Jón Þorkelsson Vestri-Móhúsum

Jón Þorkelsson Vestri-Móhúsum

Jón var lengstum formaður í Þorlákshöfn, heppinn og sjósækinn nokkuð, en þó eigi meðal hinna fremstu þar í þeirri grein, t.d. eins og Jón í Hlíðarenda, Grímur í Nesi eða Ólafur á Dísastöðum: hann fór gætilegar að sjó en þeir, en stóð þeim þó eigi að baki með aflabrögðin um vertíðarlokin.

Jón var kvæntur Valgerði Ásgrímsdóttur, systur Ingveldar, konu Adólfs og Andrésar á Litlu Háeyri (d. 9. ágúst 1883, 42 ára að aldri) en hann var faðir Þorleifs, Ingveldar konu Helga Skúlasonar frá Odda, o.fl. Börn þeirra Jóns og Valgerðar voru: „Ásgrímur sjómaður, Andrés kaupmaður (Ásgrímur andaðist 29, apr. 1929, en Andrés 31. mars s. ár). er báðir voru hinir ágætustu menn, og svo Sigríður saumakona hér í bænum. Móhúsaheimilið var fyrirmynd að reglusemi og snyrti og börn þeirra hjóna vel uppalin og mannkostamanneskjur hinar mestu. Jón Þorkelsson var í hærra meðallagi að vexti, þéttbyggður og sterklegur, enda með afbrigðum sterkur að afli, og eftir því úthaldsgóður til vinnu og eftir því kappsamur. Betri maður til sláttar og að draga þunga lóð úr miklu dýpi, t.d. á Selvogsforum, held ég að ekki hafi verið til um þær mundir. Jón var laglegur maður, með mikið enni og brýr, skeggjaður á vöngum og undirhöku, hár og skegg kolsvart að lit, nefið beint, en þó dálítið söðulbakað, munnur í meðallagi stór.

Jón var ræðinn vel og fróður, en sagði þó fremur fátt um það sem honum ekki líkaði vel, var hann þá einkennilega köpuryrtur og hló dátt að vitleysum annarra. Eru til margar kýmnissögur af Jóni og einkennilegum tilsvörum. Hann [var] framúrskarandi áreiðanlegur í orðum, athöfnum og viðskiftum og mátti ekki vamm sitt vita í neinu. Ég réri margar vor- og haustvertíðir með Jóni. og auk þess tvær vetrarvertíðir í Þorlákshöfn, 1885 og 1886 og því þekkti ég hann vel. Þeir voru „mestu mátar“ hann og Einar Guðmundsson, sem legni bjóða Brekkustíg 4 hér í bænum, enda ávalt lagsmenn í Höfninni. Var oft gaman að hlusta á umræður þeirra, og þá eigi síst, er þeir voru sinn á hvoru máli um eitt eða annað, sem oft vildi bera við, en aldrei varð það þeim til sundurlyndis eða vinslita, því þeir virtu hvor annan mikils og unnust af heilum hug. Einar andaðist 20. mars 1935 en Ingileif kona hans 14. jan. 1938. Höfðu þau öll verið saman í Óseyrarnesi og „stundað ána“ af miklum dugnaði og ósérhlífni. Var mikil vinátta milla þeirra allra síðan.

Valgerður, kona Jóns andaðist 5. júlí 1917, 69 ára að aldri, en Jón Þorkelsson 31. mars 1920, 67 ára; var hann þá háseti Páls Grímssonar í Þorlákshöfn, en bilaður mjög að heilsu. Valgerður var hin mesta myndarkona, hreinleg mjög, þrifin og framúrskarandi góðgerðarsöm og hjartagóð, eins og móðir hennar, Anna gamla Andrésdóttir á Háeyri, og var henni lengi viðbrugðið í þeim efnum.  Þau Jón og Valgerður bjuggu ávalt vel, voru nýtin og sparsöm, enda höfðu þau alist upp við það á æskuheimilum sínum, hvort um sig og svo þegar áverkni, dugnaður og reglusemi haldast í hendur, hlýtur allt að ganga betur, jafnvel þótt ýmiskonar veikindi yrðu á vegi þeirra beggja.

Close Menu