Ísólfur Pálsson
Ísólfur Pálsson

Ísólfur Pálsson

Þessi grein birtist í blaðinu Akranes, 1. janúar 1959.

Sérstök ástæða er til þess, jafnvel fyrir mig, að minnast þessa góða bróður mins og mæta manns, og þess hefði ég eigi þurft að bíða, að hann félli frá, en úr því sem nú er komið, vil ég eigi draga það lengur. Auk  þess   sem  flest  blöð  bæjarins  hafa þegar minnzt hans með réttu og öll á einn veg, sem sé loflegan mjög, ýkjulaust með öllu. Þá voru ræður þeirra séra Árna Sigurðssonar við útför Ísólfs 1. marz, svo og útvarpsræða skólastjóra Freysteins Gunnarssonar á 70. afmæli Ísólfs, hinn 11. s. m., svo hugðnæmar, sannar og réttar, að ég tel mig litlu eða engu færan um að bæta, og vil vísa til alls þessa, þeim, er því kynnu að vilja kynnast.

En það er einkum ýmislegt, sem ég einn varð var við í fari þessa athugula og glöggskyggna manns, er ég hygg að fáir aðrir hafi um vitað og ég vildi að einhvers staðar kæmi fram, jafnvel þó ég hafi vissu fyrir því, að Ísólfur taldi það einkamál sín, sem hann eigi vildi flíka framan í aðra og taldi enga nauðsyn til bera, að aðrir fengju vitneskju um. Það verða því aðeins fá dæmi af fjölda mörgum, sem ég vil minnast á hér um sérstaka athygli hans í veðráttueinkennum, sjúkdómstilfellum og ráðum hans við þeim, þótt vitanlega væri mér eigi kunnugt um meðöl þau, er hann notaði og setti saman.

Ísólfi var jafnan hugleikið mjög um það, að ganga niður að sjó og líta eftir ýmsu, er að sjóferðum laut. Varð ég þó oft var við það, að þar sá hann ýmislegt, er hvorki ég né aðrir höfðum tekið eftir að þar væri að sjá eða heyra, en varð honum þó til bendinga og leiðbeininga, sem hann lét ekki uppi við aðra hverjar voru, nema að væri spurt eða tilefni gæfist til að minnast á það í sambandi við eitthvað annað.

Þannig var það eitt sinn á haustdegi í glaðasólskini, lygnu veðri, „rjómasléttum sjó“, að við gengum saman niður á hafnarbakka; lágu þar mörg skip, bundin við hafnargarðana. Segi ég þá við Ísólf: „Það er ekki úfinn á sjónum núna; hann er spegilsléttur og engan vindblæ að finna“. „Ó-já“, segir Ísólfur, „en það líður ekki á löngu að breyting verður á því, og það bráðlega, svo að um munar“. „Nú! Heldurðu að hann breyti bráðlega um veður frá því sem nú er?“ „Það verður komið bráðviðri og brim í sjó innan þriggja  dægra!“ j,Hvað hefirðu til marks um það, og á hverju er hægt að sjá það?“ „Sérðu ekki skipin, sem liggja bundin við bakkann?“ „Jú, en mér sýnist fara vel um þau. Þau hreyfast ekki i lognsævinu!“ „Þá tekurðu nú ekki vel eftir þeim.

Það er nú einmitt það, að þau hreyfast. Líttu á siglutoppana, og sjáðu hvort þeir hreyfast ekki til og frá“. Þegar ég leit eftir þessu, sá ég, að siglutopparnir hreyfðust lítið eitt og spurði: „Hvers vegna ætti þessi litla hreyfing að hafa áhrif í þá átt að sjór og veður muni breytast?“ „Af því að hreyfingin í sjónum er þegar komin hingað — og að landi — án þess að hennar gæti annars staðar. — En þú getur athugað þetta síðar“. Tæpum tveim dögum síðar var komið afspyrnurok af suðvestri, stórveltubrim í sjóinn, svo að marga báta rak á land. Nokkru síðar hitti ég Ísólf og gat þess við hann hversu sannspár hann hefði orðið með veðrið þennan dag. Hann brosti og sagði: „Það er á ýmsu öðru, sem hver maður gæti séð þetta, ef hann bara tæki eftir því, m. a. má sjá það á skýjafarinu, fuglunum og mörgu fleiru; það segir til um þetta o. fl. svo að eigi verður um villzt“.

Öðru sinni gengum við saman um þessar slóðir og þá niður að austasta hafnar garðinum. Brá hann sér þá niður í fjöru, austan undir garðinum og fór ég á eftir honum þangað.  Ekki gat ég þá  séð,  að hann hefði þangað neitt erindi, nema ef vera kynni það, að athuga nokkrar marglittur, er þar voru við landið og iðuðu þarna i yfirborði sjávarins og sólskininu. Segir hann þá: „Þeir hafa ekki fiskað mikið hérna í Flóanum að undanförnu, en nú fara þeir að fiska“. „Af hverju heldurðu það! — Ómögulegt er mér að sjá nein merki þess“. „Jæja? Líttu bara á steinana þarna, þanglausu, sem út af er fallið; sérðu ekkert athugavert við þá?“ „Nei, ekki annað en það, að það eru berar klappir og steinar; annað ekki“. „En kuðungana?“ „Kuðungana? Jú, steinarnir eru alþaktir kuðungum; það sé ég, en eru þeir ekki oft þarna? Og hvað sýna þeir?“ „Að fiskur er í göngu og kominn á grunnmið. — Ætli enginn hafi reynt að róa hérna út á milli eyjanna?“ Það veit ég ekki“, sagði ég, „en hitt er víst, að nýjan fisk höfum við ekki fengið nokkra undanfarna daga“. —

Daginn eftir var fiskur kominn inn í öll sund. T. d. fékk bóndinn í Víðinesi, Hafliði Pétursson, hleðslu fiskjar í bát sinn þennan dag. Vitanlega hafði ég enga hugmynd um það, hvort fjörusteinar þessir og klappir hefðu verið kuðungslausar áður, en ég hefi tekið eftir því síðan, að í fiskileysi sjást þeir þar ekki, og þegar farið er að verða fiskjar vart á grunnmiðum, munu þeir tíðir gestir þar, a. m. k. fyrstu dagana eftir að fiskjar varð vart nærri landi; eru þeir þá á þurrum steinunum svo hátt, sem flæðarmálið hefir náð um flóðið. Haust nokkurt fyrir 14—15 árum — en þá hafði verið gott sumar — sagði ég við Ísólf: „Mikil held ég að hún verði veðurbreytingin til hins verra í vetur, eftir svona langa öndvegistíð í allt sumar fram á haust. Einhvern tíma held ég að hann hvessi og snjói í vetur“. „Þú heldur það“, sagði hann, en ég efast um að við sjáum nokkra snjóföl í allan vetur, hvað þá mikinn snjó“. Ég hugsaði mér þá, að nú skyldi eg veita þessu nákvæma athygli og muna hverju hann hafði spáð um haustið; mér þótti þetta eigi vera með neinum líkindum, en svo fór, að dag einn í febrúar um veturinn, sást að vísu snjór, en svo lítill, a. m. k. hér í bænum og grenndinni, að naumast var sporrakt á götunum, það var aðeins föl, sem tók upp næstu nótt með öllu. Annar snjór sást ekki veturinn þann, og um sumarmál voru rabarbarar orðnir margra þumlunga vaxnir úr jörðu (t. d. hjá frú Katrínu Magnússon, og mun þess hafa verið getið í Morgunblaðinu þá. Hvaða vetur þetta var man ég ekki. Líklega   einhvern þessara   vetra 1927—29. Þannig var það á hverju vori og hverju hausti, að Ísólfur sagði svo nákvæmlega fyrir um sumar- og vetrarveðráttuna sem í þetta sinn, og þá engu síður um veður þann og þann daginn, vikuna eða mánuðinn. Sama máli var vitanlega að gegna um sjóveðrin og jafnvel enn nákvæmar. Aldrei komst ég að því með vissu, hvað hann hafði til marks um þetta né ýmislegt annað, en ég hygg, að því hafi ráðið mestu um: Frábær athyglisgáfa hans, og að hann hafi eitthvað stuðzt við stjörnuheiðan himininn á haustum, vetrarkvíðann á sumrum, frostið og áfreðana í lækjum og ám, fuglalífið og hátterni þeirra dýra, er hann umgekkst, brimið í sjónum og blikurnar i loftinu, en einkum þó brimhljóðin mörgu og margvíslegu, meðan hann dvaldi eystra, svo og hverina þar og ótal margt fleira, er hann lét eigi fram hjá sér fara, án nákvæmustu athugunar og eftirgrennslunar.

Þessara gáfna hans varð og vart á barnsaldri hans, enda var hann þá og oft síðan, eins og hann væri eitthvað „utan við sig“, án þess  þó að þess  yrði  vart, að  hann væri eigi með „heilum sönsum“. Hann hlustaði t. d. oft á viðræður annarra, án þess að hann virtizt veita þeim nokkra eftirtekt og væru þær honum ógeðfelldar, formælingar, klám eða léttúðugt tal, var hann horfinn úr þeim hópi, án þess að menn yrðu þess varir fyrr en eftir á, því hann fór þá oftast án þess að kveðja. Þetta sýndi þó, að eitthvað fór hann nær um það sem um var verið að tala, enda vék hann stundum að því síðar og oftast við óskyld tækifæri og spurði: „Hvað voruð þið að tala um eða minnast á hérna um daginn þegar . .. .“ eða „Hver hefur verið að segja frá þessu, sem þið voruð að tala um í gær —- um daginn?“ o. s. frv. Stundum spurði ég hann, hvernig honum litist á eitt eða annað. Væri honum það geðfellt, sagði hann álit sitt á því, vildi sýnilega ræða frekar um það og gaf  hann þó oft góðar bendingar, einkum ef um veikindi var að ræða, sjóferðir, vinnubrögð og vandasöm málefni, — en væri honum málefnið andstætt eða ógeðfellt, sagði hann ákveðið mjög: „Mér lízt illa á það! Forðastu að koma nálægt því!“ Spurði ég hann þá: „Hvers vegna? Er nokkur hætta á ferðum í sambandi við það? Er ekki sjálfsagt að reyna að laga það ef unnt er?“ Svaraði hann þvílíkum spurningum afdráttarlaust strax og sagði: „Maður á aldrei að vera við neitt ljótt riðinn; það getur verið hættulegt að koma nálægt því, en sé maður viss um, að afskipti manns af því geti breytt því til góðs, er sjálfsagt að láta það ekki afskiptalaust með öllu, heldur gera sitt til að færa það til betri vegar, eins og t. d. illa meðferð á dýrum, drykkjuskap manna og önnur mannskemmandi mál. En ávallt þó með varfærni og að vel athuguðu máli“.

Þá vildi ég minnast á fáeinar staðreyndir um glöggskyggni Ísólfs á ýmiss konar veikindi og ráð hans við þeim, en þau voru eigi ávallt samkvæmt áliti lækna þeirra, er lært höfðu þó meira en hann, enda þorði hann víst aldrei að gjöra neitt uppskátt í þeim efnum, af ótta við ofríki, stéttahatur þeirra, sem engum öðrum þoldu að segja neitt eða gjöra en þeim sjálfum, því þeir einir höfðu „stimpilinn“, læknar, en sjálfur var hann aðeins „læknir af guðs náð“, eins og reyndar einn þeirra komst að orði um smáskammtalæknana yfirleitt. Þegar spánska veikin geysaði hér árið 1918, mest frá 9. til 19. Nóvember eða lengur, var ég einn meðal þeirra þriggja manna, er höfðu afgreiðslu í Landsbankanum frá kl. 10—1 á degi hverjum. Ég fékk engan snert af þeirri veiki, fór á fætur kl. 6 að morgni og var á sífelldum þönum um bæinn til þess að reyna að veita fólki einhverja hjálp. Var þá oft víða ljótt um að litast. Enginn maður uppistandandi víðast hvar, engin hjálp fáanleg og lækningin af skornum skammti og oft hin háskalegasta fyrir sjúklingana, sem hrundu niður sem strá í ofviðri. Leitaði ég þeirra aldrei, en fór til Ísólfs, og vissi ég eigi til þess að neinn dæi þeirra manna, er fóru eða gátu farið að ráðum hans, en það gátu þeir eigi allir sem síðar verður að vikið. Haust þetta var smápeningaekla í bænum og hvar sem leitað var, og komu ýmsir kunningjar mínir og vinir til mín og gat ég oft gert þeim úflausn nokkra; meðal þeirra var P. O. Christensen lyfsali og sagði hann mér, að ég „mætti leita sín, ef mér lægi á“. Ísólfi gekk oft erfiðlega að fá meðöl þau, er hann þurfti að nota: Lyfsalar voru stirðir til afgreiðslu og þó einkum þjónar þeirra; stundum voru meðölin eigi til hjá þessum lyfsala þótt þau væru til hjá hinum og var það oft erilsamt að leita þau uppi, og nú voru menn þessir að veikjast eins og aðrir. Það var þá ekki ávallt hlaupið að því að ná í lyfin, þótt mikið lægi við.

Svo var það kvöld eitt (13. nóv.) að Ísólfur bað mig að ná í lyf fyrir sig, hann fékk mér lista yfir þau. Kl. Var 10 1/2 að kvöldi, og hljóp ég niður í lyfjabúð P. 0. Christensens, og hitti svo á, að enginn vanur lyfjasveinn var þar til afgreiðslu, heldur 17 menn, héðan og þaðan úr bænum, sem sjálfboðaliðar, er ekki þekktu neitt til þeirra hluta, er einhverrar þekkingar þurfti þó til, að rétt væri með farið. Svona voru vandræðin einnig á þessu sviði, og leizt mér ekki vel á, enda sögðust þeir engin ráð kunna til að afgreiða lyf þau, er ég var að leita eftir: þau væru svo margra tegunda og mjög blönduð öðrum lyfjum; það væri eigi á annarra færi en „lærðra manna“ að setja þau saman.

P. 0. Christensen var orðinn veikur. Í öngum mínum réði ég það þó af, að gera vart við mig við suðurdyr hússins, þar sem ég vissi að P. 0. Christensen bjó, ég komst inn, sá hann liggja dauðvona í rúmi sínu, svo aðþrengdan, að hann gat naumast látið til sín heyra. Eitthvað af börnum lá í næstu rúmum, en kona hans stóð á miðju gólfi, grátandi, með báðar hendur fyrir augum sér. Með hálfum huga stundi ég upp erindi mínu, fékk konunni listann og las hún hann fyrir manni sínum, laut hún niður að honum á meðan og hvísluðust þau á. Tegundir lyfjanna voru, ein í afgreiðslunni, tvær í kjallaranum og tvær eða þrjár uppi á efsta lofti. Heyrði ég, að hann spurði konuna, hvort hún treysti sér til að ná í þetta, koma með það og sýna sér. Kvað hún já við því, öll af vilja gerð, en sýnilega langt um megn fram. Ég beið þarna rúman 1/2 tíma og töluðum við ekki orð saman, ég og lyfsalinn. Hann var næstum rænulaus og hafði haft yfir 40 stiga hita, tvö eða þrjú undanfarin dægur. Frúin kom með meðölin, lyfsalinn leit á þau og hvíslaði því að konu sinni, að eina tegundina ætti ég að fá enn og væri hana að fá í lyfjabúðinni niðri. Fór hún svo þangað með listann og ég á eftir henni um sömu dyr sem ég kom. Kvaddi þennan góða vin minn og bjóst ekki við að sjá hann aftur í þessu lífi. Kona hans hafði farið úr stofunni fram í lyfjabúðina og lokið erindi sínu. Þótti mér leitt að geta ekki kvatt hana og þakkað henni. — Meðan ég beið þarna eftir afgreiðslu, sé að við hlið mér stendur Sigurjón Jónsson, sem þá hafði verið með mér um nokkurra vikna skeið í Landsbankanum. Hann bjó við Skólavörðustíg 6 (?) og var nú að leggja af stað heim til sín.

„Við getum orðið samferða“, sagði ég, „því að ég fer sömu leið. Hver er veikur hjá yður og hvaða lyf eruð þér að sækja?“ „Svefnmeðöl handa konunni minni. Hún hefir ekki getað sofnað eitt einasta augnablik nú í 5 dægur; þetta er 6. dægrið og ef þessi meðöl ekki duga í nótt, ætlar læknirinn að sprauta hana með svefnlyfi“. Ég þekkti árangurinn af þessum sprautum og sagði við Sigurjón í leiðinni upp eftir: „Viljið þér nú ekki verða mér samferða til hans Ísólfs bróður míns og heyra hvað hann segir um veikindi konu yðar. Hann hefir einmitt hjálpað mörgum, sem fengið hafa langvarandi svefnleysi og læknarnir hafa verið komnir á fremsta hlunn með að sprauta. Ég verð yður svo samferða niður eftir aftur og þarf ekki að standa neitt við; aðeins skila meðölunum“. Sigurjón var tregur til þess að fara lengra upp eftir Skólavörðustígnum en heim til sín, en barst eins og í leiðslu og ósjálfrátt unz við vorum komnir svo langt, að hann sá að litlu munaði. Við komum inn til Ísólfs. Hann var að ljúka við að afgreiða mann einn og konu. Klukkan var þá 10 mínútur gengin í tólf. Ég skilaði lyfjunum og sagði: „Jæja, hérna koma nú glösin“, (og sagði honum með fám orðum hvernig mér hefði gengið). Var hann þá fljótur til að segja: „Fékkstu þau öll?“ (þ. e. meðölin), og sagði ég að svo væri. Varð hann þá glaður við og sagði: „Það var gott! Mig hefir vantað þau mjög bagalega“. „Jæja“, sagði ég, „en það er nú maður með mér, sem mig langar til að hafi tal af þér. Hann var mér samferða neðan úr Apóteki og var að fá svefnlyf handa konunni sinni, því hún hefir ekki getað blundað í 5 dægur; það er 6. dægrið í nótt“. Tekur Ísólfur þessu fálega og segir: „Það er þýðingarlaust fyrir hann að tala við mig, ég get ekki hjálpað konunni, því mín meðöl eiga enga samstöðu með lyfjum læknanna; það verða að líða a. m. k. tveir dagar frá því að menn hætta að nota þau þangað til mín meðöl geta „verkað“ nokkuð. Hann verður að nota þau sem hann er með“.

„Jæja, en viltu samt ekki tala við manninn, ég dró hann hingað með mér!“ „Það hefðirðu ekki átt að gera. — Ég tala ekkert við hann!“ Sá ég þá, að Ísólfur fór að föndra við tvö glös og staldraði ég því við fáein augnablik, þótt ég sæi, að hann mundi ekki sinna Sigurjóni, sem beið framm í forstofunni. Varð Ísólfur svo samferða mér þangað, snýr sér að Sigurjóni og segir: „Eruð það þér, sem fylgdust með honum Jóni hingað“. Sigurjón kvað já við því. „Jæja, hann (Jón) var að biðja mig um meðöl handa konunni yðar, en segir, að þér séuð með svefnmeðöl handa henni frá lækni. Hér eru nú tvö glös, sem ég læt yður fá fyrir beiðni Jóns, en ef þér notið þau, þá tek ég það fram við yður — og bið á yðar ábyrgð sjálfs, hvort þér notið mín meðöl eða þau, sem þér eruð með. Ég held því ekki fram, að þér notið mín meðöl og vil helzt ráða yður til þess að nota hin. En á því berið þér ábyrgð, en ekki ég!“ Þetta sagði hann með þeirri einurð og alvöru sem honum var lagin, og Sigurjón játti því og virtist skilja það vel. Síðan gengum við heim til Sigurjóns og áður en við skildum, sagði ég við hann: „Hvað ætlið þér nú að gera? Mér virðist þér eiga úr miklum vanda að ráða. En munið, hvað Ísólfur sagði við yður!“ Svo skildum við og kvöddumst. — Níu dögum síðar sé ég, að Sigurjón er kominn í bankann og var veikin þá farin að réna. Ég mundi þá í bili ekkert um afskipti mín af Sigurjóni og konu hans fyrri en um miðjan dag og segi því við Sigurjón: „Hvernig líður konunni yðar?“ „Henni liður vel“. Hugsaði ég þá, að þegar hann svaraði þessu þannig hefði hún dáið, og spurði með hluttekningu:  „Jæja, dó hún?“ „Nei, hún lifir góðu lifi!“ og var gleðihreimur í svari hans. Vaknaði nú forvitni mín mjög, og ég spurði: „Hvað gerðuð þér, eftir að við skildum? Hvernig fóruð þér að með meðölin? — Hvor þeirra notuðuð þér?“

Leysti nú Sigurjón úr spurningum mínum á þessa leið: „Eg hefi aldrei komizt í meiri vanda en þá, er ég var að hugsa um það í anddyri húss míns, hvor meðölin ég skyldi nota. Loks afréð ég að nota meðöl Ísólfs. Ég átti að gefa konunni 3 dropa af hvoru glasi á hverjum 15 mínútum (það stóð á seðli Ísólfs) og kl. var hálf-tólf, er ég byrjaði. Þessu hélt ég áfram til kl. 1 1/2, enda átti ég þá að fækka inntökunum í 3 dropa á hverjum hálftíma. Þegar kl. var orðin 2 og ég ætlaði að fara að gefa konunni inn, hrökk hún fram á rúmstokkinn og kastaði upp nærri kolsvörtum hroða, sem ég get ekki lýst, og lá henni þó við köfnun, svo mikið barst af þessu upp í háls hennar og munn og stóðu uppköstin yfir í rúmar 5 mínútur. Gaf ég henni þá inn, en rétt á eftir kom annað kast miklu minna og var þá blóðlitur á því sem uppúr henni kom. Síðan lagðist hún fyrir aftur og sofnaði, en það var nú „langi svefninn“ fannst mér, því að ég sá ekki að hún bærðist hið allra minnsta næstu 16 klukkustundirnar, — svo fast og vært svaf hún, — og eftir það var hún alhress, fór á fætur eftir tvo daga, og hefir aldrei áður hraustari verið en síðan“. Þannig fór með þessa lækningu Ísólfs, enda varð ég oft áður og síðar var við þvílíkan árangur, þótt eigi vissi ég svo vel um þá, sem þennan. Sökum vitneskju minnar um góðan árangur af lækningum Ísólfs, einkum í spönsku veikinni, spurði ég hann í hverju yfirburðir hans væru fólgnir og hver væri munurinn á aðferðum læknanna og aðferðum hans. Hann sagði: „Læknarnir nota, að því er ég bezt veit, einkum kamfórublöndur og kælilyf, en það örvar hjartað til enn meira starfs, svo mikils, að menn eiga því erfiðara með að sofa, sem lengra líður og meiri lyf eru notuð af þessu tagi. Þegar vökutíminn er orðinn athugaverður, menn að verða ærðir af svefnleysi, láta þeir sjúklinga fá sprautur, sem þeir ekki þola, sízt allir,og deyja að einum til tveim stundum liðnum eftir innsprautuna, enda herða hin kælandi lyf óhroðann í lungunum, en mýkja hann hvorki né linar“. „En hvaða lyf notar þú?“ spurði ég. „Engin kælandi lyf, nema þá í ítrustu neyð, því sótthitinn, þótt vondur sé, verður að haldast óhindraður og  „rasa  út“, enda fer batinn eftir því og kemur því fyrr. Lyf þau, er ég nota, losa hroðann í lungunum og sjúklingurinn kastar honum upp; við það hægir honum fyrir hjartanu og fær svefnró“. Ísólfur nefndi meðalið, en ekki man ég nafn þess, heldur hitt, að hann sagði það samsett af efninu, sem mönnum mundi eigi hugþekkt, en það væri rottueitur. Mig minnir að hann nefndi samsetninginn blandaða „Kransaugun“. —

Efni þessi væru algerlega ósaknæm og samsett eftir ströngustu vísindareglum. Vildi hann helzt sem fæst orð um þetta hafa, eins og um ýmislegt annað, sem hann virtist eigi þora að gera opinberlega heyrinkunn, vegna hindurvitna alþýðumanna og hjátrúar, en einkum þó vegna lítilsvirðingar lækna á allri viðleitni annarra manna en þeirra sjálfra um að vera með alls konar kák, enda gætu þeir „frómt úr flokki talað“, þar sem þeir væru lærðir, en hinir eigi. Hann taldi sér því vandfarið í þessum málum, og virtist mér hann oft uggandi um það, hvað hinir lærðu læknar tækju til bragðs, ef hann færi inn á svið þeirra í lækningatilraunum sínum, enda virtist mér og, að honum væri eigi eins ógeðfellt nokkurt íslenzkt orð, sem það, er læknar völdu honum og öðrum smáskammtalæknum sameiginlega og án undantekningar, sem niðrunaryrði, en það var orðið „Skottulæknir“ (Sjá nánar um þetta nafn í orðasafni mínu). Hins vegar vissi ég, að ýmsir lærðir læknar, þ. á . m. Matthías Einarsson vísuðu fólki til Ísólfs til ráða við ýmsa sjúkdóma, t. d. kíghósta, og segðu, „að hann væri þar óbrigðull“, enda hafði Ísólfur vetur þann er kíghóstinn geysaði hér mest, um eða yfir 900 sjúklinga, er haldnir voru af sjúkdómi þessum, og vissi ég eigi til að neinn þeirra, sem hans leituðu í því efni, dæi. Sama máli var að gegna um mislinga, skarlatssótt, brjósthimnubólgu, hálsbólgu, og einkum lungnabólgu, að þar reyndist hann ávallt óbrigðull, jafnvel þótt menn væru mjög hætt komnir. Eru dæmi fyrir þessu óteljandi, en Ísólfur var oft tregur til að gefa sig við nokkrum tilraunum til lækninga, ef hann vissi, að lærðir læknar hefðu sjúklingana undir höndum, og sagði, að sín meðöl gerðu ekkert gagn fyrr en að 2—3 dögum liðnum eftir að meðöl læknanna hefðu verið notuð, eins og áður er sagt. Svo gagnstæðar samsetningar taldi hann, að því væri um að ræða, og hitann (temperaturer) vildi hann ekki hindra fyrr en í síðustu lög, sem áður er sagt. —

Svo bar við eitt sinn, að Eyvindur, sonur Ingvars E. Sigurðssonar frá Apavatni, fékk þunglyndisaðkast mikið, varð viti sínu fjær, hljóp til fjalla, skar sig á háls, en lifði þó eftir áverka mikinn og kól mjög á fótum. Lagður var hann á Landakotssjúkrahús og læknaðist. Áður en Eyvindur fór þaðan, bar svo við, að ég og Ísólfur áttum leið saman vestur í bæ og gengum við um Túngötu. Mættum við þá Ingvari gamla á leið frá sjúkrahúsinu heim til sín og var hann þá að koma úr vitjunarferð sinni til sonar síns. Tók ég Ingvar tali, en Ísólfur hélt lengra vestur eftir götunni og heyrði undir væng, að við Ingvar vorum að tala um sjúkling einhvern, sem væri í sjúkrahúsinu. Sagði Ingvar mér þá, að sonur hans væri búinn að liggja þarna „í Kalinu“ um 8—9 vikna skeið, en væri nú „bráðum orðinn góður“. Skildum við svo talinu og gekk ég til Ísólfs, er hafði beðið mín og sagði hann þá við mig: „Hvaða sjúkling voruð þið að tala um? Er einhver veikur, viðkomandi Ingvari?“ „Já, Eyvindur sonur hans er búinn að liggja í kali um 8—9 vikur, síðan hann hljóp á fjöllin úr Laugardalnum í vetur; en Ingvar sagði, „að hann væri nú bráðum orðinn góður“. „Hvað er þetta!“ segir Ísólfur, „gengur þeim svona seint, læknunum, að lækna kal, að það tekur 8—9 vikur? — Ég held að það megi lækna að fullu á jafnmörgum dögum“. Varð ég þá undrandi nokkuð og spyr: „Á 8—9 dögum? Hefir þér tekizt það, eða hefirðu reynslu fyrir þessu?“ „Já, ég hefi talsverða reynslu fyrir því. Það eru ekki nema fáir dagar, síðan konan hans Wilhelms gamla Schram fékk fulla bót við fúasári á fæti, er hún hafði haft um mörg ár, og er hún þó öldruð orðin. En er Eyvindur ekki ungur maður?“ „Fúasár?“ spyr ég, „en er það ekki allt annað en kal?“ „Jú, að vísu, en lækningin við hvoru tveggja getur verið hin sama“. „Hvers konar lækning er það, og er hún ekki vandasöm?“ „Nei, auðveld mjög, ef rétt er að farið, og það geta allir gert“. „Hvaða meðöl eða ráð hefir þú notað?“ „Það er að hafa arnicu tínetur, og blanda hana rétt, því sé hún of sterk, brennir hún, en sé hún of veik, feygir hún“. „Þú segir, að þetta geti allir; ekki kynni ég að blanda þetta svo, að rétt væri, en ef mér tækist það, hvað ætti ég svo að gera?“ „Þú gætir fengið rétta tilsögn um þetta hjá þeim sem kann það, síðan hellir þú arnicu tínetunni í sárið og sverfir alabastursstein, sem þú lætur einnig í sárið og bindur um.

Að 7—8 dögum liðnum á ég von á, að allt sé vel gróið. Svona hefir mér reynzt það og einnig nú við frú Schram: Sárið, sem var á fæti hennar fyrir rúmri viku síðan og hún hefir enga bót við fengið áður um fjölda mörg ár, er nú gróið svo, að þar sjást þess engin merki að neitt sár hafi verið“. „Hvaðan fær maður alabasturstein?“ spurði ég. „Hann má víða fá, ég fæ hann oftast ágætan frá Vestmannaeyjum og nota hann mikið við fúa- og kalsár, og það gefst mér nú svona“. „Hví nota læknar ekki þessi ráð, eða gera þeir það?“ „Nei, ég veit það reyndar ekki, en gjöri ráð fyrir, að þeir þekki þau ekki, og noti  sín meðöl og sínar aðferðir við þessu sem öðru og gefst eflaust vel, en það er seinvirkt og dugar stundum ekki til neins gagns“. Þannig var samtal okkar um þetta atriði, en þau voru mörg, sem hann fræddi mig um, of mörg til þess að ég muni þau öll, eða telji þörf á að geta þeirra frekar. En öll voru þau þannig, að ég sannfærðist um það æ betur, hversu hér var um óvenjulegan mann að ræða, einnig á þessum sviðum: gjörathugulan, hugvitssamann og hugsandi ávallt um að hjálpa með ráðum og dáðum, ekki sökum eigingirni, metorða eða með miklu fjasi, því allt var þetta Ísólfi fjarri skapi, enda mátti segja, að hann gæfi meðöl sín og ráð, en seldi ekki. Hann tók oftast 1 eða 2 krónur fyrir glasið og fékkst lítt um hvort borgað var eða ekki. Hitt gekk honum nær, að fjöldi manna leitaði til hans og fengu góðan bata við það og oftast fullan, án þess að þeir létu á sér heyra eða skilja hvort þeim þætti betur eða verr, hvað þá að þeir hinir sömu greiddu honum einn eyri hvað þá meira. En sárast fannst honum, þótt sjaldan hefði hann orð á því, að menn þessir höfðu oft leitað lækna áður en þeir komu til Ísólfs, án þess að þeir geti nokkuð að gert, en þökkuðu þeim, læknunum það einum, að þaðan hefðu þeir fengið lækninguna, en alls ekki frá honum. Það var því eigi að undra, að þvílíkur maður, sem Ísólfur var, viðkvæmur í lund og velviljaður, finndi vanþakklætisvott í þessu og ranglæti, einkum þegar hann vissi, að svo herfilega var brotið á móti sannleikanum og reynslu mannanna sjálfra, sem einnig vissu, engu síður en hann, að hjálpin kom frá honum en ekki læknunum. Hins má aftur á móti með sanni geta, að margir — já, ótal margir — voru Ísólfi þakklátir mjög og sáu það við hann. Þeir elskuðu hann og virtu. Svo var um mig, og mitt heimili, að þótt ég hefði engan skyldleika við hann haft — en ég var nú bróðir hans — þá notaði ég sjaldan annan lækni en hann, nema um mikil meiðsl og því um líkt væri að ræða. Ég og heimili mitt allt eigum því, eins og margir aðrir, um sárt að binda að hafa misst hann og fá eigi framar að njóta manngæzku hans og mörgu góðu ráða við sérhverju því, er að veikindum laut alla þá tíð, er hans naut við, og þykist ég aldrei hafa goldið honum að fullu, þótt ég hins vegar viti, að aðrir hafi eigi betur við hann gert, enda var hann ávallt þakklátur mér, þótt fá orð hefði hann um það.

Í sambandi við þetta vil ég geta þess, að kona Ísólfs var honum góð kona, sem virti hann og elskaði að maklegleikum, þrátt fyrir það, þótt hann væri eigi opinskárri um hugsanir sínar og fyrirætlanir við hana en aðra. Hann var of dulur í skapi, oftast sokkinn niður í eigin hugsanir, sem honum mun eigi aðrir hafa getað bætt um. Ísólfur var þó, þrátt fyrir það, hversu dulur hann var og fáskiptinn, alls enginn þumbari né vanstillingamaður; hann var glaðlega sinnaður, hóflega gamansamur og glaðlegur, fróður um fjölmargt það, er aðrir vissu lítil deili á, því hann las mikið og mundi vel og svo hugsandi um það og annað er fyrir augu bar, að hann virtist oft annars hugar. Væri á hann yrt, var það oft svo sem hann „kæmi af fjöllum“, og hefði ekki áttað sig á því sem um var að vera eða ræða í það og það skiptið. Einkenni þessi höfðu fylgt honum alla hans ævi og frá barnæsku, enda leið hann mikið sem barn, vegna höfuðveiki, svo að blóð og vessar gengu út úr eyrum hans og var hann því ávallt heyrnarsljór, en augu hafði hann og sjón í bezta lagi. Meðal annars þess, er Ísólfur sökkti sér niður í, var sönglistin, og samdi hann, einkum eftir hálfþrítugsaldur sinn, fjölda smálaga og lýsa þau flest geðslagi hans, glöðu, björtu, ein þó innilega viðkvæmu. Trúmaður mun hann hafa verið, betri og meiri en ég eða aðrir höfðu hugmynd um, því að hann mátti aldrei neitt ljótt heyra eða sjá og orðvarari mann veit ég ekki, né heldur friðsamari. Í stórræðum og þjarki gat hann ekki staðið. Hann vildi heldur líða en stríða.

Þá vil ég minnast á uppfinningar Ísólfs, þær, sem ég veit eða vissi um, þó vitneskja mín um þær væri takmörkuð. Ísólfur fann upp nýja tegund netasteins, kostaði mörgum hundruðum króna til þess að fá einkaleyfi fyrir þeim. Þeir þóttu ágætir og seldust vel. Einkaleyfið og öll skjöl voru í bezta lagi og lét hann þau öll fara í stjórnarráðið til tryggingar þess, að allt væri í lagi, eins og lög sögðu fyrir um. En einkaleyfið var brotið. Þá var önnur uppfinning Ísólfs, að hann bjó til togaravörpu, sem færa mátti til í sjónum, upp og niður, með lítilli fyrirhöfn, svo að með henni mátti veiða síld og hvern annan fisk, hvort sem hann hélt sig hátt eða lágt í sjónum. Helzti hjálpar- og styrktarmaður í þessu efni var hollvinur hans, Jóhannes Bjarnason skipstjóri, einn hinna mætustu manna og þaulreyndasti skipstjóri á þilskipum og togurum. Varð Jóhannes þegar svo hrifinn af þessari nýjung, að hann fór með Ísólfi hverja ferðina eftir aðra hér út í flóann og sundandi straumur væri, enginn foss o. s. frv. og gat því knúið fram vélaafl, eins og um stóran foss væri að ræða. Þetta var einnig einfalt og ódýrt, en ég hirði eigi um að lýsa því frekar, né því máli yfir höfuð að öðru leyti en því, að hann mun hafa reynt áhaldið í Ölfusá og Þjórsá, þar sem straumurinn líður hægt fram og að það reyndist alveg eins og hann ætlaðist til. Ýmislegt fleira hafði Ísólfur á prjónunum annað en þetta; voru það áhöld til þess ætluð að létta mönnum vinnu, m.a. vefstóll, sláttuvél og róðrarvél, sem öll voru frumstæð og gjörólík öðrum áhöldum af þessu tagi.

En hvernig var nú lundarfar og innræti þessa ágæta manns? Lundarfar hans var góðlyndi og stilling. Ég sá hann aldrei reiðast, heyrði hann aldrei segja neitt ljótt orð né heldur leggja neitt illt orð til nokkurs manns, en hann var tortrygginn þannig, að svo virtist, að hann byggist ekki ávallt við hinu bezta af annarra hálfu og hefir hann eflaust haft ástæðu til þess og reynslu nokkra, engu síður en aðrir; stundum fannst mér hann vera um of var um sig og láta sér falla ýmislegt það þungt, sem hann átti við að etja. Var það vitanlega fátæktin og erfiðleikarnir í því, að koma því í framkvæmd sem hann var að sýsla með, en aldrei lét hann á þessu bera, og væri einhver honum innan handar eða sýndi honum hjálpsemi, var hann þeim hinum sama hjartanlega þakklátur og gleymdi því aldrei: þóttist enda aldrei geta fulllaunað það, þótt lítið væri. Það var oft að ég sá hann áhyggjufullan, en af hverju vissi ég ekki, og ef ég spurði hann hvað það væri, sagði hann: „Það er ekkert, en lagast bráðum“. Ef ég svo spurði hann: „Get ég nokkuð hjálpað þér?“ Var þá eins og hann vaknaði af draumi, glaðnaði við og sagði: „Þakka þér fyrir; jú, ég þarf að borga  . . . ., en vantar dálítið til þess í bili“. Innræti hans var áreiðanlega gott og göfugt. Hann mátti ekkert aumt sjá og því síður vamm sitt vita, og var strangur mjög við sjálfan sig. Aldrei vissi ég til þess að hann bragðaði vín eða tóbak, og þótt hann vissi, að ég gerði það, talaði hann aldrei neitt um það, og hvað tóbaksnautn mína áhrærði — en hún hefir ávallt verið helzt til mikil — bar oft svo við, að þegar ég leitaði læknisráða hans, sagði hann aðeins þetta: „Heldurðu ekki að þú gætir hætt að reykja meðan þú ert svona; það væri hollara fyrir þig“. — Vínnautn mín náði aldrei lengur en til tvítugsaldurs, en þá var hann aðeins 15—16 ára að aldri og hafði engin afskipti af mér né ég af honum í þessum efnum, enda urðum við þá báðir bindindismenn (4. okt. 1885 og ávallt síðan), en hvorugur okkar þó neinir ofstækismenn eða afskiptasamir mjög í annarra garð í þeim efnum. Hann varð brátt áhugasamur ungtemplar, söngiðkandi og dáður mjög fyrir dagfarsprýði, létta lund og lífsgleði, eins og Bjarni bróðir okkar. Allt það, er ég hefi ritað hér um þennan bróður minn, er svo satt og rétt, sem

ég veit það fyrir guði og samvizku minni sannast vera, án tillits til þess, að við vorum svo nákomnir að skyldleika, sem við vorum, enda veit ég, að honum hefði sízt verið þægð í því að vera oflofi borinn. Það var eitt málefni eða öllu heldur félag, sem Ísólfur hafði hinar mestu mætur á, það var Frímúrarafélagið. Þar voru og beztu vinir hans, einkum Guðmundur Loftsson o.fl. og þar var hann tíður gestur á fundum, enda vann því félagi margt gott og þarft starf, m. a. tónsmíðar og höfðu víst allir félagsmenn hans þar miklar mætur á honum.

Jón Pálsson

Close Menu