Helga Gunnlaugsdóttir Efra-Seli

Helga Gunnlaugsdóttir Efra-Seli

Helga var fátæk mjög, en á síðari árum bjó hún með Hannesi gamla Hannessyni (pósts) og voru þeir synir hans, Hannes matros (enn á lífi hér í Reykjavík, f. 15. nóv. 1858) og Jón er andaðist í holdsveikraspítalanum í Laugarnesi), uppeldisbörn hennar. Hinn 20. mars 1863 varð Helga fyrir því sorglega og stórfelda slysi, að miss mann sinn, Þórð Bjarnason 68 ára og son hans Gísla 26 ára, svo og son sinn af fyrra hjónabandi, ágætis formanninn og valmennið, Tyrfing Snorrason, – 36 ára – alla í sjóinn ásamt 11 eða 12 mönnum öðrum, er með þeim fórust.

Helga var um sjötugt er ég fæddist; hún var ólærð yfirseturkona, tók á móti fjölda barna og heppnaðist það svo vel, en engin kona og ekkert barn misfórst hjá henni. Hún var fremur lág kona vexti, gild og feitlagin nokkuð, brúnleit í andliti sem ávalt ljómaði af góðsemi og gleði á hverju sem gekk með afkomuna og efnahaginn, en missi ástvina sinna, einkum Tyrfings, tók hún sér mjög nærri, enda var sagt, að það hefði fleiri gert sem óskyldari voru, því hann hafði verið harmdauði öllum þeim er hann þekktu.

Helga var fróðleikskona, höfðingleg á svip, augu hafði hún fremur brúnleit, mikið hár sem naumast sást hvítt hár í, hendur smáar og fallegar; kvik varhún á fæti, fámálug og lagði aldrei annað en gott til allra manna og málefna. Hún var eins og besta móðir öllum þeim, er hjá henni voru, börnum og vinnuhjúum og lét þeim líða svo vel sem kostur var á. Helga var mesta hreinlætiskona, fróð og minnug; hún var ættuð austan úr Holtum. Hún var með afbrigðum barngóð kona og valkvendi hið mesta.

Close Menu