Þótt mér sé málið skylt, verð ég að minnast þriggja bræðra minna, þeirra Bjarna í Götu, Pálmars á Stokkseyri og Júníusar á Syðra Seli, er allir og hver um sig voru atkvæða sjómenn og sæmdarmen í öllu.
Hann hafði óvenjulega gott vit á veðri, sjó og brimi, ennfremur var hann sjódeigur: Fór aldrei út í tvísýnt veðurútlit eða vondan sjó. Leit ég á þetta og lít enn sem svo, að þar hafi alls ekki verið um sjóhræðslu að ræða heldur alveg nauðsynlega varúð og aðgætni. Mér varð því óskiljanlegt að hann skyldi farast í sjó, sem þó varð raunin á, en þessu hafði hann þó sjálfur búist við löngu áður og sagt vini sínum (Runólfi Einarssyni frá því að það yrði æfilok sín, fyrr eða síðar. Bjarni var fljótur á sjó og af honum, fremur var hann óheppinn með aflabrögð. Síkátur var hann og upplífgandi, hvar sem hann var staddur hvort heldur var á sjó eða landi og aldrei barmaði hann sér undan fátækt sinni og heilsuleysi og var honum þó hvortveggja þungbært með allan barnahóp sinn: Þór vinnumann (nú) að Vífilstöðum, Friðrik kennara í Hafnafirði, Páls skólastjóra í Vestmannaeyjum (d. 5. des. 1938, 54 ára) og Pál Þorgeir í Winnipeg, ásamt þeim börnum öðrum er dóu á unga aldri. Bjarni var kvæntur Margréti Gísladóttur frá Hafliðakoti, Guttormssonar og er hún enn á lífi, rúmlega áttræð. Hjónaband þeirra var farsælt þótt fátækt væri. Ég gerðist vinnumaður þeirra hjóna 1885 og var svo hjá Margréti til 1889 að ég fór til Pálmars bróður míns en vann oftast eftir það á Eyrarbakka.
Það yrði of langt mál að segja meira um þennan mæta bróður, því gæti ég ekki lokið, jafnvel á löngum tíma, svo mikið – og allt gott – mætti um hann segja.