Einar Einarsson Dvergasteinum

Einar Einarsson Dvergasteinum

Einar Einarsson í Dvergasteinum var hálfbróðir Karels Jónssonar í Hvíld, hins mikla formanns og sjósóknara. Kona Einars var Sigfríður Jónsdóttir og meðal barna þeirra voru þeir Jón Einarsson í Dvergasteini, einn hinn aflamesti og ötulasti formaður inn á Stokkseyri og í Þorlákshöfn. Jónas Einarsson í Garðhúsum á Eyrarbakka (drukknaði þar 5. ágúst 1927, 60 ára). Sigurður Einarsson var lengi vinnumaður á Skúmstöðum á Eyrarbakka og í Einarshöfn; oftast nefndur „Siggi drengur“ og loks Vilhjálmur í Gerðum, sem lengi var meðal hinna duglegustu formanna á Stokkseyri. Um hann eru til margar vísur eftir „þjóðskáld“ þeirra Stokkseyringa, Magnús Teitsson.

Vilhjálmur þótti fremur vöðulslegur í framgöngu og ekki ávalt sem snyrtilegastur, en sjósækinn vel og fór þá fremur ógætilega. Því kvað Magnús:

Vilhjálmur á vogahrút (stýri)

vanur sjóarferðum

á Skírdagsmorgun skaust hann út (reri)

skítugur frá Gerðum.

Aðrar vísur orti Magnús um Vilhjálm og komu þar fram venjuleg orðatiltæki hans um útlitið og veðuráttina, sem miðuðu að því, að gjöra sem minnst úr því að útlitið væri athugavert. Vísan er þannig:

Vilhjálmur í vonum bíður (eða stendur)

varla er lúðan góð

en birtir til á báðar síður (eða hendur)

„bara snjógangshljóð“

Einar í Dvergasteinum var fremur luralegur, eins og Karl, fyllilega meðalmaður á hæð; hann gekk oft álútur eða jafnvel boginn, enda lútinn orðinn af langvarandi vinnu sem aðrir. Hann var með rauðleitt skegg, hátt og þunnt nef, rjóðleitur í andliti, ennið var hátt og miklar brýr, loðnar mjög. Hann átti einnig dætur, m.a. Ingunni, konu Ingimundar Guðmundssonar trésmiðs. Sonu sína ávarpaði Einar oft í gamni þannig: „Óþverrararnir ykkar“! og mátti það oft til sanns færast, að þeir voru ekki allir ávalt sem hreinlegastir. Það var vinnan, ástundunin og iðnin við vinnuna, sem þeim þótti meira í varið, en tepruskapinn og tilgerðin. Eigi varð þó sagt, að óhreinlæti eða óþrif réði þar meiru, því Sigríður var hreinleg og þrifin. Strákarnir voru bara „skítugir“. Moldugir og forugir upp fyrir höfuð, útataðir af vinnu – göslinu af vinnu – kerkjunni, enda duglegir til sjós og lands. Allir voru þeir meinhægðarmenn og mjög reglusamir, enda urðu þeir flestir, einkum Jónas, velmegandi menn og eignuðust mannvænleg börn. Þeir voru leikbræður mínir í æsku og þekkti ég þá því vel, en verri mótstöðumenn í bardaga með þöngulhausum og áföstum stórum skeljum, sem þeir létu ríða á hausum mótstöðumanna sinna, áttum við ekki en við þá lékum við því þeir gengu fram eins og bersekir og voru oft hvimleiðustu og hættulegustu liðhlaupararnir: með þér í gær en mér í dag og var þá ávalt sigurinn viss þeirri herfylkingu sem þeir voru í, en það kostaði stundum hálfslitinn penna, blýantsstubb eða sykurmola að taka þá á mála: Reglulegir leiguhermann, Condottierer , sem notuðu aðstöðu sína vel, en urðu flestum hvimleiðir og þó voru þetta „allra berstu strákar. Þeir þekktu málsháttinn: „Enginn er annars bróðir í leik“ og hegðuðu sér eftir því. Stundum söfnuðu þeir liði í dag, á móti þeim, sem var með þeim í gær, og voru þá ekki „billegir“, er farið var að semja við þá um vopnahlé! Það gat kosta hinn málsaðilann heila bók, kverið hans, biblíusögurnar eða reikningsspjaldið eða griffil handa hverjum eða þá að fá lánaðan bát út á lónið, út í sker eða jafnvel brimgarð, en hvað var ekki tilvinnandi. þá, þar sem um annaðhvort sigur var að ræða í næsta bardaga eða herfilegasta ósigur, og óþolandi stríðsbætur? Svona voru Dvergasteinsbærður! Ávalt tilbúnir í stríð, eilífur bardagi og friðarsamningar, sem ekki stóðu stundinni lengur.

Nú sem þessir leikbræður og æskuvinir – því vinir vorum við þrátt yfir allt – allir dánir nema Vilhjálmur og vil ég nú senda hann til Hitlers, svo að hann eigi kost á því að fá járnkrossinn þýska, áður en hann (Vilhjálmur) deyr. Hann fengi hann áreiðanlega.

Close Menu