Hinrik Jónsson Ranakoti

Hinrik Jónsson Ranakoti

Hinrik var albróðir Þorkels á Óseyrarnesi og lengi formaður á Stokkseyri, einn hinn ágætasti maður er ég kynntist í æsku. Hann var lágur maður vexti, þrekvaxinn og kraftalegur, dökkur á hár og hörund. Kringluleitur með bartaskegg, hátt og hvolft enni og framvaxnar augnabrýr, bláleit augu, beint nef, fremur stutt. Hann sýndi það í öllu, að þar fór góður og göfugur maður, stilltur vel en þó ákveðinn í orðum og athöfnum. Þau hjónin voru jafnan fátæk, en vinnusöm og dugleg, enda munu þau oft hafa orðið að láta sér og börnum sínum lítið nægja til lífsframdráttar, svo að þau gætu lifað án styrks frá öðrum. Börn þeirra öll urðu mannvænleg og mjög vinsæl, eins og þau sjálf, sökum mannkosta þeirra og atgervis. Sigurður var jafnaldri minn og stallbróðir, enda best vinur. Hann kvæntist Kristínu Bjarnadóttur frá Símonarhúsum og var því mágur Pálmars og Ísólfs, bræðra minna.

Hinrik í Ranakoti andaðist 21. febr. 1882, 51 árs að aldri. Elsta barn sitt, Jón Kristinn, kalla Hinrik „gamalmennið“ og var það í spaugi, en Jón þessi var ellilegri að útliti en jafnaldrar hans (f. 3. júní 1864, d. 6. maí 1885), sjá draum um hann á öðrum stað) og framúrskarandi kraftamaður, enda stuttur og digur; hann hafði „beinserla“  er svo var kallað og því stirður nokkuð í öllum hreyfingum.

Close Menu