You are currently viewing Einar Jónsson borgari

Einar Jónsson borgari

Einar Jónsson „borgari“, faðir Sigfúsar og Ingibjargar, konu séra Bjarna Þórarinssonar, bjó hin fyrri ár sín á Eyrarbakka, í húsi því eða bæ, er hann byggði norðan Hólmsbæjar en sunnan Brennu; koma hann þangað frá Eystri-Rauðárhóli, og hafði hann byrjað þar verslun sína í óþökk Eyrarbakka kaupmanna. Var oft að honum veitst þar fyrir leynisölu, m.a. á brennivíni, en hann komast ávalt undan ofsóknum þeirra og flutti sig þá nær þeim! Setti hann þá upp verslun í Eyvakoti og byggði þar íbúðarhús sitt á Háeyrarlóð eða laust austan við landamerki Háeyrar og Skúmsstaða-lóðar. Fékk Einar nú verslunarvörur sínar með eigin skipum og lagði þeim norður af Svartakletti, en torveldað var honum mjög að sigla þeim um Skúmstaðaós og réðu Eyrarbakka kaupmenn (Lefoliiverslun) ekkert við hann. Hinsvegar var Þorleifur gamli á Háeyri honum hliðstæður.

Faðir minn ver þremenningur við Einar og móðir mín og Einar voru systkynabörn. Milli þeirra var því jafnan góður vinskapur og hjálpaði faðir minn honum oft úr klóm þeirra er að honum réðust.

Kona einars var Guðrún Jónsdóttir frá Undirhamri í Hafnarfirði og lifðu þau lengi saman án hjónabands og fór jafnan vel á með þeim; hún var góð kona og ráðdeildarsöm, grönn og há vexti.

Einar „borgari“ – en svo var hann nefndur sökum þess að hann varð að kaupa sér borgarabréf til þess að mega verzla, jafnvel áður en hann fór frá Rauðárhóli, – var maður nokkuð hávaxinn og gildur, og höfðinglegur sýnum, með mikið hár, ósnoðklippt, en skegglaus, nefið hátt og vel vaxið; hann var fremur þykk holda í andliti, ennið hátt og augun bláleit og gáfuleg. Stillingamaður mesti var Einar og hafði það orðtak að segja: „Gó góðurinn minn“ og stamaði lítið eitt við. Góðsamur var hann, glaðlegur og þýður í viðmóti og ætlaði engum manni illt. Sá hann því lítt, sem aðrir fleiri við manni þeim, er hann skifti við í Danmörku, en það var Huus gróssérí er gerði hann gjaldþrota um skeið, eins og Jón Árnason í Þorlákshöfn þótt báðir næðu sér ftir það áfall. Huus þessi var eigi betri músin sem læddist en hún sem stökk og fengu flestir Íslendingar, er við hann skiptu að kenna á því, enda var hann, og það með réttu talinn vera einn hinn mesti víðsjálsgripur, óráðvandur og slægur. Hjá honum vor öll þau einkenni að finna, sem mörgum öðrum Dönum áður og fram á síðustu tíma sem báru vott af lítilsvirðingu fyrir Íslendingum og létu þá finna til einokunnar sinnar, hlífðarlaust.

Aldrei mun Einar borgari þó hafa talað eitt orð manni þessum til hnjóðs og sýndi það mannamun þeirra, enda var Einar ráðvendnin sjálf og góðmennskan óvenjulega mikil í garð allra þeirra er við hann skiftu. Honum var samnefndur veifiskati í þess orðs bestu merkingu en það er: Höfðinglega sinnaður maður, örlátur maður, sem gaf á báðar hendur og gjörði öðrum gott. Einar var oddviti hreppsnefndar Stokkseyrarhrepps í mörg ár, en vegna góðmennsku sinnar, fór hvorki hann né hreppurinn með „feitan hest“ frá þeirri þungu lest að lokum og hélt þó Einar þó enn betur a fjármunum hreppsins en sínum eigin. Einar var greindur vel, en vegna þess, að hann hafði engrar menntunar notið í æsku, var hann að sjá allt með annarra augum og trúa öðrum jafnvel betur fyrir málefnum hreppsins og verslunarinnar en sjálfum sér og reyndust þeir honum eigi þeir allir eins vel og hann þeim. Einar borgar var merkur maður mjög og eiga Eyrbekkingar honum margt og mikið gott upp á unna. Hann andaðist 6. desember 1904, 74 ára að aldri.