Bjarni Jónsson Símonarhúsum

Bjarni Jónsson Símonarhúsum

Hann var dökkeygður, með vangaskegg og varir nokkuð þykkar, fremur frammyntur og hökustuttur. Svipur hans var góðlegur og greindarlegur; úr augum hans skein glaðværð og góðmennska, og græskulaus glettni og greind. Þau hjón eignuðust 4 börn: Eyjólf í Skipagerði, Þóru konu Pálmars, Kristínu konu Sigurðar í Ranakoti og Þuríði konu Ísólfs. Líktust þau öll föður sínum í útliti, einkum Eyjólfur, en dæturnar móður sinni að fríðleik og í framkomu allri, en einkum að staðfestur og rólyndi. Bjarni var  mesti forkur til vinnu og fylginn sér, enda heilsugóður. Sjómaður var hann ágætur og aðgætinn, enda hafði hann vel vit á sjó. Eigi voru þau hjón efnuð, en komust ávalt mæta vel af, enda hirðusöm og nýtin, sívinnandi og sjálfstæð í öllu. Fáa menn hefi ég séð viðbragðsfljótari  né fimlegri í hreyfingu en Bjarna, þegar eitthvað það var um að ræða er skjótra bragða þurfi við, og var hann þó fremur drumbslegur á velli, hnellinn og harðskeyttur í handtökum. Það var eins og eldur brynni í augum hans, þá er um eitthvað það var að ræða er skjótlega þyrfti að bregða, ef takast skyldi svo ákveðinn var hann ótvíráður um allt. Hann vissi hvað hann vildi og varð það brátt undan að ganga. Bæði voru þau Bjarni og Þórdís vel metin, en hvorugt þeirra hlutdeildin um annars aðgjörðir né æðrusöm um neitt. Þau voru góðgerðarsöm og greiðvikin, vel metin og manndómsmenn hinir mestu og bjuggu vel að sínu, með mestu ráðdeild og trúmennsku, orðvör voru þau bæði og deildu ekki á aðra. Bjarni andaðist 10. jan. 1914, 79 ára en Þórdís kona hans 8. maí 1907, 72 ára.

Close Menu