You are currently viewing Þórdís Símonardóttir

Þórdís Símonardóttir

Þórdís Símonardóttir ljósmóðir mátti segja að byggi einnig í Eyvakoti, eða á í húsi sínu miðja vegu milli Stóruháeyrar og Eyvakots, en áður bjó hún í barnaskólanum á Skúmsstöðum með fyrri manni sínu, Bergsteini Jónssyni Þórðarsonar alþm. frá Eyvindarmúla. Síðari maður Þórdísar var Jóhann Sveinsson úrsmiður en þau skildu og fór hann þá til Seyðisfjarðar.

Þórdís var dóttir Símonar gamla Sigurðssonar er síðustu æfiár sín lifði hjá tengdasyni sínum, Jóni Jónssyni í Eystri-Móhúsum og konu hans, Ólöfu. Símon gamli var merkur maður mjög og óður, greindur vel og búforkur hinn mesti meðan hann bjó í Borgarfirði (Kvígindisstöðum?) en lúinn mjög og kominn að fótum fram er hann settist í hornið hjá Ólöfu dóttur sinni. Þórdís ljósmóðir  var mikilhæf kona, ljósmóðir hin besta, en skapstór nokkuð, enda eltu þau löngum „grátt silfur“ saman hún og Guðmundur Ísleifsson. Þórdís var raungóð kona, tryggðartröll hið mesta og góður vinur vina sinna, en hún þoldi lítt yfirgang og ranglæti og lét þá hart mæta hörðu, því ekki vantaði hana áræðið né ötulleikann á því að koma sínu fram við hvern sem var að eiga.

Hún var annars „partímaður“ mikill og skörungur hinn mesti, stórvaxin og sópaði mjög að henni að hverju sem hún gekk. „Tveir harðir steinar mala sjaldan smátt“ mátt um þau segja Guðmund á Háeyri og Þórdísi, en mikill munur var þó á þeim í mörgum greinum og drengskapur hennar miklu meiri en hans og greindir, góðvildin og skilningurinn á kjörum annarra ólíkur því Þórdís var jafnan hin mesta hjálparhella öllum þeim er bágt áttu og áttu við erfiðleika að stríða. Ljósmóðurstörf hennar voru til fyrirmyndar, en í stjórnmálum, sem hún lét sig miklu skifta, var hún skelegg og mjög óvægin. Bergsteinn maður hennar var mikilhæfur maður og henni í ýmsa lund líkur, en hún missti hann 14. maí 1974, aðeins 37 ára að aldri. Hann var söngmaður góður, skáldmæltur vel og drengur góður.