Sigurður Pétursson bjó í Naustakoti, og Ólöf kona hans Jónsdóttir, systir Þorkels í Óseyrarnesi, Hinrik í Ranakoti og Þóru á Kalastöðum. Þau Sigurður og Ólöf voru afi og amma Sigurgeirs biskups. Sigurður í Naustakoti var, eins og eir bræður, – þ.á.m. Jón í Simbakoti, bóka- og fræðimaðurinn gamli, – lágur maður vexti, gildur vel, stilltur og stöðuglyndur, alskeggjaður og hærður nokkuð. Sá ég hann oft og geðjaðist vel að, enda fór orð af því, hversu vel hann var viti borinn maður og vandaður í öllu, eins og það fólk allt. Það barst lítið á, stundaði störf sín öll með hinni mestu elju, dugnaði og trúmennsku. Þetta held ég og, að segja megi einnig um nær alla Eyrbekkinga og Stokkseyringa á þeim tímum, enda er þeim viðbrugðið enn í dag fyrir þetta allt og eigi síst dugnað sinn, atorkusemi og ráðvendni. Þetta var svo rótgríð eðli þeirra og innræti, að ég held, að aðrir þeir, er úrkynja voru, hafi eigi haldist þar við.