You are currently viewing Pálmar Pálsson Stokkseyri

Pálmar Pálsson Stokkseyri

Pálmar (d. 24. jan. 1931) var kvæntur Þóru Bjarnadóttur frá Símonarhúsum, systur Þuríðar konur Ísólfs, og Kristínar, konu Sigurðar Hinrikssonar í Ranakoti. Þau voru barnlaus, en ólu upp nokkur börn, vandalaus og fóru vel með þau, enda voru þau bæði góðsöm og öllum velviljuð. Pálmar hafði „lært til sjós“ hjá Páli í Íragerði, var formaður á skipi hans eftir að Páll hætti, heppinn vel og sjósækinn; ég reri hjá Pálmar um skeið og undraði oft  hversu fljótu hann var og útsjónarsamur við öll sín sjávarverk. Hásetar hans virtu hann mikils; hann var gæflyndur maður, góðgjarn og hjálpsamur við alla. Ég held að hann hafi ekki getað neitað neinum manni um bón hans; því varð hann í svo miklum ábyrgðum fyrir aðra, að Magnús Torfason sýslumaður hikaði ekki við að gjöra allt hvað í hans valdi stóð til þess að koma því svo „haganlega“ fyrir að dánarbú hans varð þrotabú, og ekki fékkst þessi „réttláti“ sýslumaður til þess að gefa einn eyri eftir af fjármunum búsins sem þó eigi voru litlir, til þess að kosta legstein á leiði Pálmars. Mun þar hvortveggja hafa ráðið réttsýni sýslumannsins og það, að Pálmar vildi aldrei verða skósveinn hans eða reka nein af pólitískum erindum yfirvalds þessa, sem svo oft hafði látið svipu réttlætisins ráða að baki fjölda margra manna og einkum ekkna, er á mestri mannúð þurftu að halda. Pálmar var staðfastur í lund og drengur hinn besti, en þær lyndiseinkunnir munu ekki hafa passað í kramið hjá yfirvaldi Árnesinga í þá daga, enda ólíkar hans eigin innræti.

Pálmar naut hylli og virðingar allra góðra og vandaðra manna, en ekki yfirvaldi þess, og þó fór hann með heiðri og sóma héðan frá jarðlífinu. Hann gekk heill til hvílu að kvöldi, en lá andaður í rúmi sínu að morgni, sáttur við Guð og menn – einnig við Magnús Torfason – enda grunaði hann eig hvern hug hann bar til hans, en það birtist best eftir andlát Pálmars hversu hollur sá hugur var!