Ísólfur var strangur við sjálfan sig og þótt hann kunni að gera harðar kröfur til annarra, þá er hann svo umburðarlyndur, hógvær og hluttekningarsamur, að hann hefir eigi orð á því við neinn. Hann er svo fjölhæfur og glöggur á margt það er aðrir veita enga athygli, að menn rekur í rogastans þegar maður loks fær hann til þess að segja álit sitt um það; hefir þetta komið sér vel fyrir hann og aðra þá er menn hafa leitað til hans sem læknis, en á því sviði hefir hann verið mörgum lækninum betri, t.d. við barnaveiki, lungnabólgu, kíghósta og mörgu fleiru er hann hefir reynst svo óbrigðull, að læknar bæjarins t.d. Matthías Einarsson hafa beinlínis bent mönnum á að leita til hans, en ekki sín eða annarra lækna, sérstaklega við áðurnefndum sjúkdómum. Það er margföld reynsla fengin fyrir því, að Ísólfur sér hvað að manninum gengur og er það þá oft annað en það sem læknar hafa um það sagt. Get ég tilfært mörg dæmi um þetta.
Meðal ótal vargs annars við ég geta þessa, sem sýnir athygli hans og nákvæmni.
Sumar eitt, nú nýlega sagði ég við Ísólf:
„Þetta er ljósta rosatíðin og lakast er, að geta ekki fengið þerri á söl, hvað þá annað“. „Þerri á söl? Það má afla nægra sölva í svona tíðarfari og þótt verra væri!“ Varð ég þá hissa, því ég vissi að söl þurftu a.m.k. eins dags góðan þerri. TÖluðum við svo nokkuð um þetta og fann ég þá, að hann vissi eitthvað meira en ég um þetta. Loks sagði hann: „Þú getur farið í fjöru í dag og aflað svo mikilla sölva sem þú þarft, og geymt þau svo lengi sem þú vilt og látið þau vaxa!“. Varð ég þá enn meir undrandi og leitaði nú eftir að fá að vita leyndardóminn. Sagði Ísólfur þá: „Þú hefir e.t.v. ekki hugsað út í það, eða vitað, að sölin taka ekki næringu sína af grjótinu sem þau vaxa á, heldur úr sjónum sem um þau leikur. Þau hafa engar rætur. En taktu þau, láttu þau í gisinn poka og stjóraðu þau svo niður í voglausan sjó. Þú getur geymt þau þannig og látið þau vaxa“. Ég efast um að nokkur lærður náttúrufræðingur hefði getað frætt mig eða aðra í þessu en nú reyndi ég það og reyndist satt.
Ísólfur semur sig sjaldnast að siðum annarra með læknisdóma sína: Hann forðast að gefa mönnum hitaskammta í hitasóttum, segir sem er að þeir tefji fyrir betrun og spilli fyrir því að veikin fái „að rasa út“. Þetta reyndist og svo í spönsku veikinni 1918; hvorki þá né endranær andaðist neinn þeirra er hann stundaði. Í síðust kíghóstaveiki stundaði hann 900 börn og læknar (m.a. Matthías Einarsson) sögðu við menn: Farðu til hans Ísólfs Pálssonar; hann reynist svo vel í þessari veiki“
Einu sinni gekk ég með Ísólfi vetur Túngötu; mættum við þá Ingvari gamla Sigurðssyni frá Útey og talaði ég við hann drykklanga stund, en Ísólfur hélt áfram ofurlítinn spöl. Þegar ég kom til Ísólfs aftur spurði hann:
„Hvaðan var hann Ingvar að koma núna?“
„Hann kom frá Landakoti, því hann var að finna hann Eyvind son sinn, sem hefir legið þar í einar 8-9 vikur á Kalinu, sem hann fékk í ferð sinni upp í óbyggðir. En hann er nú á góður batavegi, sagði Ingvar mér“
„Eru þeir svona lengi að lækna þetta? Kal held ég að megi þó lækna á 8-9 dögum”
„Treystir þú þér til þess?“ spurði ég undrandi.
„Já, það held ég! Ég er nýlega búinn að hjálpa henni frú Schram (konu Wilhelm Schram) við fúasári á fætinum. Hún hefur haft þetta sár á fætinum í mörg ár, en ég hafði hana undir hendi um rúma viku tíma og nú er sárið gróið, eins og það hefði aldrei vottað fyrir því“.
„Hvernig ferðu að þessu?“ spurði ég.
„Kalsár og fúasár eru oftast jafnerfið viðfangs, en það er tiltölulega létt verk að lækna þau, ef rétt er að farið: það er ekki annað en hella arnicatmatur í sárið; en arnican þarf að vera rétt blönduð, því sé hún of sterk brennir hún, en sé hún og veik heldur sárið áfram að fúna. Sé hún því rétt blönduð gerir hún engan skaða. Síðan er sorfinn alabasturssteinn látinn á sárið og þá mun það gróa fyrr en nokkurn varir.“
– Þannig mætti lengi telja þau einföldu læknisrá, er hann hefir við ýmsar aðgerðir sínar.
„Fæstum mun kunnugt um hinar mörgu og frumlegu uppfundingar Ísólfs, t.d. botnvörpuna, netasteinana steyptu, áhaldið sem geir mönnum aðvart í hvaða hitasigi sem er, hversu heitt er í herberi, og er því örugg bending um það, hvort hætta sé á að því kvikni af eldi. Áhald þetta hefir hann reynt í viðurvist minni og margra annarra. hann reyndi það í þrem herbergjum sem öll voru köld en við 17 stiga hita, 26 stiga hita og 38 stiga hita sagði áhaldið nákvæmlega til um öll þessi hitastig, svo að eigi munaði nema einu stigi (átti að sýna 27 stig en sýndi 26). Væri hún rafmagnsbjalla eða klukka sett í samband við áhaldið, við hvert þessara hitastiga, hringdi klukkan án afláts, uns tekin var úr sambandi. Með þessu mátti fá vitneskju um það, í hvaða fjarlægt sem var, hvort óeðlilegur hiti væri í herberginu.
Dæmi: Ég bý á neðstu hæði í þrílyftu húsi; í því eru 23 herbergi og áhald í hverju þeirra, sem stendur í sambandi við klukku eða hringingarbjöllu í svefnherbergi mínu. Einnig get ég haft áhald þetta í sambandi úr útihúsi, hversu fjarlægt sem er, aðeins rafþráð á milli. Hitamælir er vitanlega í sérhverju þessara herbergja, sem segir til hvað hitanum líður. Sé hann t.d. 10 stig, þegar ég skil við herbergið og sé svo um, að enginn umgangur verði um það nóttina yfir. Ég svo vil ég stilla áhaldið svo, að ef hitinn skyldi verða til 18. 19 eiða 20 stig, þá hringir klukkan, og ég sé ég þá að eitthvað er óeðlilegt með hitann í því. Það er kviknað í því!
En nú er það sorglega við allar þessar uppfundingar Ísólfs, að óvildar og öfundarmenn hans hafa með flærð sinni og undirferli komið í veg fyrir að honum eða öðrum yrði að þeim nokkurt gagn, jafnvel þótt hann hafi fengið einkaleyfi fyrir þeim, hafið málsókn á hendur þessum mönnum o.s.frv. Þá varð álvalt einhver formgalli á því frá annarra hendi, þ.á.m. Stjórnarráðsins, að hann tapaði þeim málum. Aldrei átti hann þó sjálfur neina sök á þessu, nema þá, að láta sér fallast hugur og hætta við allt saman! En þetta hefir um margs annars, fundið svo á hann, að hann hefir af eðlilegum ástæðum tortryggt flesta þá sem þó hafa verið að reyna að hjálpa honum og hann haldið mörgum hugmyndum sínum leyndum.
Um tónlistargáfu Ísólfs þarf ég ekkert að segja: Lög hans bera þess vott, að hún er mikil, einkennilega lipur og aðlaðandi. Þegar Ísólfur var – fyrir minn atbeina – vetrartíma hjá hinu heimsfræga firma, Horung & Möller í Kbh. að læra að gera við hljóðfæri og stilla þau (veturinn 1912) skrifuðu þeir:„Deres broder Isolfur, haf et usædvanlig godt Gehör. Vi vil derfor gerne han alene skal stemme vore instrumenter deroppe i fremtiden“.
Ísólfur er með réttu talinn einn meðal þeirra heilsteyptustu og fjölhæfustu manna að andlegu atgervi; hann les mikið og er óvenjulega heima í ýmsum greinum, en einkum þeim þó, er að lækningum lúta, smiðum og uppgötvunum. En efnahagur hans og heimilisaðstæður – hefur eignar 11 börn – hafa *haslað )s. 63) honum völl.
Ísólfur var formaður á Stokkseyri um nokkurt skeið og lét það vel, enda athugull með afbrigðum um veðurfar og sjóarlag. Engan þekki ég kunnugri en hann öllum lónum, ósum og skerjum, alla leið austan frá Baugstöðum út að Ölvesá, og sama máli er að gegna um kunnugleika hans utan brimgarðsins á þessu svæði.
Hann hefir alla tíð verið einlægur og staðfastur bindindismaður, glaðlyndur að eðlisfari, fáorður og alveg laus við að hafa nein afskifti af einkamálefnum annarra. Jafnvel þótt þau fari ekki fyrir ofan garð og neðan hjá honum fremur en annað, sem fyrir hann ber og má í því efni segja um hann „að litlir pottar hafa líka eyru“. Er þetta þó eigi svo að skilja að hann sé „lítill“ í neinu, heldur svo, að hann hefir eins og úar er sagt, lítil eða engin afskifti af því, er hann telur sér óviðkomandi, en veitir þó öllu athygli.
Ísólfur var barnakennari á Stokkseyri, verslunarmaður á Eyrarbakka um mörg ár – hann var sérstaklega handgenginn P. Nielsen gamla, góður vinur hans og trúnaðarmaður – og jafnlengi eða legur organisti við Stokkseyrarkirkju.
Hann er alkunnur af því að geta sagt og segja fyrir um veðurlag fyrir lengri tíma, jafnvel vikum og mánuðum saman. Byggist þetta á nákvæmri eftirtekt hans, í því sem örðu, og gæti ég og fleiri sagt margar ótrúlegar en sannar þó!.
Ísólfur hefir ekki gefið sig mikið að almennum félagsskap, því hann er dulur og óframfærinn að eðlisfari. Auk þess að vera meðlimur Goodtemplrareglunnar , í undirstúku og barnastúku, um um 50 ára skeið, hefir hann gjörst meðlimum Frímúrarareglunnar og metur hana mikils og segir að hún hafi veitt sér ómetanlega andlegt gagn og mikla gleði, enda sækir hann fundi þess félags mjög vel og mun hafa orðið því að miklu gagni, m.a. með tónsmíðum sínum.
Ísólfur hefur verið veiðimaður mikill, enda með afbrigðum góð skytta. Seli og hnýsur í hundraðatali veiddu þeir árlega saman bræðurnir, Jón og Ísólfur, mest úti á rúmsjó; komust þeir þá oft í hann krappan í þeirri viðureign. Kom sér þá oft vel kunnugleiki þeirra á sjó og veðráttu. Þá hefur Ísólfur haft ýmislegar athuganir með höndum viðvíkjandi fuglum og eggjum þeirra, enda var hann lengi önnur hönd P. Nielsen gamla í þeim efnum ýmsum, eins og áður er sagt, og af því lærði hann margt og mikið af honum um náttúru landsins, grös og gróður sjávar, fiska og önnur sjávardýr. – Kærkomnasta bókin, sem Ísólfur las og lætur sér annt um að læra sem mest af er Opfindernesbog og ýmsar aðrar bækur er fjalla um vélar og uppfundingar. Hann hefði því getað verið liðtækur vélfræðingur, hefði hann átt þess kost að mega ganga í einhvern skóla, frekar en barnaskóla um nokkurra mánaða skeið.
Ísólfur er fæddur 11. mars 1871 og því 68 ára. Hann er kvæntur Þuríði Bjarnadóttur frá Símonarhúsum, góðir konu, en óhætt mun að segja, að ekki hafa börn hans eða þeirra orðið þeim til þeirrar gleði öll og nytja sem vænta mátti, þótt engin þeirra hafi þó reynst nein afstyrmi né ónytjungar. Flest þeirra hafa orðið hinar nýtustu manneskjur, en hin hafa eigi átt samleið með lundarfari Ísólfs og því orðið honum frekar til ama en ánægju, enda er hann strangur en þó með afbrigðum viðkvæmur. Þetta hefir því komið harðar niður á honum sjálfum en öðrum sökum þess, að hann hefir ávalt sekkjað tilfinningar sínar fyrir öðrum. Öllum þeim, sem tekist hefir að gjöra Ísólf handgenginn sér, ber saman um það, að vandaðir menn til orðs og æðis, hreinlyndari og góðsamari mann hafi þeir aldrei kynnst. Þetta er áreiðanlega ekkert oflof eða ýkjur, en eflaust munu þeir hafa orðið að kafa nokkuð djúpt eftir þessum perlum mannlegra dygða og kostgæfni, sem Ísólfur hefir verið svo ríkur af, þótt jafnan hafi hann þá fátækur verið að veraldarauði þótt eflaust megi segja, að hér í höfuðstaðnum séu margir ágætir læknar, þá hefi ég og heimili mitt naumast leitað neins annars læknis en Ísólfs og hefir það reynst ágætlega. Kona mín mun naumast hafa meiri mætur á neinum manni en honum, og er það ærin trygging mér og öðrum er hana þekkir fyrir því að Ísólfur sé óvenjulega ágætur maður á öllum þeim sviðum er er vit hans og þekking urðu til. Búast má við því, að þetta sér orðum aukið hjá mér, svo náskyldur sem ég er honum, en þar er ég ekki einn til frásagnar; það er óræk reynsla fjölda annarra manna og allra þeirra, sem kynnst hafa honum best.