You are currently viewing Jón Hannesson Roðgúl

Jón Hannesson Roðgúl

Jón var smár að vexti, smáfeldur í andliti með stutt nef, söðulbakað. Hann var kvikur á fæti, glaðlegur í viðmóti og ræðinn vel. Meiri snyrtimann í allri umgengni utan húss og innan hefi ég ekki þekkt. Hann hirti svo heygarð sinn, að orð var á gert. Heystálið var ávalt slétt og fellt, svo að ekkert strá sást ná lengra út úr því en annað, heystæðið var sópað svo, að þar sást ekki stingandi strá; öll áhöld og amboð voru hvít og fáguð og innanbæjar var allt sópað og fínt.

Þeir voru nágrannar, Páll í Gerðum (Hróbjartsson) og Jón og var Páll líkur honum með hreinlæti og nostrið. Meðal annarra hluta átti Páll börur hvítþvegnar eins og mjólkurtrog, en Jón átti hjólbörur svo fágaðar sem væru þær lystivagn. Báðir voru þeir svo sinkir á að „lána“ öðrum hluti þessa – og flesta aðra, er þeir áttu að enginn þorði að fara fram á það við þá. Þessa vissum við „beitustrákarnir“ og sendum oft sveitastrákana til þeirra þegar þeir voru í vandræðum og vantaði börur eða hjólbörur og komum þeim til þess að fá þessa hluti hjá Páli eða Jóni. Komi þeir til Páls sagði hann: „Farðu til Jóns í Roðgúl, hann á hjólbörur og lánar þér þær strax“. En komi þeir til Jóns sagði hann: „Farðu til Páls í Gerðum, hann á handbörur, og lánar þér þær undireins!“ Vitanlega fengu strákarnir engar handbörur eða hjólbörur, en ávalt sömu svörin hjá báðum.

Jón í Roðgúl var aldrei formaður, en lengi var hann háseti hjá Sturlaugi í Starkaðarhúsum. Þar voru og Snorri á Hæringsstöðum. Það var vor eitt, að þeir fengu barning, en voru svo fáir á bátnum að þeir urðu að róa stýrislaust. Nú var það oft viðkvæði Snorra að segja „Meira get ég!“ og hafði Jón tekið eftir því og þótt það vera nokkur yfirlætiskennt. Þennan barningsdag, bar svo við að þeir reru sinn á hvort borð, Sturlaugur og Snorri og Jón á borð með Snorra. – Í barningsróðrum og enda oftar var það alltítt að menn kölluðu hver að öðrum með að róa betur o.s.frv. Sagði nú Jón „Róddu nú Sturlaugur! því alltaf getur Snorri meir!“ Þeir voru alúðarvinir Bjarni bróðir minn og Jón í Roðgúl og nefndu hvor annan ávalt og ávörpuðu þannig: „Svili minn!“ Þótt vitanlega væru þeir alls ekki mægðir.

Jón í Roðgúl var fremur efnalítill, en son áttu þau einn sem Hannes hét – Hannes í Roðgúl, og lifir hann enn í Vestmannaeyjum (1939). Hannes var einn meðal hinna fremstu formanna á Stokkseyri, aflasæll vel og sjósækinn. Hafði hann lært sjó hjá Benedikt í Íragerði og var hann þar sem kallað er „heimagangur“ á heimilinu, enda vinátta mikil og góð þar á milli. Hannes var framúrskarandi dugnaðarmaður til allra verka bæði á sjó og í landi, hæglátur, stilltur og gætinn í orðum og athöfnum. Hann var lengi – og er sennilega enn – ágætis bindindismaður og besti drengur. Jón í Roðgúl andaðist 18. mars 1894, 63 ára að aldri, en Ástríður kona hans 1904, 75 ára gömul.