Jón Adólfsson Grímsfjósum

Jón Adólfsson Grímsfjósum

Jón var mörg ár formaður á Stokkseyri og í Þorlákshöfn og ávalt heppinn með aflabrögð sín og sjóferðir. Hann var lágur maður vexti, gildur og samanrekinn, ólíkur systkinum sínum í því, að hann var dökkhærður, en þau ljóshærð, léttlyndur og smáskrítinni í viðtali: Hann endurtók oft í spaugi það sem hann sagði: t.d. þetta: „hvað væri þokkað fyrir að tarna í Grímsfjósum …í Grímsfjósum!“, eða þá þetta: „Nú eru Svíakongur illa beygður … illa beygður!“ og hló svo að. Annars var Jón greindur maður, nokkuð vínhneigður framan af ævinni og jafnan fátækur. Hann var mjög líkur föður sínum bæði í sjón og því hvernig hann kom fram við aðra: með sífeldu græskulausu spaugi og jafnvel kynjalátum til þess eins að vekja hlátur hjá öðrum. Adólf gamli andaðist 24. október 1876, 67 ára.

Börn þerra Jóns og Þuríðar, 9 að tölu, dóu flest á unga aldri, en þau sem upp komust (5) urðu myndarlegar manneskjur og vel gefnar, góðgjarnar og vel metnar. Bræðurnir Sigurður og Olgeir eru enn á lífi. Hinn fyrstnefndi einn hinn duglegasti og skylduræknasti maður, er menn þekkja; hann var lengi vinnumaður hjá Sigurði Ólafssyni í Kaldaðarnesi; hinn síðarnefndi er einsetumaður á bæ einum á Stokkseyri, er hann nefnir „Geirakot“ (af því að sjálfur var hann nefndur Geiri í æsku) og er smiður góður. Hann er heitinn eftir Olgeiri sál. Þorsteinssyni í Vogsósum, föður þeirra Þórarins og Einars skipstjóra og bróður Kristins, móður Kjarvalinga. Olgeir er mjög líkur föður sínum og afa. Léttlyndur og síkátur, með spaugi í orðum og látbragði. Jón gamli Adólfsson var maður fáskiftinn um manna hagi og besti drengur.

Close Menu