Guðmundur Þorsteinsson

Guðmundur Þorsteinsson

Guðmundur Þorsteinsson í Eimu, en hún er norðan við Eyvakot, var þjóðhagasmiður, einkum á járn. Hann var ættaður frá Reykjum á Skeiðum og bróðir Þorsteins bónda þar. Guðmundar var lágur maður vexti, dökkur á hár og hörund, stillingarmaður hinn mesti, en þó bæði glaður í bragði og spaugsamur. Kona hans var Þórunn (venjulega nefnd „Tóta í Eimu“) glaðleg kona og góð; hún var jafnan ein þeirra kvenna, er tóku á móti ullinni á ullarloftinu við Lefoliiverslun og þótt hún væri engin skrafskjóða eða skerrjóla, var umræðum um ýms dægurmál og viðburði þar á Bakkanum engu síður umræðuefni hennar enn annarra og hafði hún gott lag á því að halda samverkakonum sínum vel við efnið og finna upp á ýmsu því, er gæti haldið henni og þeim vakandi við vinnu sína, enda var hún stundvís og vel iðin, vönduð og vel verki farin.

Eimu hjónin voru talið, og að með réttu, ein hin merkari hjón þar í byggðarlaginu. Þórunn var fremur lágvaxin, nett og nokkuð bogin í baki, rjóð í andliti og smáeygð, nefið beint og bauð hún af sér góðan þokka. Börn hennar voru mörg og þeirra á meðal Ingibjörg, kona Gunnars Jónssonar trésmiðs, en meðal barna þerra eru synir tveir, Guðmundur og Kristinn, báðir trésmiðir, svo og Ásta, forstöðukona fyrir gistihúsinu á Eyrarbakka, er foreldrar þeirra höfðu stofnað í barnaskólahúsinu gamla sem byggt var 1877 og stendur enn, en sem Gunnar keypti og flutti neðar á lóðina þegar barnaskólinn var byggður suður af Steinkotshópi 1913 (?).

Fleiri voru þau börn Eimuhjónanna, m.a. síðari kona Jóns Ásbjarnarsonar frá Brennu, en eigi man ég nú nöfn þeirra, en bræðurna tvo, er ég hefi nefnt og Ástu einnig þekkt ég sem ein hin bestu skólabörn mín og bestu vinir síðan. Eru þau öll hvert örðu myndarlegra, staðfastara og öruggast í öllum viðskiptum, góðgjörn og greiðvikin.

Close Menu