Friðrik var fremur hár maður vexti, spengilegur og sporléttur, gráleitur í andliti, nokkuð stórt nef, grá augu og þunnt alskegg, gráleit. Svipur hans var fremur greindarlegur og skarpur, enda var hann magur maður og mjög veiklulegur, sennilega vegna skorts og fátæktar, enda minnist ég ekki að hafa komið inn á svo blásnautt heimili sem þar var. Þau hjónin eignuðust 14 börn og dóu 8 þeirra á barnsaldri, hin sem lifðu urðu vel að manni, sum af eigin rammleik og óstudd að mestu fengu notið svo mikillar fræðslu að bræðurnir a.m.k. tveir urðu barnakennarar enda voru þau öll vel greind. Komi maður inn í bæinn að Hóli áður en börnin voru klædd eða komin á kreik gat að líta grjótbálk einn beggja megin í baðstofunni, mýrarheyrudda í undirsængur stað og börnin liggjandi í strigasængum ofan á ruddanum, því enginn var koddinn, engar rekkjuvoði né brekánið. Alt var þó tandur hreint og þau sprelluðu af fjöri og kæti, þrátt fyrir megurðina og matarleysið, því Margét kona Friðriks var ein meðal hinna þrifnustu kvenna og umhyggjusömustu mæðra, síkát og góðlát í hverju sem gekk með efnahaginn og afkomuna. Vitanlega var Friðrik búskussi hinn mesti, óframfærinn með að afla sér atvinnu og jafnvel að stunda sjóinn; þó var hann um mörg ár formaður og oftast með þeim er öfluðu minnst.
Einhverju sinni kom séra Páll Ingimundarson í Gaulverjabæ heim að Stokkseyri, en hann þjónaði því brauði þá og sá mörg börn vera að leikjum á Stokkseyrar hlaði; varð honum þá einkum starsýnt á 4 eða 5 börn er honum virtist vera öðrum börnum ólík að klæðaburði og hreinleika, en svo eldfjörug og kát að hann spurði eitt þeirra eða tvö, alveg undrandi: „Hver á ykkur börnin mín?“. „Ha? Hæ!“ sögðu börnin og brugðu á leik. „Við erum frá Hól!“. Við erum frá Hól! Hæ! Hæ!“ og þustu á brott eins og lóuhópur væri sem hefði orðið fyrir styggð. Sá hann þau svo eigi aftur í þeirri ferð, en lét þess getið að bágt væri ef börn þessi urðu að alast upp við mikla fátækt, því „þau hlytu að vera mannsefni góð, greind og gjörvuleg“.
Ástæðulaust held ég að sé, eða verið hafi, að væna Friðrik um neina heimsku, en það var títt meðal manna að þar eystra, eins og víða annars staðar, að menn „hirtu“ það sem aðrir höfðu tín eða látið ónotað eða skeyttu ekki um að hirða sjálfir og var það þá sökum þess að þessir hirtu menn þyrftu öðrum fremur á því að halda, sem þeir annars sáu að aðrir hirtu ekki um. Þannig var það, að nokkrar tómar olíutunnur höfðu lengi staðið undir birgi nokkur er kallað var Hólsbirgi framundan Kaðlastöðum – nú er birgið horfið – og Friðrik átti þar leið um, þá er hann rak hinar fáu kindaskjátur sínar á fjöruna, vestur með sjónum. Nú höfðu „strákarnir í hverfinu“ tekið eftir því, að jafnframt því sem Friðrik studdist ávalt við tunnustaf, þá er hann var á heimleið frá kindarekstrinum og að ekkert var þarna orðið eftir af tunnunum nema gjarðirnar. Strákarni tóku sér því stöðu þarna við birgið og biðu þess að Friðrik kæmi. Hann kom, talaði lengi við strákana uns hann virtist allt í einu taka eftir gjörðunum, er lágu þarna á víð og dreif; hann hleypur þá til að hirða gjarðirnar og segir: „Ég held að ég hirði nú gjarðirnar þær arna, því ég á þær”! Vitanlega var strákunum skemmt með þessu, en sem sagt: Ég vissi aldrei til þess að Friðrik fengi óráðvendin orð, jafnvel þótt víndrukkinn væri.