You are currently viewing Jón Jónsson Litlu-Háeyri

Jón Jónsson Litlu-Háeyri

Jón sterki Jónsson og Guðrún Símonardóttir, systir Ingileifar Símonardóttur, konu Einars smiðs Guðmundssonar, Bakkastíg 4, bjuggu á Litluháeyri. Jón var bróðir Bjarna í Símonarhúsum, afa Páls Ísólfssonar og Guðmundar Jónssonar á Rauðárhóli, er bar bróðir Jóns og Bjarna. Jón „litli sterkur“ var og sonur Jóns en hvort hann var sonur Guðrúnar man ég ekki, hygg að hann hafi verið systursonur Magnúsar Ingvarssonar á Akri. Jón„litli sterkur“ kallaður svo til aðgreiningar frá föður sínum, drukknaði í Einarshafnarsundi 19. ágúst 1889, 32 ára að aldri, með Guðjóni Þorsteinssyni frá Hóli á Eyrarbakka, 41 árs og Jóni Þorsteinssyni frá Görðum þar, 33 ára. Hann dó af slysinu viku síðar, eða 27. ágúst. Það varð við uppskipun og formaðurinn var Jón Sigurðsson hafnsögumaður, móðurbróðir Sigurgeirs biskups.

Annan son átti Jón sterki og kona hans, Guðrún Símonardóttir, er heitir Símon og hefir hann verið klæðskeri um mörg ár í Kaupmannahöfn, fríðleiksmaður hinn mesti og góður drengur. Jón „sterki“ var fyrsti maðurinn sem jarðsunginn var í kirkjugarði Eyrarbakka 27. nóvember 1894 (en hann dó 17. sama mánaðar 70 ára að aldri).

Jón „sterki“ var eins og nafnið bendir til sterklega vaxinn, fullkomlega meðalmaður á hæð, ljósleitur og limaður vel, glaðlegur í bragði og skemmtilegur í viðræðum; hann var stöðuglyndur og lét eigi hlut sinn fyrir neinum, en friðsamur þó og góðgjarn.

Guðrún kona hans var höfðingleg ásýndum, feitlagin nokkuð og bauð af sér góðan þokka.

Nágrannakonur voru þeirra þær tvær konur, báðar við aldur. Þórunn, kölluð svæsa, móðir Elínar (svæsu) Ólafsdóttur, kona Runólfs í Smiðshúsum. Hin var Margrét Eiríksdóttir, kölluð Manga mara, því hún var móleit á hörund. Viðfangsefni þeirra benda til þess, að þar hafi eigi alsæla verið og kann svo að hafa verið um Þórunni, að hún hafi nokkuð fyrir sér, en hana sá ég sjaldan og þekki hana lítið. Þó held ég að meira hefi verið orð á því gert en var, að hún væri svæsin í lund, enda þurfti eigi mikið til að fá jafnvel alveg óviðeigandi, kersknisfull og rætin aukanefni á þeim tímum.

En Margréti þekkti ég vel; hún var að vísu ekki allra meðfæri, meinleg í orðum og fyndin, en góður vinur var hún vina sinna, skyldurækin í störfum sínum og trú í stöðu sinni. Hún átti son einn, Jens Sigurð Sigurðsson er heima átti á Litluháeyri og síðan á Stokkseyri, duglegan mann og dreng góðan. Hann var „tryggðartröll“ hið mesta, eins og móðir hans og sá hann vel fyrir henni á ellidögum hennar. Þegar ég var 7 eða 8 ára var Margrét með Jens son sinn, þá mjög ungan, með Júníusi bróður mínum mörg þau vor í útilegu við beitarhús foreldra manna, lengst uppá Breiðumýri og þá helst um sauðburðartímann. Man ég að þá þótti henni gott, er við vorum sendir þangað uppeftir með gott kaffi, gott og vel skorið tóbak í nefið, er mótir okkar sendi henni. Því að hvortveggja var að Margrét þekkti vel hugulsemi móður minnar og nöfnu sinnar, sem mat hana mikils, sem og hitt, að henni þótti hvorttveggja gott, ómengað kaffið og tóbakið. Milli þeirra nefnanna var ávalt vinskapur góður og þætti mér nú gaman að muna hið fróðlega samtal þeirra; það ver ekkert bæjarslúður heldur um gamlar sögur og viðburði, ættfræði, veðurfar fyrrum o.s.frv.

Þegar Margrét Eiríksdóttir var á Eyrarbakka var hún ein meðal þeirra mörgu kvenna er sátu við táningu ullar á „ullarloftinu“ við Lefoliiverslun og kom Margrét þá oft til móður minnar, er þá átti heima í næsta húsi og hjá okkur hjónum. Var „sá svarti“ þá ávalt á hlóðin settur og með henni drukkið „ósvikið Eyrarbakkakaffi“, ávalt án brauðs, rjóma eða sykurs það það vildi Margrét ekki. : kaffið eitt nægði og ánægjan var eftir því. Þvílíkar „kaffikerlingar“ þekkjast eigi nú, né heldur jafn gagnfróður komur sem þær nöfnur voru. Ég held, að þær hafi kunnað fornsögurnar og vitað um ætti flestra manna þar í sýslunni. Það var bæði gagnlegt og gaman að hlusta á tal þeirra.