You are currently viewing Jón Stefánsson

Jón Stefánsson

Jón Stefánsson og Sigríður Vigfúsdóttir bjuggu á Skúmsstöðum. Þau voru foreldrar Sigurðar læknis í Sandö í Færeyjum, er andaðist í Kaupmanna 30. des. 1935 og Sigurjóns Péturs skipstjóra. Sigurður læknir var einkennilega merkur maður og ágætur læknir, og var um hann sagt, að svo bæri hann af öðrum stéttarbræðrum sínum, að hann hefði átt að verða lækna kennari hér við háskólann. Hin síðari ár æfi sinnar þjáðist hann af svefnsýki og mun hann hafa dáið úr þeirri veiki. Hvort sem hún hefir átt þátt í því, þá var hann löngu áður veiklaður mjög, sem sýndi sig í því, að hann var hræddur við ýmsa sjúkdóma og jafnvelvið sum meðöl, og þegar hann gekk undir læknapróf sitt, sem hann lauk með ágætum, lagði prófdómarinn fyrir hann að ákveða hvaða meðal það væri sem hann fékk Sigurði til að lykta f og jafnvel smakka, en Sigurður átti ómögulegt með að muna nafnið á meðalinu og þekkti hann það það vel, en það var – terpentína Sigurður, sem var skjólstæðingur minn (og Sigurjóns bróður hans einnig) meðan þeir voru að læra, sagði mér sögu þessa af sér og undraðist mjög hversu minni hans og þekking brást honum í svo alvarlegu og þýðingarmiklu augnabliki, en hann var að ljúka embættisprófi: Að muna ekki nafnið á jafn kunnu meðali, sem terpentínu. En svona einkennileg augnablik gátu stundum komið yfir hann.

Þeir voru miklir vinir, Ísólfur bróðir minn og Sigurður, voru oft hvor öðrum til aðstoðar við ýmiskonar vandamál, uppfyndingar og önnur torskilin efni, sem því miður, áttu erfitt uppdráttar, sökum fátæktar þeirra sjálfra en einkum þó vegna afskiftaleysis og misskilnings annarra á þeim sjálfum og viðfangsefnum þeirra. Fundu báðir mjög til þess, þótt lítið léti þeir á því bera, því báðir voru þeir dulir mjög í skapi, samviskusamir menn og vandaðir.

Sigríður, móðir Sigurðar var kona Jóns Stefánssonar, var há og grönn kona, hægfara og stillt mjög; Sigurður var líkur henni í sjón og í reynd. Hann kvæntist danskri hjúkrunarkonu, sæmilega vel gefinni og áttu þau þrjá sonu, en allir líktust fremur móður sinni en föður, enda urðu þeir eigi að því liði, sem efni stóðu til og vonir um þá, og því siður börn þeirra. synir Sigurðar, tveir hétu Stefán og varð hann vélstjóri, en hinn Sigurður, en nafn þriðja sonarins man ég ekki. – Þrátt fyrir hæfileika Sigurðar læknis, mikinn lærdóm og mannkosti mikla, mátti svo að segja að margt gengi niður fyrir honum en vænta mátti um svo mikilhæfan mann og góðan, en þá gleði fékk hann þó að sjá og reyna að verða mikilsmetinn læknir og mannvinur Færeyinga á Sandö, þrátt fyrir andstöðu hinna dönsku yfirvalda í Þórshöfn, er á alla lund reyndu að gera Sigurði erfitt um áhugamál hans og umbætur, enda munu þeir hafa átt mestan þátt í því, að Sigurði var lofað góðu læknisembætti í Danmörku en var svikinn um það.

Sigurður þráði mjög að mega starfa hér á landi, og því sótti hann mjög fast á mig með það að koma sér hér að, sem lækni við Sjúkrasamlag Reykjavíkur. Þetta tókst mér að vísu: Hann var ráðinn, bústaður, nýtt hús, er Gunnar kaupmaður Gunnarsson hafði þá í smíðum neðst við Skólavörðustíg, var fengið, en þá kom Læknafélag Reykjavíkur fram, með hótun sína um það, í símskeyti til Sigurðar, að ef hann setti sig hér niður, sem læknir samfélagsins, væri Læknafélagið alltaf reiðubúið til þess að vinna af öllum mætti – ekki með honum, heldur á móti honum! Sigurður hræddist þessar hatrömmu hótanir félags stéttarbræðra sinna, sendi mér símskeyti um það, að hann væri hættur við ráðningu sína við Samlagið. – Síðar neitaði stjórn Læknafélagsins því, að nokkur einstakur meðlimur þess hefði farið þannig að ráði sinu, heldur stæði félagið alt að ósómanum, sem það vitanlega vildi þó eigi viðurkenna að væri sinn ósómi, heldur stéttarleg samtök um það, að líða engum lækni þá frekju að verða til þess að aftra því, að samlagið tæki lækni eða lækna úr hópi þessara óeigingjörnu ! og vel þokkkuðu ! stétt sinni. Um þetta allt sem m0rg bréf og skeyti í fórum Sjúkrasamlagsins fyrir nál. 20 árum.

Upp úr þessu fór Sigurður að hugsa um læknisembætti í Danmörku, sem áður segir, því embætti hans í Færeyjum nægði honum eigi til lífsframdráttar fyrir sig og fjölskyldu hans; hann var enn skuldugur frá námsárum og Læknafélag Reykjavíkur , þ.á.m. eintakir meðlimir þess, t.d. Þórður J. Thoroddsen o.fl. eiga heiðurinn af því, að hafa bakað þessum stéttarbróður sínum óhæfilega erfiðleika, svifta hann ánægjunni af því að fá að starfa hér og að lokum elnað sótt hans er dró hann loks til dauða.

Það er að vísu ekki eini maðurinn, sem fyrir atbeina lækna þessara hafa hlotið hlutskifti þau sem Sigurður varð fyrir, en hann var þó einn af þeim.

Jón Stefánsson var maður  hæglátur og hversdagslega gæfur; hann var lengi vökumaður við Lefoliiverslun, fremur lágur maður vexti, ljósleitur á hár og hörund, alskeggjaður og andlitsfríður, nokkuð búlduleitur og þéttvaxinn. Stöðu sinni gegndi hann vel og var góður fylgdarmaður þeirra sem fóru í langferðir með lestir eða lausríðandi voru, en þeir voru margir og vildu flestir kjósa sér hann sem fylgdarmann, enda var hann lipur og léttur við þau störf sem önnur.

Um Sigurjón Pétur, son þeirra, vil ég vera fáorður, en á honum hefir sannast „að sjaldan launar kálfur ofeldið“, því hafi ég og kona mín gert nokkrum manni vel til og hjálpað honum, þá var það hann, og einnig sú, er sízt allra hafa viljað viðurkenna það eða þakka á nokkra lund. Hann kvæntist norskri konu, ágætri mjög, en ekki reyndist hann henni svo sem hún átti skilið. Hjálp mín og konu minnar í garð þeirra bræðra var fyrst og fremst sú, að standa í ábyrgðum fyrir lánum þeirra beggja – því í raun og veru bar konu minni að standa á þeim ábyrgðum ef mín missti við. Í öðru lagi kom ég Sigurjóni að sem skipstjóra á eimbátnum Ingólfi 1908 og kom af stað timburverzlun þeirri er hann rak hér, annaðizt reikningshald hans og ábyrgðist lán þau er til þess þurftu og síðast en ekki sízt útvegaði ég honum læknishjálp þá er honum dugði til þessa að hann héldi lífi í spönsku veikinni 10. nóv. 1918 og úr því, annars var hann þá talinn af með öllu.

Allt þetta var þó eigi meira eða merkara en svo, að mér og hverjum öðrum sæmilegum manni sem annars hafið bundizt vináttuböndum við hann og heimili hans, hefði átt að vera það ljúft og skyld – og það var svo – en hinsvegar eigi verðskuldað að vera nefndur ókvæðisnöfnum, sem ég vil ekki láta eftir mig sjást, en þau lýsa hreinskilin (!) og hug manns þessa til mín og málefna þeirra er í millum okkar fóru, án þess að ég vissi neina orsök til sundurþykkis í þeim. Veit hana enn enga!

Nú er Sigurjón kvæntur öðru sinni myndarlegri konu en þó eigi jafnoka hinni fyrri sem í alla staði var góð kona og göfug.

Son eiga þau (Sigurjón og Karen fyrri kona hans) er Jón heitir, en hann hefi ég eigi séð síðan hann var barn að aldri og nú hafa hvorki hann né faðir hans talað til mín nokkurt orð, heldur flúið mig. Þetta tekur mig þó eigi sárt, en sýnir það, að „laun heimsins eru oft vanþakklæti“ og það er síður en svo að ég beri nokkurn kala til þessa manns eða sonar hans, en Sigurðar læknis sakna ég og kona mín mjög.