Páll Jónsson Syðra-Seli

Páll Jónsson Syðra-Seli

Faðir minn var í hærra meðallagi í vexti, nettur, vel vaxinn, rjóðleitur í andliti með lítið kragaskegg, jarpleitt á lit; hann var munnfríður, nefið beint, augun móbrún, ennið hátt og hárið svart. Hann gekk stinghaltur alla æfi frá þriggja ára aldri, hann fékk svo vonda ígerð í hægri fótinn, að hann krepptist upp að lærinu og kálfinn hvarf eða visnaði svo, að fótleggurinn fyrir neðan hné varð eigi gildari en mjóleggurinn fyrir ofan ökkla, þó bagaði hann þetta eigi mjög.

Hann var svo jafnlyndur og stilltur í allri framgöngu að til þess var tekið og þeim oft jafnað saman að þessu leyti, svilunum Páli í Íragerði og honum.

Mörgum trúnaðarstörfum gegndi hann: Var hreppstjóri, gangnaforingi í fjallaferðum og stefnuvottur um mörg ár. Hann var sérstaklega orðvar, fremur fámáll en glaðlyndur og góður til viðræðu; sérstaklega var hann athugull vel og framsækinn um allt það, er hann sá að miðaði til góðs; tók hann þá á þeim málum með festu og fylgi, eftir lagna og rólega athugun, en hann var ekki nýungagjarn og sagði oft við okkur: „Breytið aldri því sem vel fer“. Þetta voru heilræði hans og mörg önnur. Sáum við, að þetta voru sannyrði, því engin ástæða er til að breyta því, sem annars fer vel: það getur ekki batnað heldur oft versnað. Hitt er annað mál, hvað hverjum þykist fara vel og um það geta verið skiptar skoðanir og því fer oft sem fer, að ekki er ávalt tekin sá kosturinn sem vænlegri er.

Ég sá föður minn aldri skipta skapi nema einu sinni um jólin, þegar Pési kom heim og tók til að ausa yfir hann og aðra einhverjum dómadagsskömmum. Tók faðir minn þá Pétur og barði höfði hans svo upp við kvarnasteininn, að blóðið rann úr skall Péturs. Það var erfitt oft að þola særingaryrði Péturs. Þegar hann kom heim eftir viku- eða hálfsmánaðar túra og helti sér yfir alla með þeim ósköpum, sem honum voru þá lagin, en eftir ráðningu þessa sefaðist hann svo, að hann fitjaði aldrei upp á því framar við föður minn og heldur ekki aðra, ef hann var við. Þeir urðu brátt bestu vinur eftir þetta, enda var Pési gamli allra besta skinn, sárfrómur maður og vandaður; víndrykkja hans var honum og öðrum hið mesta böl, enda sagði hann þetta um sjálfan sig: „Það er von að ég sé fylliraftur, sem er getinn og gotinn í brennivíni“. Foreldrar hans báðir voru mjög drykkfeldir og vínið flóði úr yfir allt og alla á uppþvottar og flækingsárum Péturs, þessa góða og vandaða manns, sem öllum vildi vel, en var sjálfum sér til ama.

Faðir minn var aldrei ríkur, en bjó góðu búi, bætti jörð sína, sem var leigujörð, mjög, enda var hann ráðdeildarsamur og vann sjálfur með mikilli iðni og af dugnaði; hann kunni vel að stjórna öðrum og gerði vel við þá sem hjá honum unnu.

Móður minni get ég ekki lýst án þess að það sem ég segi um hana kunni að vekja tortryggni um, að ekki sé það rétt, heldur öfgakennt. Það vil ég þó forðast.

Betri móður og umhyggjusamari, starfsamari konu, fróðari og minnugir held ég að sé vandfundin. Hún var smá vexti, en að öðru leyti sýna myndir sem voru teknar af henni árið 1900, þá 70 ára að aldri, hvernig hún var að útliti. Hún var söngkona góð, las mikið en vann þó enn meira því henni féll aldrei verk úr hendi og þótt hún væri lengstum heilsuveil þurfti hún lítinn svefn. Útivinna féll henni vel, að fara í sölvafjöru, slá ferginis og starraflóð, að aka skarni í hjólbörum út á túnið, ef hún hafði nokkurn tíma til þess frá inniverkum, en það var eigi oft, því heimilið var mannmargt og sjaldnast hafði hún nema eina vinnukonu í senn. Það var alveg ótrúlegt hversu miklu hún fékk áorkað og unnið og ó entist æfi hennar svo, að hún varð 84 ára að aldri, f. 16. maí 1830 og d. 20 mars 1914. Hún var glaðlynd og guðelskandi kona og ég tel það tvímælalaust að sé nokkrar dygðar eða dugnað í okkur, sonum hennar að finna, þá eru þær fyrst og fremst til hennar að rekja og enda til þeirra beggja því þau voru mjög lík í skoðunum og að eðlisfari, enda náskyld að frændsemi: þremenningar, því Sturlaugur, afi föður míns og Grímur afi móður minnar voru bræður, Jónssynir Bergssonar frá Brattsholti en systir þeirra var Guðlaug, móðir Jóns Þórðarsonar í Móhúsum er var afi Adólf (föður Önnu) en hann átti Guðríði Gísladóttur, systur Margrétar ömmu móður minnar.

Læt ég nú þessari umsögn minni um foreldra mína lokið að þessu sinni, og blessa minningu þeirra með sonarlegri viðkvæmni, virðingu og þakklæti.

Close Menu