You are currently viewing Jón Hannesson Litlu-Háeyri

Jón Hannesson Litlu-Háeyri

Jón Hannesson Litluháeyri var sonur þeirra Hannesar og Guðrúnar, kvæntur Jónínu Kristínu dóttur Magnúsar í Sölkutóft, Jónssonar. Sonur þeirra er Sigurjón fiskmatsmaður í Reykjavík, en dóttir þeirra er ekkja Guðfinns sál. Þórarinssonar frá Nýjabæ, er drukknaði 5. apríl 1927, heitir hún Rannveig.

Jón Hannesson var lengi formaður á Eyrarbakka, í hreppstjórn þar og meðal hinna mörgu góðu Eyrbekkinga. Hann var fullkomlega meðalhár vexti, svaraði sér vel, hann var rauðbirkinn á hörund, hár og skegg, glaðlegur í viðmóti og góðsamur, hygginn vel og hægfara, fylgdist mel með öllu en lét sig þó litlu skifta, jafnvel þótt stundum væri hann „kenndur“ sem fleiri jafnaldrar hans og félagar, en sjaldan munu menn hafa sé á honum vín; hann yppti þó aðeins öxlum frekar en endranær og varð  hann borshýrri í bragði en ella. Jón var vandaður maður og verslunarstörf stundaði hann á stundum, enda báru menn gott traust til hans í hvívetna. Söngmaður var hann góður, en ófáanlegur til að vera í neinum sönghópi og var hann þó félagslyndur, en feiminn í fjölmenni.