Gísli Jónsson Eyvakoti

Gísli Jónsson Eyvakoti

Þá bjó í Eyvakoti Gísli Jónsson, faðir Sigurðar múrara á Eyrarbakka, Hallgríms og Margrétar, Jóhanns í Hafnarfirði og Guðlaugs í Keflavík, allt hið mesta dugnaðarfólk eins og faðir þeirra, er lengi var sendimaður á vetrum fyrir Lefoliiverslun, oft í illri færð og vondum veðrum; reyndist hann jafnan ferðagarpur mikill, ráðvandur og trúr; voru ferðir hans einatt til þess farnar, að fá og flytja vörur úr Reykjavík til verslunarinnar, en aldrei vissi ég til, að honum hlekktist á. Gísli var lágur maður vexti, saman rekinn, rjóðleitur í andliti, með jarpt hár og skegg, eigi mikið. Kona hans var Guðlaug Jónsdóttir og minnir mig, að hún væri systir Jóns bláa, er svo var nefndur og bjó hann í Votmúla Norðurkoti. Þau Gísl og Guðlaug áttu einnig son þann er Jón hét og var hann kvæntur Margréti frá Merkisteini, duglegur maður vel, en drykkfeldur nokkuð, eins og þeir bræður allir og faðir þeirra, þó eigi svo, að orð væri á því gerandi, enda lögðu þeir þann óvana niður að mestu hin síðari ár. Gísli var formaður á Eyrarbakka um skeið og gekk það vel.

Close Menu