Jón Ormsson bróðir þeirra Gests og Magnúsar sá ég aðeins einu sinni. Hann bjó í Norðurkoti og hafði m.a. Þá atvinnu að vera það sem Danir kalla „Mestermand“. Kona hans var Kristín Jónsdóttir Gottsveinssonar. „Stína í Koti“ var hún ávalt nefnd og varð hún fjörgömul kona, lífleg og létt á fæti, en „lagleg“ var hún ekki. Hún gekk á hverjum sunnu- og helgidegi til Stokkseyrarkirkju, jafn eftir sem áður að kirkja var reist á Eyrarbakka (1890), því hún var guðrækin kona mjög og las húslestra sína á hverjum degi allt árið um kring.
Börn átti hún mörg: Jakob í Einarshöfn, heitir eftir eða í höfuðið á séra Jakobi Árnasyni í Gaulverjabæ. Jón í Norðurkoti, sem enn er á lífi, nær níræður, mesti atorkumaður, en með afbrigðum drykkfeldur. Sonur Jóns er Kristinn (í Koti), sjómaður hér í bænum, en sonur Kristins er Pétur lögregluþjónn.
Kristínu og Guðnýju átti Jón í Koti fyrir systur og fluttu þær báðar (?) til Ameríku ungar að aldri. Stína gamla í Koti kenndi Kristínu dóttur sinni „kverið“ utanbókar, því hún var tornæm mjög, og einnig flest börnin hin.
Þó sagt væri að Stína í Koti og börn hennar, sum „stigi ekki í vitið“, þá var þótt fólk allt með afbrigðum duglegt, og allra bestu manneskjur, ráðvant til orða og verka, fremur glaðvært og skrafhreifið; það komst vel af, enda var iðjuseminni og sparneytnin samfara nægjuseminni einkenni þess: Það var ekki volið eða vílið, heldur góðlátleg ánægja með allt, hversu erfitt sem það virtist vera.
Stína í Kotinu og börn hennar áttu þar „Hauk í Horni“, sem Thorgrímsen fólkið var og þá eigi síður þar sem Nielsenshjónin voru. Það var sagt að börnin hennar Stínu í Kotinu brigði til hvinnsku eins og þau áttu kyn til (Gottsveins ættin) en að þær frú Sylvia og frú Eugenia, dóttir hennar hafi talað svo vel og einlæglega við þau, að þau hafi látið af þeim óvanda og ávalt reynst hinar frómustu manneskjur alla tíð síðan.
Alls þessa fólks, Ormssonar, kvenna þeirra og barna minnist ég ávalt með aðdáun, þakklæti og virðinu: Það var svo gott og elskulegt í alla staði: Og svona voru næstum allir Stokkseyringar og Eyrbekkingar!