Guðmundur Ísleifsson á Stóruháeyri, tengdasonur Þorleifs, var hár maður vexti, bol-byggður og ekta barraxlaður, með fremur lágt enni, fallegt nef, munn og varir, dökkt jarpt hár og skegg með smá augu, nokkuð dökk. Hann var fríður maður sýnum, sterklega vaxinn og víkingur til vinnu. Hann var talinn ein hin mesta sjóhetja og austar þar, en það var hann ekki. Margir aðrir voru honum þar fremri, en hann var veðurglöggur og gætinn – nema við vín, því þá var hann stjórnlaus í þeim efnum sem öðrum. – Hann barst mikið á og óvæginn var hann landsetum sínum og þeim, er eigi vildu þola ágang hans og ofríki. Hann var bóngreiðugur og umbótamaður í mörgu.
Ég hefi skrifað ýmislegt um Guðmund Ísleifsson áður og vil eigi endurtaka það hér, enda sumt af því svo, að það er þessi eigi vert að því sé mjög á lofti haldin. En um mann þennan má þó í fæstum orðum segja það, hann var samsettur mjög af ýmsum eiginleikum, góðum og miður góðum, jafnvel frekar en aðrir menn, en að hið góða var honum eigi eins tamt sem hitt, hygg ég að komið hafi af því að hann var algjörlega óupplýstur maður og svo það, hann var eigi nægilega greindur til þess, að þola aðstöðu þá, er hann komst í með kvonfangi sínu. Og þó virtist hann vera hygginn maður og ráðagóður, en eigi hafa kunnað svo með að fara sem skyldi. Hann hefði getað orðið landi sínu og þjóð sinni og einkum héraði sínu bæði gagnlegur maður og mikilvirtur til góðs, en var hvorugt, ef vel er athugað hvað um hann er sagt.
Kona hans var Sigríður Þorleifsdóttir, lág kona og gild, feitlagin og fríð sýnum. Eigi þótti hún í öllu betrumbæta mann sinn og heimilislíf þerra var oft róstursamt. Börn þeirra voru mörg, flest ágæt, einkum Guðbjörg, kona séra Gísla Kjartanssonar og Þorleifur alþingismaður – „Háeyrarauðurinn“ svonefndi hefði getað orðið þeim er hann hlutu meðal barna og barnabarna Guðmundar, að miklu gagni, ef hann sjálfur hefði kunnað el með að fara, en Bakkus var ráðsmaður hans oft og oflengi, og er þetta næg lýsing á því hvernig fór og orsökum þess.