með eitt hið lægsta enni sem ég hefi séð á nokkrum manni.
Jón eldri bróðir hans var miklu lægri að vexti en framúrskarandi duglegur maður til allrar vinnu, síkvikull og glaðlegur og góður formaður. Jón yngri var líkur Ísleifi, en Gísli lýkur Jóni eldra. Enn má nefna einn bræðra hans er Guðmundur hét; var hann barnakennari á Stokkseyri, vel gefinn maður, en allir þóttu þeir bræður, eins og faðir þeirra, eigi við eina fjöl felldir hvað trygglindi snerti eða hollustu. Vel fór þó með þeim og okkur bræðrum í uppvextinum og vinátta var góð þar á milli heimilanna, enda er mér óhætt að segja að heimili Vernharðar hafi þar „eigi borið skarðan hlut frá borði“.
Minnist ég þessa fólks með hlýjum huga og get vel skilið ástæður þess og þröngan hag, sem eflaust hefir átt sinn þátt í því að fólk þetta mundi nú hafa hallast að kenningum kommúnista, þótt ólíku sé saman að jafna um vinnugleði þess, dugnað og dáð á ýmsa lund en þeirra.