You are currently viewing Halldór Gíslason

Halldór Gíslason

Halldór Gíslason í Garðhúsum og kona hans, Guðrún Einarsdóttir voru meðal þeirra Eyrbekkinga, sem ég þekkti bezt og að beztu. Hjá þeim leigði ég öll þau ár er ég var á Bakkanum, áður en ég kvæntist, eða frá 1887-1895. Var ég þar með þeim frændum mínum, Jóni Jónssyni á Loftsstöðum og Jóni Adólfssyni á Stokkseyri. Heimili þetta var áreiðanlega hið annað foreldraheimili okkar allra og eigum við allir hina bestu endurminningar um það og dvöl okkar þar.

Halldór var meðalmaður að vexti, bjartur yfirlits og fríður sýnum, alskeggjaður, ljósleitur og þannig var hár hans einnig, augun blá og gáfuleg. Hann var hæglátur maður mjög og stilltur, vel að sér og skáldmæltur vel. Kona hans, Guðrún var fríð kona sýnum, fyllilega af meðalstærð; hún var glaðleg í lund, góðgjörn og umhyggjusöm fyrir hag heimils síns og allra þeirra, er hún náði til; ör var hún í lund, hreinlynd og þrifin. Alla þessa kosti hafði og móðir hennar Björg Jónasdóttir frá Svartagili í Húnavatnssýslu, en hjá þeim dvaldi hún hin síðari ár, ásamt syni sínum, Jónasi Einarssyni er drukknaði á Eyrarbakka 12. apríl 1890  svo og dóttur sinni Ingibjörgu Einarsdóttur, móður Einars Kristjánssonar byggingameistara í Reykjavík.

Óvenslubundinni konu annarri en Björgu Jónasdóttur hefi ég naumast kynnst svo ástríkri og umhyggjusamari.

Halldór og Guðrún voru jafnan fátæk, en komust þó vel af. Hann var trésmiður góður og rennismiður; féll honum aldrei verk úr hendi og las hann þó mikið og fylgdist vel með í öllu. Hann var fróður vel og kunni frá mörgu að segja, en dult fór hann þó með það og einnig skáldskap sinn. Guðrún var saumakona ágæt, þótt ólærð væri og var hún mjög eftirsótt til þeirrar vinnu, sem og þess, að matreiða í brúðkaupsveislum og við önnur hátíðleg tækifæri, enda var hún myndarleg og röggsöm í því sem öðru.

Börn þeirra Halldórs og Guðrúnar voru 3: Margrét Andrea, kona Magnúsar Bergmanns vélstjóra og nú umsjónarmanns við þvottalaugavélarnar hér í Reykjavík, Einar Bergur, er lengi var einn meðal hinna virtustu póstmanna hér í Reykjavík, en hann andaðist 20. október 1919, og loks Gísli Guðlaugsson, innheimtumaður hér í Reykjavík. Öll voru börn þessi vel uppalin og mannkostum gædd.

Halldór Gíslason andaðist 2. apríl 1921 en Guðrún 21. desember 1936. Minningarorð um þau eru að finna í Morgunblaðinu 30 des. 1936 og þar eru myndir af þeim báðum og helstu æviatriða getið.

Halldór og Guðrún fluttust til Reykjavíkur 1901 og bjuggu mörg hin síðari ár við Njálsgötu 31. Að koma á heimili þeirra, hvar sem það var, var hið sama fyrir okkur hjónin og heimilisfólk okkar, sem að koma á heimili góðra foreldra og bestu vina, enda mega margri aðrir hið sama segja. Þeim og okkur verður það jafnan ógleymanlegt. Heimili dóttur þeirra, Margrétar og Magnúsar Bergmann er einnig hið ánægjulegasta. Það er við Njálsgötu  hér í bænum.

Viðbætir

Ég get ekki slitið við við hugleiðingar mínar um hið góða heimili þetta, að ég eigi víki nokkrum orðum að því frekan en að framan getur. Eins og áður er sagt, bjuggum við 3 Jónarnir í stofunni niðri og var þar oft „glatt á Hjalla“. Sönglist, hljóðfæraleikur, samræður milli okkar og húsbænda er þau breyttu svo við, sem voru við meðal hinna góðu, ungbarna þeirra, en einkum var Björg gamla Jónsdóttir alveg sérstök gæða kona; hún var uppi fyrir allar aldir á morgnana og fór seint að sofa á kvöldin. þar var þrifnaður svo mikill og regla var á öllu, sparneytnin mikil en gestrisnin ótakmörkuð, enda oft mannkvæmt. Aldrei sá ég Halldór skifta skap, en oft var hann áhyggjufullur um afkomu heimilis síns og loks kom að því, að hann varð að veðsetja Lefoliiverslun lífsábyrgð sína fyrr skild sinni við hana; var honum það ærin raun, en hún þó meiri, að fá ekki næga vinnu þar, en hinsvegar að verða ávalt að gegna kalli ef eitthvað þurfti að gera, sem vandasamt var og aðrir gátu eigi gert. Oft fékk hann að vinna ýms atvik heima hjá Nielshjónunum, sem segja mátti, að væri honum góðir húsbændur sem öðrum, en það var þung raun fyrir annan eins gæðamann, mikilfengan og viðkvæman,að vera ávalt og alla tíð sem „þræll“ annars, en allt bar Halldór þetta með jafnaðargerði og ljúfmennsku.

Kona hans var örari í lund og lét þá stundum álit sitt og vilja í ljósi, með alvöru réttmætum athugunum. Jónas bróðir hannar var einnig örlyndur, glaðvær og skemmtilegur. Það var því þung sorg fyrir hina viðkvæmu og ágætu móður þeirra að missa hann á sviplegan hátt, en stilling sú, er hún allt þetta fólk sýndi þá, sem jafnan, er már minnisstæð. Börn þeirra voru í skóla á Eyrarbakka.

Eftir að Halldór og Guðrún fluttust hingað 1901, ári fyrir er viðtóku þau 2 stúlkur til fósturs; þegar; þegar önnur þeirra var fermd – greindar voru þær báðar – spurði Guðrún sr. Ólaf Ólafsson Fríkirkjuprest: „Hvernig stóð hún sig hún N.N litla við ferminguna að loknu hinu langa skólanámi hér?“ Sagði þá séra Ólafur; Ef gerðar væru kröfur til hálfs við það sem g ert var á Bakkanum til undirbúnings fermingu barna meðan ég var það eystra, væri ekki hægt að ferma eitt einasta barns“ – Þótt mér sé skylt málið í þessu efnin voru börnin á Bakkan og Stokkseyri látin læra það allt vel, sem þau áttu að læra, enda eigi ofhlaðið á þau með mörgum óþarfa námsgreinum. Börn Halldórs og Guðrúnar bera þess vitni, sem mörg önnur en þar voru. – Ég vildi óska, að hvert einasta íslenskt heimili væri sem líkast hinu óviðjafnanlegu fyrirmynd sem heimili þerra Halldórs Gíslasonar og Guðrúnar Einarsdóttur.

Garðhúsaheimilið, þeirra Halldórs Gíslasonar og Guðrúnar Einarsdóttur var bæði, þar eystra og einnig hér – en hingað fluttu þau árið 1901, eða ári fyrr en við hjónin, eitt hið góðkunnasta og myndarlegasta er ég hefi þekkt. Hér í Reykjavík bjuggu þau hjónin mörg hin síðari ár við Njálsgötu 31, og áttu þau það hús. Meðan þau bjuggu í Garðhúsum á Eyrarbakka, vorum við þar þrír leigjendur í stórri stofu, Jón á Loftsstöðum, Jón Adólfsson á Stokkseyri og ég. Vorum við allir náfrændur og var oft „glatt á Hjalla“ í stofu þessari og í baðstofu hjónanna uppi á loftinu: Söngur, hljóðfærasláttur og samræður við þau hjónin og Björgu gömlu móður Guðrúnar. Þar voru og systkyn hennar tvö, Jónas Einarsson er drukknaði á Eyrarbakka af Jóni Jónssyni frá Fit (Jón á Fit) undir Eyjafjöllum 12. apríl 1890, 37 ára að aldri. Var það þung sorg fyrir móður hans, systkyn og aðra vini Jónasar að missa hann með svo sviplegum hætti, því hann var góður drengur, glaðvær og skemmtilegur, en örlyndur nokkuð, ljós á hár og skegg, vel vaxinn og bauð af þér góðan þokka. Börn mun hann hafa átt, en þau þekkti ég ekki.

Hitt systkynanna var Ingibjörg, er síðar giftist Kristjáni Einarssyni eftirlitsmanna við Laugarnar hér í Reykjavík, og meðal barna þeirra var Einar Kristjánsson húsagerðarmeistari hér í bænum. Ingibjörg var nett kona, örgeðja en þó stillt; það lýtti hana, að hún var tileygð nokkuð, en annars fríð sýnum og smáfelld, nokkuð smávaxnari en Guðrún systir hennar, sem var ein meðal hinnu fríðustu kvenna og mjög lík móður sinni. Guðrún Einarsdóttir kom hingað suður með séra Páli Sigurðssyni að Gaulverjabæ árið 1880 (sr. P.S. var fæddur 16. júlí 1829, 2. 23. júlí 1887) og konu hans Margrétu Audren, dóttur Þórðar kammerráðs Guðmundsen og Jóhönnu Knudsen (d. 1881).

Um þetta leyti, 1880, var Halldór Gíslason vinnumaður hjá Jóni gamla í Vestari Loftsstöðum Jónssyni og Kristínu Jónsdóttur konu hans, en þau voru foreldrar Jóns, félaga míns. Þá var það að þau Halldór og Guðrún kynntust og þóttu þau vera eitt hið prýðilegustu hjónaefni þar um slóðir: Hann einn hinn mesti hagleiksmaður, greindur vel, hagorður og hversmanns hugljúfi, hún hin mesta fríðleiks kona, vel að sér til munns og handa, svo að af bar og bæði framúrskarandi geðþekk og góðleg. Halldór var söngmaður góður og söngvin vel, fróður um margt og víðlesin. – Meðal gesta þeirra og félaga okkar  frændanna þriggja, en oft og öllum stundum voru með okkur, má nefna á Guðmund Ögmundsson verslunarmann er síðar kvæntist Ragnhildi Magnúsdóttur frá Ásakoti (?) í Biskupstungum, tengdaforeldrar Gunnars Kvaran stórkaupmanns. Guðmundur Ögmundsson var bróðir Brands á Kópavatni (sálmaskáldsins) og konu Ólafs frá Dísastöðum og síðar Hákonar Grímssonar frá Grjótlæk. Meiri „æringja“ og gleðimann í hópi góðra vina var eigi hægt að hugsa sér en Guðmundur Ögmundsson var, en hann gerðist ölkær nokkuð hin síðari ár og var eigi gamall maður.  Hann mun hafa dáið hér í Reykjavík um aldamótin (1900?) sennilega nálægt fertugsaldri. – Ég á kvæði eitt um hann (kirkjuferðina eða Mundaríma) eftir Brynjólf Jónsson frá Minnanúpi, er lýsir ævintýralegri kirkjuferð Guðmundar og hann mun hafa sagt Brynjólfi og honum þótt lýsa Guðmundi vel og glettni hans um sjálfan sig.

Þá var þar og hinn gáfaði og góði maður Hjálmar Sigurðsson, er einnig fluttist hingað um aldamótin og mun hafa dáið hér skömmu síðar. Í Þjóðvinafélags almaki fyrir árið 1900 má sjá þess getið 1902, að hann hefir ritað þar yfirlit yfir 19. öldina og mun það vera hið síðasta sem hann reit í það rit, en ekki hefi ég fundið eða séð þess getið þar hvenær hann lést. (Hann hefur dáið 24.9.1903 – sjá Þjóðvinafélagsalmanak 1905, bls 52.) Hafði hann verið amtskrifari, en nú gjaldkeri (eða þá jafnframt) Holdsveikraspítalans í Laugarnesi. Hjámar Sigurðsson var ágætis maður hinn mesti, skáldmæltur vel og fróður; vildi hann í öllu miðla fróðleik sínum og miklu þekkingu ungum mönnum til góðs. Höfðu þeir verið hann og Guðmundur Ögmundsson í Möðruvallaskóla og voru góðir vinir.

Þá voru þar og oft næstum daglega ýmsir söngelskandi menn, t.d. Tómas læknir Helgason, Gísli Jónsson verslunarmaður, Guðmundur Oddgeirsson, Sigurður Eiríksson regluboði, Guðmundur Guðmundsson yngri (sonur Guðmundar bóksala), Sigurgeir Torfason og margir fleiri, auk ýmsra drengja, er allir voru góðir vinir mínar, svo sem Sigurfús Einarsson og einkum Hans Baagöe Guðmundsson og Sigurður bróðir hans (synir Guðmundar bóksala). Stúlkur komu þangað aldrei, nema Þórdís Símonardóttir ljósmóðir og var þá rabbað við hana, um daginn og veginn, því hún „vissi margt“, var mörgum kunnug og gaman við hana að tala, því hún var greind vel og einurðargóð.

Annars var heimili þetta aðsetur glaðværðar og góðra siða. Einkum var gamla konan, Björg Einarsdóttir ljós heimilisins, sem ávalt logaði stillt og rótt og lýsti út frá sér á alla vegu; hún var á fótum fyrir allar aldir og fór oftast síðust allra til hvíldar, allan daginn að þrífa til og gæt þess, að öllum á heimilinu liði sem bezt og náði þetta engu síður til okkar en annarra, enda var hún okkur sem bezta og umhyggjusamasta móðir.

Halldór Gíslason var sívinnandi frá morgni til kvölds og í frístundum sínum frammi í smíðahúsi sínu, ýmist við margskonar tré- eða rennismíði og þótti það allt prýðilega af hendi leyst. Rokkar hans voru bæði nettir og traustir, enda var Halldór fjölhæfur maður og listfengur, sem fjöldi manna sótti til. Hann var framúrskarandi gætinn maður og hæglátur, en þó blátt áfram og sagði mönnum meiningu sína afdráttarlaust og án allrar undanfærslu eða undirferli; hann var þó oft fremur fálátur og mun því hafa valdið erfiður efnahagur hans og umhyggja hans fyrir fjölskyldu sinni, sem hann lét sér alveg óvenjulega annt um, enda var heimilislíf þeirra hjóna sönn fyrirmynd, reglusöm og róleg. Allt var fólk þetta guðrækið og sanntrúað, án allrar tilgerðar og öfga. Ég tel það eitt m.a. hafa verið mér til ómetanlegs gagns og gæða á marga lund að mega dvelja um margra ára skeið á mesta og viðkvæmasta aldursskeiði á svo merkilegu mannbætandi heimili sem það var, heimili þeirra Halldórs Gíslasonar og Guðrúnar Einarsdóttur með hinni góðu konu, Björgu Einarsdóttur og börnum þeirra hjóna, en að vísu þá voru ung, en sem brátt sýndu hversu góðu bergi þau voru brotin og vel uppalin.

Það hlaut að verða smár hlutur hvers heimilismanns að verða að skifta dagkaupi húsbóndans, kr. 1.50 á vorum og haustum og kr. 2 á sumrum milli svo margra munna, en bæði var það, að Halldór vann mikið kvelds og morgna og Guðrún kona hans sívinnandi við saumaskap sinn og Björg gamla við tóvinnu sína, auk eldhússtarfanna og við að hirða um börnin og þrífa heimilið. Þar lá enginn á liði sínu og ekkert var af öðrum heimtað fram yfir það, sem eðlilegt og sjálfsagt var. Við leigjendur vorum engir burgeirar efnahagslega séð og höfðum úr litlu að spila, en hjón þessi notuðu sér það ekki, að vorum þó betur staddir með að greiða fyrir nauðþurftir okkar en aðrir, sem minni og stopulli vinnu höfðu, því fæðið kostaði 1 kr. á dag, þjónustan með stífingar á líntaui 2 kr. á mánuði og 8 kr. húsaleiga pr. mánuð. Skeð getur að þetta hafi verið þeim styrkur nokkur og þau voru ánægð við okkur og við við þau.

Alla þá tíð sem ég var á Eyrarbakka og stundaði bréfaskriftir kvölds og morgna, barnakennslu á daginn (5 kr. á dag) og kaupavinnu á sumrum, fékk ég 20 aura hvern vinnutíma og hafði þó meira en helming kaupsins í í afgang að vinnutímabilinu loknu.

Þá var farið á vertíðir: ÉG reri sjálfur, gerð út skip við annan mann, hafði vertíðarmann, er einnig  reri mér hlut og svo keypti ég afla Vigfúsar Finnssonar fyrir 12 aura hvern þorsk og 8 aura hverja ýsu, smáa og stóra (flestar 8-12 pund að þyngd). Auðvitað kostaði ég mig og vertíðarmanninn og fyrir allan þennan afla, eða næstum 3 1/2 hluti, fékk ég oft gott kaup ef fiskurinn ónýttist þá ekki með öllu vegna sólbruna eða óþurrka.

Ég get þess til þess að sýna hversu gagnlegt það var fyrir mig eignalausan ungling, að komast á svo gott heimili, sem það var hjá þeim Halldóri og Guðrúna. Síðan hefir mér og konu minni verið það mikið ánægju- og gleðiefni að taka þau okkur til fyrirmyndar og geta létt undir byrðum annarra margra pilta og kvenna sem viljað hafa sýna viðleitni í því að koma sér áfram. Þetta var og hugsun og framkvæmd foreldra minna og fósturforelda konu minna. Að þessu höfum við búið og farnazt vel. Fátt er því dýrmætara hverju ungmenni sem er, en það, að vera undir umsjá góðra manna, sér reyndari og læra af þeim, en þá er aðeins eftir hið mikilverðasta: að nota sér þennan lærdóm sem bezt.

Margt fleira mætti um þetta segja fleira, en nú læt ég staðar numið. Aðeins vil ég endurtaka það, að heimili þeirra Halldórs Gíslasonar og Guðrúnar Einarsdóttur var alla tíð eitt hið bezta, er ég get hugsað mér.