Friðrik Guðmundsson bókbindari, bróðir Guðmundar bóksala var líkur bróður sínum í sjón, en ennþá fjörmeiri og „skemmtilegri“ en hann: Hafði stundum allt á hornum sér, en var þó glaður og kátur, lét fjúka í kviðlingum og kerknislausu rabbi. Að vexti var Friðrik nokkuð þreknari en bróðir hans, holdugri og hvatlegri þó, með svart hár og hæruskotið skegg á vörum og höku (tjúguskegg), eldsnör augu, nokkru gráleitar á hár og hörund en Guðmundur.
Það var gaman að eiga tal við Friðrik og kynnast honum; kom þá brátt í ljós, að lifað hafði hann lífi sínu við misjöfn kjör, en þó ávalt getað hrist af sér og hrundið því, sem honum hafði andstætt verið. til þess að sýna hversu hann tók því er að honum amaði og fékk því hrundið af sér, vil ég geta hér atriðis nokkurs:
Einar Pálsson í Kvíarholti var skarplegur í andliti, með hátt nef þunnt og höku mjóa. Hann var oft „kenndur“ vel, er hann kom á Bakkann og kom nú í bókabúð Guðmundar, til Friðriks og skammaði hann mjög, þó það væri venja hans að láta illa að flestum, er hann var „fullur“. Friðrik gaf sig lítið að þessu, og lét hann Einar masa og mása; en er hann þótt áleitin hans orðin svo frek og aflátslaus segir hann fram vísu þessa við Einar:
Eins og hundur áleitinn, með urri og gelti
hringlar mjóum skammar skolti
skítmennið frá Kvíarholti.
Einar steinþagnaði og rauk á dyr.
Þannig lét Friðrik oft aðra þagna á augabragði og hló dátt, en hann sá hvernig þeim varð við skumpur þær og skömmum þungrar vísu er hann hafði á hraðbergi og lét dynja yfir þá.
Annars var Friðrik umgengnisgóður og lagði aldri til annarra að fyrrabragði, og góður var hann við börn og alla þá er bágt áttu.