Þorleifur Kolbeinsson Stóru-Háeyri

Þorleifur Kolbeinsson Stóru-Háeyri

Þorleifur Kolbeinsson á Stóru Háeyri, sonur Kolbeins Jónssonar í Ranakoti, var hreppstjóri í Stokkseyrarhreppi, sáttasemjari og meðhjálpari. Hann var kaupmaður lengi og græddist fé svo vel, að þegar hann féll frá 1882 var talið að hann ætti 110 þús. krónur í föstu fé og lausu og að börn hans, 5 að tölu hafi fengið 22 þús. krónur í sinn hlut, hvert þeirra. Þótti þetta mikið fé sem og það var á þeim tímum og mundi nema milljón fullri nú.

Um Þorleif hefi ég ritað á öðrum stað, svo og um Kolbein föður hans. Þorleifur var lágur mjög vexti, nærri durgslegur til að sjá og digur vel, höfuðið stórt, ennið hátt, augun fremur smá og gáfuleg mjög. Munnvíður var hann, nefið söðulbakað og skegglaus var hann, nema lítið eitt í vöngum. Hann var góðum gáfum gæddur, skáldmæltur vel og glaðlegur. Eftirtekt hans og vit var svo, að segja mátti um hann, sem og sagt var, að hann væri spekingur að viti. Og þótt misjafnt orð læti á flestum þeim, er við verslun fengust, var Þorleifi aldri brugðið um óráðvendni né svik, enda hataði hann það og heimskumanna fáfræði.

Hann stofnaði barnaskólann á Eyrarbakka 1852 með og í samráði við Guðm. Thorgímsen, til þess m.a.a að bæta úr fáfræði annarra. En Þorleifur var harðskiftinn nokkuð, eða það fannst öðrum, er við skiftu. Hann kunni að versla og hafði vit á, að selja vöru sína svo, að hann hefði ávalt hagnað af, en aldrei tap. Þorleifur var í flestu stórmerkur maður, langt á undan sínum tíma, hugsaði mikið og sá vel framundan sér. Orðvar var hann og gætinn, laus við allan hroka og drembilæti og í flestu virtist hann taka lífinu létt og láta það á sig fá þó eitthvað kynni á að bjáta; ráðhollur var hann og réttsýnn um annarra málefni. Mætti með nokkrum sanni um hann segja, að hann væri Sókrates samtíðarmanna sinna, án þess, eins og hann, að segja sig lausan við söfnun auðæfa, fjár og frama. Þorleifur var gerður Dannebrogsmaður og held ég að honum hafi ekki líkað það betur en verr.

Close Menu