Gísli Gíslason Stórahrauni

Gísli Gíslason Stórahrauni

Gísli var um eitt skeið hreppstjóri í Stokkseyrarhreppi samtímis föður mínum. Stefnuvottur var hann lengi og enn lengur forsöngvari. Fegurri og jafnframt fyllri og þýðari söngrödd minnst ég ekki að hafa heyrt og líktist hún mjög söngrödd föðurbróður hans, Guðmundar gamla Þorgilssonar, séra Sæmundar í Hraungerði, Jón í Hlíðarenda og Bjarna bróður míns en þessa menn heyrði ég syngja best, og betur en nokkur „lærður“ söngvari. Röddin var þeim ásköpuð. Gísli var meðalmaður á vöxt, kvikur á fæti og glaðsinna; orðheppinn var hann og ófyrirleitinn í orðum, ef að honum var veist. Hann hafði skarð í eftir vör og var að ýmsu ólíkur systkynum sínum í andlitsfalli, en þó voru öll fremur fríð ásýndum og Gísli var það einnig þótt ólíkur þeim væri. Halldóra kona hans var mjög lík bræðrum sínum, Sturlaugi og Páli föður mínum. Hæglát var hún og fáorð, en vel stundaði hún heimili sitt og börn þeirra hjóna. Eitt þeirra er Jón utanbúðarmaður hjá Garðari Gíslasyni hér í bænum. Son sinn, Pál, misstu þau á unga aldri og átti hann þá heima hjá Páli og Þorgerði í Íragerði. Gísla áttu þau sem bjó í Stokkseyrarhverfi greindan vel, en gjörólíkan flestum ættarmönnum sínum, nema að því að vera stálminnugur, fóður og fyndinn í svörum. Börn þessa Gísla þykja hafa líkst honum í því að vera eigi við eina fjöl feld, enda verið að þeim – og þeirra börnum, Rússabragur, en þó ónytjungar um flest nema reglusemi á vín.

Gísli á Stórahrauni var manna glöggastur á ýmsa hluti: veður, sjó, ættir manna, enda hafði móðir hans, Sesselja Grímsdóttir, amma mín, einnig verið það svo, að til þess var jafnan vitnað og sagt: „Spurðu hana Sesselju gömlu um þetta, hún veit það“. Hefi ég þetta o.fl um hana eftir hinum fróða ágætismanni Einari sál. Guðmundssyni, sem lengi var vinnumaður Gísla og samtíða Sesselju. – Ég sá þessa ömmu mína og þótti mér hún tilkomumikil kona; blíðlynd og barngóð var hún, en siðvönd mjög og leiðbeinandi með hollráðum fyrir börn og unglinga til að breyta eftir. Hún var fædd 1799 og andaðist 22. febr. 1875, 77 ára.

Close Menu