Ísak J. Jónsson bjó í næsta húsi við Ingvar. Fyrri kona hans var Guðríður Magnúsdóttir, Guttormssonar og meðal barna þeirra Magnea, ekkja Ásgeirs læknis sem var á Ísafirði (?). Friðsemd, kona Eiríks Jónssonar frá Bjóluhjáleigu, síðar Ási, Guðríður og Sylvía, báðar í Hafnafirði. Síðari kona Ísaks er Ólöf Ólafsdóttir frá Árgilsstöðum, systir Bergsteins bónda þar og Sigurðar sem lengi bjó í Læknisnesi. Sonu áttu þau tvo eða þrjá, og dóttir þeirra er Ingibjörg Jóna, kona séra Jóhanns Briem á Melstað.
Ísak var lengi verslunarmaður við Lefoliiverslun. Bar hann þess ýms merki, að hann var sonarsonur Bomensons sýslumanns í Rangárþingi og er það næg lýsing á honum. En hann var að jafnaði góður samstarfsmaður, bóngreiðugur og velviljaður, og hefði getað verið betur virtur, ef hann hefði gætt sín betur fyrir brögðum Bakkusar.
Ísak var nettur maður vexti, fríður sýnum með ljósleitt hár og skegg á vöngum, augu hans voru gráleit, nefið vel lagað og munnurinn fríður; þykkholda var hann nokkuð, ávalt snyrtilega til fara og hreinlegur. Hann var hæðinn og gerði oft gys að öðrum, sér meiri mönnum, enda var hann hvorki vel upplýstur né greindur, en trúr var hann og húsbóndahollur.
Fyrri konu hans þekkti ég sem myndar konu mesta, stórlynd og hreinlega. Síðari konu hans þekkti ég vel og börn hennar, og var hún bæði dugleg kona og góð, feitlagin nokkuð og fríð sýnum. Hélt hún manni sínum mjög í skefjum, ól börn sín upp með ást og umhyggju.
Ísak var oft móttökumaður vara,fiskjar o.fl. í Þorlákshöfn og leysti þau verk með vandvirkni og trúmennsku, en vegna þessa var fremur séð í gegnum drykkjuskap hans og óreglu og hann látinn gegna stöðu sinni lengur en ástæður voru þó til, enda mátti hann eigi missa þessa atvinnu sína, því til annarra verka mun hann hafa lítt fallinn verka eða kunnað. Bærður hans voru þeir Kristófer í Vindási í Landmannahreppi og Frímann verslunarmaður, er síðar verður vikið að.