Magnús Þórðarson

Magnús Þórðarson

Magnús Þórðarson í garðbæ og kona hans Sigríður Jónsdóttir (?) voru merk hjón mjög og góð. Magnús smiður var hann nefndur og hefi ég skrifað nokkur orð um hann og hagleik hans; er óþarft að endurtaka það hér. Aðeins vildi ég lýsa útliti hans að nokkru: Hann var smár vexti, boginn í bakið og biksvartur á hörund vegna kolareyks úr smiðjunni, en þar sat hann öllum stundum við smíðar sínar þegar hann var ekki að meitla járnstangir niðri í kompu „járnsmiðsins“ við Lefoliiverslun. Magnús var smáeygður, með stórt nef og smáan munn, höku mjóa og langa, þunnur var hann á vangann, enni hátt og allt var andlitslag hans góðmannlegt. „Sigríður í Garðbæ“ – svo var hún jafnan nefnd – var smá vexti, nett og framúrskarandi góðleg, enda fór það orð af henni að hún væri með afbrigðum góð kona. Dætur áttu þau tvær: Stefaníu, konu Guðmundar Þorkelssonar frá Óseyrarnesi og bjuggu þau lengi að Velli í Gaulverjabæjarhreppi og var Guðmundur þar hreppstjóri lengstum öll þau ár. Önnur dóttir þeirra var Kristín, „Stína í Garðbæ“ – giftist Jóni Vigfússyni verslunarmanni og fluttu þau vestur á Kyrrahafsströnd (Bellingham). Eru þær systur báðar enn á lífi, háaldraðar mjög. „Stína í Garðbæ“ var eftirlifandi mynd föður síns, glaðleg og góð stúlka.

Magnús var óvenjulega hugvitssamur smiður og sannaðist oft á honum að „fáir sjá við hags manns höfgum“

Garðbæjarheimilisins verður ávalt minnst með aðdáun og þakklæti hinna mörgu manna, er áttu því láni að fagna að kynnast því.

Close Menu