You are currently viewing Þórdís Þorsteinsdóttir Litlu-Háeyri

Þórdís Þorsteinsdóttir Litlu-Háeyri

Þórdís Þorsteinsdóttir frá Simbakoti, er lengi bjó að Litlu-Háeyri með manni sínum, Jóni Jónssyni, Hafliðasonar, systur Elínar seinni konu Þorleifs á Háeyri og hálfsystur Guðríðar Þorsteinsdóttur í Torfabæ, móður þeirra Stefáns og Péturs („Pésa litla“ er svo nefndi sig).

Um Þórdísi á Litlu-Háeyri þarf ég að vísu litlu að bæta: henni er að nokkru lýst í sambandi við sonu hennar, en þeir sem þekktu konu þessa, og þá eigi síst börnin á Bakkanum, munu aldrei gleyma henni, hógværð hennar og hjartagæsku. Að líta Þórdísi á Litlu-Háeyri augum, að eins þótt um augnablik væri að ræða, var hver maður á sömu stundu bljúgur sem barn. Það var eins og hann sæi móður sína svo brosmild var hún, blíð og góð; hún var, eins og segja má um hverja góða konu sem er – og þær eru margar – „engill sem til lífsins leiðir, ljósmóðir sem hvílu breiðir, sólarbros er birta él“ – þótt í öðrum skilningi sé það sagt og um annað en þetta.

Dísa gamla á Litlu-Háeyri var hún nefnd, og var það eitt, að nefna hana „Dísu“ nægilegt til þess að sýna það, hversu kynnt hún var almenningi og einkum börnum. Meðan ég var á Eyrarbakka kynntist ég konu þessari harla lítið, sá hana við og við, en manni hennar þó enn minna; ég sá hann aðeins nokkrum sinnum þegar ég var ungur en ég heyrði hans getið sem góðs manns, fjörugum og síkvikum. Eftir lát hans bjó Þórdís lengi á Litlu-Háeyri með sonum sínum og síðast hjá Guðjóni.