You are currently viewing Sigurður Eiríksson

Sigurður Eiríksson

Sigurður Eiríksson regluboði, faðir Sigurgeirs biskups var lengi vinnumaður hjá Einari borgara og kenndi Sigfúsi orgelspil. Eftir að Sigurður kvæntist 1889 og ég flutti til Eyrarbakka sama ár hafði Sigfús nokkra tíma hjá mér við nám þetta og var uppfrá því, þangað til hann fór í Latínuskólann, meðlimur Söngfélagsins Bára á Eyrarbakka, ásamt Sigurði Eiríkssyni og öðrum ágætum söngmönnum, t.d. frú E. Nielsen, Guðmundu J. Nielsen (dóttur hennar), prestsdætrunum Elísabetu og Vilborgu Jónsdætra Björnssonar prests (d. 2. maí 1892), Elínu Sigurðardóttur, konu Kristjáns Jóhannessonar, frú Kristínu Blöndal, konu Ásgeirs læknis, Halldóri Gíslasyni trésmiðs, Guðmundir Oddgeirssyni, Guðmundi yngra Guðmundssyni (bóksala), Brynjólfi Árnasyni skósmið, Gísla Gíslasyni skósmið á Skúmsstöðum og systrum hans, Sólveigu Daníelsen og Þórunni, Sigurði Gíslasyni múrara í Eyvakoti, Ingvari Gíslasyni beyki, Jóni Einarssyni í Mundakoti, Elínu Eyvindardóttur frá Eyvakoti og bræðrum hennar, Eyvindi og Þórði Eyvindssonum o.fl. sem ég man nú naumast nöfnin á. Var þetta úrvalssöngfólk og kenndu þau Sigfús og Guðmunda J. Nielsen undirraddirnar í mörgum þeim lögum er við sungum til þess að létta undir með mér bæði við kennsluna í félaginu og kirkjusöngnum, enda söng flest þetta fólk einnig í kirkjunni.

Þá var Geir Sæmundsson frá Hraungerði (síðar prestur og vígslubiskup) oft einsöngvari í samsöngnum þeim, er við héldum opinberlega og einu sinni var Steingrímur Johnsen frá Reykjavík einsöngvari þar hjá okkur. Samsöngva héldum við oft á ári, einkum frá 1890-1897. Get ég þess einkum í sambandi við Sigfús til þess að sýna hversu góður og liðtækur félagi hann var og samstarfsmaður, eins og þeir og þær voru öll, er hér hafa nefnd verið – Og nú man ég eftir þrem söngfélagsmeðlimum þeim er ég síst hefði átt að gleyma: Gísla Jónssyni („Tuborg“) og systrunum Ástu og Halldóru dætrum Guðmundar bóksala, en öll voru hinir prýðilegustu söngmenn.

Fyrsti kennari Sigfúsar Einarssonar var Símon gamli Gíslason, er einnig kenndi börnum Gríms í Óseyrarnesi. Var ættaður úr Hraungerðishreppi (frá Oddgeirshólum), gamall umferðarkennar og hann góður.