Guðmundur Guðmundsson

Guðmundur Guðmundsson

Guðmundur í Sandgerði Guðmundsson, er átti Katrínu Hannesdóttur frá Hvoli í Ölvesi. Guðmundur var ættaður af Akranesi eða úr Borgarfirði, bróðir Sigmundar í Görðum á Akranesi. Guðmundur var meðhjálpari við Eyrarbakkakirkju og verslunarmaður við I.R.B. Lefoliiverslun.

Hann var meðalmaður vexti, vel vaxinn, ljósleitur í andliti en skegglaus að öðru en því, að hann hafði barta í vöngum. Stirt var honum um mál og stamaði nokkuð, enda oft mikið í hug og var hann þá hávær. Meinleysismaður var Guðmundur, glaðlyndur í starfi og góður félagi, m.a. í Goddtemplarafélaginu, sem hann hafði mikinn áhuga fyrir og rækti manna best. L’hombre spilari var hann góður og spilaði hann það spil næstur daglega við P. Nielsen gamla; mátti segja, að hann væri fastráðinn hjá honum til þessa afþreyingarstarfs hans í einverunni og varð það þá vitanlega hlutverk Guðmundar að útvega a.m.k. þriðja manninn eða fjórða og voru það oftast Jóhann V. Daníelsson („Jói vaff“) og Pétur Guðmundsson kennari. Var þetta eitt hið skemmtilegasta „L’hombre-partí“ er ég hefi kynnst. Glaðvært gott samkomulag og skrafið mikið, því allir voru menn þessir góðir vinir og vissu hverstu gott verk þeir voru að vinna með því að gleðja hinn gamla og góða húsbónda síns.

Close Menu