You are currently viewing Hallgrímur Jóhannesson Kotleysu

Hallgrímur Jóhannesson Kotleysu

Hallgrímur Jóhannesson frá Kotleysu, síðar á Kaðlastöðum, var einn hinn gjörvulegasti maður austur þar, smiður góður á tré og járn. Lagði hann einkum fyrir sig skipasmíðar, auk formennskunnar, sem var frábær, og voru skip þau er hann smíðaði bæði falleg og góð, enda var þeim jafnað við skip þau er Jóhannes Árnason á Stéttum smíðaði.

Þá þóttu skautar þeir, er Hallgrímur smíðaði svo góðir, að menn þóttust eigi kunna neitt á skautum, ef þeir voru ekki eftir Hallgrím og sorfnir af honum, en skautaferðir voru mjög tíðkaðar á vetrum þar eystra, bæði af ungum og gömlum, en þó aðallega af drengjum og karlmönnum, en síður af konum – þær voru sjaldan úti og síst í leikjum.

Hallgrímur var hár maður vexti, um eða yfir þrjár álnir á hæð, herðabreiður, beinvaxinn og svaraði sér vel. Hann var skegglaus, ljós á hár og hörund, andlitið frítt, nefið beint, ennið hátt og augun blágrá að lit; góðsemin og glaðværðin skein úr augum hans og ávalt var hann mildur og þíður í viðmóti. Hann var glettinn og spaugsamur án þess þó að fara að öðrum eða gjöra lítið úr þeim. Hallgrímur var karlmenni í sjón og reynd, raungóður  maður og drengur hinn besti.

Á yngri árum var Hallgrímur vínhneigur mjög, en eftir að hann kvongaðist konu sinni Stefaníu Stefánsdóttur frá Skógsnesi, lét hann mjög af þeim ósóma þótt aldrei yrði hann þó bindindismaður. Tvær dætur áttu þau Hallgrímur og Stefanía, Sigríði saumakonu hér í bæ, er líktist mjög móður sinni og lifir hún enn; hin var Ragnheiður rjómabústýra, eftirmynd föður síns í sjón og reynd og er hún nú dáin fyrir 8-9 árum. Báðar voru þær stystur vel gefnar og góðar stúlkur.

Hallgrímur var sonur Guðrúnar í Brattsholti, en hún var dóttir Hallgrímu Hallgrímsdóttur í Kotleysu og ólst Hallgrímur upp hjá henni og manni hennar, Sveini gamla, hinum ríka á Kotleysu, Sveinssonar frá Króki í Hórarsholtshverfi.

Sveinn í Kotleysu þótti hæðinn maður og kerskinn – og það mun hann hafa verið – en Hallgríma stórlynd. Þau voru talin rík, enda áttu þau nokkrar jarðeignir; lítið mun þó hafa orðið úr þeim „auði“, og veit ég ekki hvað af honum varð, en ekki mun Hallgrímur hafa notið mikils af honum, nema þá til þess að auka á óreglu hans í uppvextinum og sjálfræðinu sem hann ólst upp víð. Hann andaðist 4. maí 1 912, 60 ára að aldri.  Hallgíma amma hans dó. 2. sept. 1880 82 ára að aldri.

Það eitt var einkennilegt við Hallgrím hversu myrkfælinn hann var, þótt hann á öðrum sviðum virtist all-ódeigur, t.d. við sjóferðir sínar og væri bæði mikilmenni í sjón og reynd. Sagði hann mér, að þessi myrkfælni hans stafaði, af því, hversu mjög hann hafði verið hræddur með alls kyns draugasögum og dularfullum frásögnum í æsku. Við Hallgrímur voru um mörg ár eftirlitsmenn með sjóferðum manna á Stokkseyri. Höfðum það í hendi að vera vakandi um það hvernig sjór og sund voru, þá er menn voru á sjó og gefa þeim bendingar um það (flagga á tilteknum stöðum). Síðari æfi ár sín bjó Hallgrímur einn í sjóbúð sinni og bar þá ekki á myrkfælni hans. Lengstum bjuggu þau hjón að Borg í Hraunshverfi og komust vel af. Hallgrímur var gjafmildur og framúrskarandi barngóður enda góðmenni hið mesta, glaðvær og skemmtilegur.