You are currently viewing Guðmundur Þorkelsson Gamlahrauni

Guðmundur Þorkelsson Gamlahrauni

Guðmundur var hávaxinn maður og krangalegur, nokkuð stórleitur í andliti  þó fríður sýnum. Hann var glaðsinna og skemmtilegur. Einkennilegur var hann því leyti, að hann bar öll þau orð er „err“ var í mjög linlega fram; hann sagði t.d. fjörumeri þannig: fjögumegi. Annað einkenni hafði hann einnig að þá er hann hló, rak oft upp svo mikinn skellihlátur að það var  líkast því sem menn kalla „hrossahlátur“, þ.e. eins og hestur hneggjaði.

Gamlahraunshjónin, Guðmundur og Þóra voru sannkallaðar gæðamanneskjur og og börn þeirra líkust þeim öll mjög að þessu leyti og öllu góðu. Hógværð, hrekkleysi, vinnusemi og vandað dagfar var aðaleinkenni fólks þessa; þau voru þrátt fyrir mikla ómegð meðal efnaðri manna sveitarinnar og gjörðu þó gott öllum þeim er að garði bar og var þó Gamlahraun í þjóðbraut þá.

Guðmundur var lengi formaður bæði í Þorlákshöfn og á Stokkseyri, aflasæll vel og sjósækinn. Synir hans, Jón og Guðmundur (drukknaði í Ólafsvík) var einnig atkvæða formenn. Lifir Jón enn og á heima í Vestmannaeyjum; hann er faðir Guðna magister og fjölda annarra ágætra afkomenda.

Þá var og Símon Símonarson á Gamla hrauni einnig formaður. Hann var bróðir Þóru, konu Guðmundar og hinna mörgu Gamlahraunssystkina. Símon var vel efnaður maður og jafnvel talinn ríkur, enda fremur fastheldinn á fé, en þó bóngóður og bágstöddum velviljaður. Símon var fremur lágur maður vexti, ljósleitur í andliti og kvikur á fæti og nettmenni, óhlutdeilinn var hann og vandaður til orða og verka, vinnusamur og verkmaður góður.

Ari Símonarson, bróðir hans bjó að Stóra Hrauni. Var hann gildur bóndi og einnig að vexti, meðalmaður í vöxt, herðabreiður mjög, breiðleitur og með lítið bartaskegg á vöngum. Kona hans, hin síðari , hét Anna Eyjólfsdóttir, systir Magnúsar á Neistastöðum.

Systir þeirra Ara og Símonar voru Þóra á gamlahrauni, Elín í Mundakoti, Sesselja og Jarþrúður,  báðar á Gamlahrauni og Ása o.fl. en bræður: Jón faðir Símonar á Selfossi og Þorsetinn; alls munu þau hafa verið 15 talsins. Flest þeirra systkina þóttu ófríð sýnum, en öll voru þau hinar vönduðustu manneskjur, vinusöm mjög, sparsöm og skyldurækin.