You are currently viewing Sæmundur Kristjánsson Foki

Sæmundur Kristjánsson Foki

Hann var meinhægðarmaður, fáorður og fjaslaus; fátækur var hann en vinnusamur og víkingur til sjóróðra. Kotið sem hann bygði var örreytis kot eins og flest önnur býli þar í Hraunshverfi. Framfleytti 2-3 kúm og kindum nokkrum og var það frekar fyrir þá sök að harðlega var barist fyrir tilveru heimilismanna með framúrskarandi dugnaði, nýtni og sparsemi, en þó að ábúðarjörðin hefði svo mikla kosti: 50-60 hesta töðufeng og mýrarslægjur á Hraunsmýri sem jafnan var svo snögg – eins og Breiðamýri öll var – að duglegur maður sló aðeins 2-3 hesta á dag frá morgni til kvöld, þótt af kappi væri unnið.

Kona Sæmundar hét Sólveig, hávaxin, þrekmikil, rjóðleit og holdug, með allstórt nef, með blíðleg augu, en skapstór var hún svo að af henni sópaði. Þeim kom vel saman, Sæmundi og Sólveigu; börn áttu þau mörg og öll mannvænleg; meðal þeirra er Elín í Vestara Íragerði og Guðleif kona Sigurðar í Hafliðakoti, Sæmundur (er varð holdsveikur( og Jóhannes.

Sæmundur var sonur Kristjáns Jónssonar og Salgerðar Einarsdóttur, systur Þuríðar „formanns“ og var það í almæli að þeim fylgdi Sels-móri og varð ég einu sinni var við það sem ég hefi lítillega látið getið í frásögu minni um hann. Bróðir Sæmundur var Kristján í Keldnakoti, faðir Magnúsar mormóna.

Allt var þetta fólk manndómsmanneskjur, en miður greindar taldar athafnasamar og skilvísar í viðskiptum við aðra.

Þuríður formaður andaðist 13. nóv. 1863, 86 ára. Salgerður systir hennar 12. apríl 1864, 77 ára og Sæmundur í Foki 19. ágúst 1879, 63 ára. Helga hét systir hans (Helga í Móhúsum), andaðist 14. maí 1887, 77 ára. Hún var kona Eiríks smiðs í Móhúsum (d.  ?      /en hann var bróðir Guðleifar? konu Hannesar á Stéttum.