You are currently viewing Ólafur Bjarnason

Ólafur Bjarnason

Ólafur Bjarnason, bróðir Gissurar á Litlahrauni, Ólafs eldra og Bjarna í Steinskoti, bjó í Stíghúsi, lítið vestar en Þórdís. Kona hans var Ingibjörg Pálsdóttir ættuð úr Þykkvabæ (Borgartúni) og systir Kristjáns þar, fríð sýnum og góð kona.

Þau voru foreldrar Sigríðar, konu Sigurðar bóksala Guðmundsonar, Þorkels kaupmanns og Axels er dó ungur, öll hin ágætustu, eins og foreldrar þeirra bæði. Ólafur í Stíghúsi var trésmiður, en Ólafur bróðir hans söðlasmiður eins og Gissur bróðir þeirra, ættaðir úr Skaftártungu eða af Síðu. Heimili þeirra var hið snyrtilegasta og uppeldi barna þeirra afbragðsgott.

Ólafur var tæplega af meðalstærð, laglegur vexti, dökkur á hár og skegg (hann hafði aðeins skegg á efri vör), fríður sýnum, með grá augu, beint nef, nokkuð gilt. Hann var hæglátur maður, stilltur vel og glaðlegur í viðmóti. Allir höfðu þeir bræður dimman málróm og raddsterkan og báru af sér góðan þokka.