Gestur Ormsson Einarshöfn

Gestur Ormsson Einarshöfn

Hann hafði ávalt mikil viðskifti við sveitamenn; hús hans var jafnan opið öllum er að báru, gestrisnin og góðleikurinn svo innilegur öllum í té látinn að gestur í Einarshöfn var í raun og veru nokkurs konar gestgjafi sveimanna, án þess nokkru sinni að fara fram á borgun fyrir neitt. Þurfti maður að ná í hest, vað að finna Gest, enda var Magnús bróðursonur hans hjá honum sem drengur, hverjum manni viljugri og viðvikslegri. Þyrfti að gera við beisli, gjörð eða reiða, var sjálfsagt að fara tin Gests til þess að fá það lagað eða lánað (og oft gefið). Það var eins og Gestur í Einarshöfn gæi bætt úr öllu og það án þess að neinn yrði var við það hvað hann hafði fyrir stafni, er hann leið inn og ljós innan um alla hestaþvöguna, að gæta að því hvernig færi undir hestinum, eða inni í skemmu sinni eða kofa að leita að einhverju sem Pétur eða Pál vanhagaði um. Meira „stillingarljós“ var ekki að finn en Gests.

Gestur var mjög líkur Magnúsi bróður sínum að ytra útliti, en öllu munnvíðari og rjóðari í andliti. Bróðir þeirra, Jón Ormsson í Norðurkoti var hærri vexti en allt að eins útlits, svo og Jakob í Einarshöfn, sonur hans. Ættarmótið og svipurinn út af fyrir sig sýndi það að þeir voru bræður og þá voru þeir eigi síður líkir hver öðrum að innræti og valmennsku.

Gestur í Einarshöfn var stundum eins og í leiðslu: Hann virtist naumast taka eftir því, þótt einhver hávaði eða ærsl færi fram þar sem hann sat eða stóð. Þá var það einverju sinni á aðfangadag jóla, að „búðinni“ (Lefoliisverslun) var lokað samkvæmt venju kl. 2 e.h. Þreifandi ös hafði verið um daginn og nokkrir „Bakkakarlar“ slangrað þangað niður eftir til þess „að sýna sig og sjá aðra“. Meðal þeirra var Gestur. Þegar lokað hafði verið, stóðu þeir einir eftir út við vegg í búðinni, Gestur og Gísli á Skúmstöðum Einarsson (í Guðnýjarbæ). Virtust þeir ekki taka eftir neinu sem fram fór, t.d. Því að lokað var og allir voru farnir út, og töluðu þeir hvorugur orð frá munni. Gísli beið vitanlega eftir því að hann fengi staup, en Gesti kom ekkert því líkt í hug. Hann beið svona í leiðslu – máske að Gísli færi út. Segir þá Thorgrimsen gamli við þá: Eftir hverju eruð þið að bíða, vinir mínir? Það er búið að loka búðinni!“. Gísli verður fljótur til svars og segir um leið hann virðist átta sig á þessum ósköpum (!):

„Jæja Thorgrímsen minn! Er búið að loka? Ó, hvað það er leiðinlegt Thorgrímsen minn. Það er svo bágt fyrir hann Gest: Hann vantar í staupinu og jóladagurinn er á morgun.”

Thorgrímsen sá kænskubragð Gísla, brosti við og gaf þeim sitt staupið hvorum af góðu brennivíni. Gestur hrökk við, eins og af dvala. Þegar hann heyrði hvað Gísli sagði og Thorgrímsen rétti honum staupið. Vitanlega þáðu þeir það báðir og Gísli sagði um leið og hann rétti staupið að Thorgrímsen aftur:

„Hvílík guðsblessun var þetta fyrir hann Gest – og ég þakka fyrir okkur báða“.

Gestur var holdugri maður en Magnús bróðir hans, enn þéttvaxnari, með líkt skegg, en heldur minna. Hvort hann var kvæntur eða ekki, man ég nú ekki, hygg þó að hann hafi ekki verið það. Á eftir árum hans bjó hann með bústýru sinni (Valgerði Guðmundsdóttur frá Strýtu í Ölvesi (enn á lífi 1940)) og var sæmilega efnum búinn, þrátt fyrir nokkra gestrisni og góðgerðasemi hans við alla.

Aldrei vissi ég til að hann væri formaður, en Magnús bróðir var bæði formaður eins og áður er getið og hafnsögumaður um nokkurt skeið.

Close Menu