You are currently viewing Þórður Jónsson Efra-Seli

Þórður Jónsson Efra-Seli

Kona Þórðar, Margrét Jónsdóttir frá Hreiðri í holtum er enn á lífi hér í bænum, komin yfir áttrætt. Þau voru foreldrar Markúsar í Grímsfjósum og áttu fjölda annarra barna, enda lifðu þau við óvenjulega mikla fátækt, þótt hann væri ágætur smiður og þau bæði dugandi menn. Hjá Þórði naut ég margs góðs, m.a. þess að hann kenndi mér hvernig ég ætti að stíla bréf o.fl. enda ritaði hann mörg hin fyrstu sendibréf mín til jafnaldra minna. Einhverju sinni var lögð fyrir mig o.fl börn þessi spurning sem við áttum að svara skriflega: „ Hvaða kjör geta komið fyrir manninn, sem honum verður erfiðast við að eiga?“

Þessu svarað Þórður fyrir mig – í kyrrþey – á þessa leið og svo að ég fékk hæstu einkunn: „Að ná háum aldri, án þess að fá bætt fyrir afbrot sín í þessu lífi!“

Þótt ég væri og einkum er frá leið óánægður með þetta svar, virtist mér það lýsa hugsunarhætti Þórðar vel og ekkert við það að athuga. Það sem dómnefndin (prestur, kennari o.fl) töldu það gott, já meira að segja besta svarði – og hefi ég oft hugsað um það síðan, að svarið hafði mikinn sannleik í sér fólgin, þótt e.t.v. megi finna ýms önnur kjör erfiðari viðfangs en þau, að lifa lengi í syndum sínum án iðrunar; það er a.m.k. ekki gleðilegt tilhugsunarefni fyrir hvern þann er trúir á annað líf og væntir sér einhvers góðs af því.

Þórður á Efra Seli var vandaður maður til orðs og æðis, vinsæll og vel þokkaður. Hann var hár maður vexti – Margrét smávaxin – ljósleitur og fríður sýnum, með hátt enni og augu blágrá að lit; skegglaus var hann að mestu, hreinlegur, vinusamur og vel að sér gjör. Margét og móðir mín voru mestu vinkonur og sá Vernharður ofsjónum út af því, þá er hann varð þess var að „Margrét í vesturbænum beri stundum eitt eður annað í svuntuhorni sínu frá nöfnu sinni á Syðra Seli!“. Þótt hann léti föður minn skilja þetta stundum með líkum orðum og hér er lýst, hafi það eingin áhrif á samlyndið milli þessara vina. Þótt mér sé málið skylt, fullyrði ég, að heimili foreldra minna var hvorttveggja í senn, velefnað og veitandi, miklu meira en svo að aðrir viss um það, en þó almennt viðurkennt.

Þórður á Efra Seli var skurðhagur vel á tré, auk þess sem hann var járnsmiður og kenndi hann mér að skera nöfn og stafi í bátafjalir, og nafnskjöld margra skipa, en af því hafði ég mikla ánægju í æsku, þótt ég væri alls eigi „hagur“ á neitt eða náttúraður fyrir annað en sönglist og það, að reyna að ná sem fegurstri rithönd. Mér bauðst að læra trésmíði hjá Jóhann sál. Jónssyni trésmið en vildi ég ekki og einnig bauðst mér að læra sjómannafræði en var ófáanlegur til þess, var þó svo langt komið, að ég var fyrirfram ráðinn til þess að verða skipstjóri (!) á „Den lille“ að námi loknu, en það var þá tveir vetur. Meira bauðst mér að læra, en einþykkni mín og leti réði því að ég vildi ekkert af þessu þýðast nema það, að læra á orgel og átti ég það minni góður móður að þakka að ég fékk það. Hinsvegar var meira gert fyrir mig en aðra bræður mína í æsku. Að ég fékk að vera tvo vetur í barnaskóla, 4 mánuði hvorn vetur 1877-78 og 1878-80, hefði ég miklu betri not af síðara námstímanum, enda var ég þá „laus við kverið“. Þyrfti ég einhverra leiðbeiningar við í þessu og fleiru, var Þórður á Efra Seli ávalt reiðubúinn til þess að leysa allan minn vanda. Var mér því sérstaklega hlýtt til hans, enda var hann barngóður maður og öllum velviljaður, eins og Torfi bróðir hans. Torfi var ágætis maður, karlmenni mið mesta og tígulegur að vallasýn, líkur Þórði og hinum bræðrum sínum og systrum. Allt hávaxið, teinrétt og tígulegt, en öll báru þau merki þess í andliti og að ytra útliti, að þau hefðu ekki ávalt lifað við allsnægtir og var fátækt fylgikona þeirra allra, svo að segja alla æfi.