Þá verð ég að minnast hins mæta vinar míns, Bjarna gamla Björnssonar (f. 1808, d. 16. nóv. 1885, 75 ára að aldri). Hann var bókbindari og hafði átt Þórdísi Sturlaugsdóttur, systur Jóns afa míns (d. 1. maí 1863) og ólu þau upp Bjarna sál. bróður okkar frá 6 ára aldri (d. 24. febr. 1887). Þórdís andaðist 28. okt. 1878, 84 ára).
Glaðsinna og fróðara gamalmenni en Bjarni var, get ég ekki hugsað mér. Hann var hár maður vexti, holdugur nokkur og rjóðleitur í andliti fram á efstu ár; andlit hans, augnaráð og hreyfingar allar báru vott um að þar var göfugmenni sem hann var. Á síðustu æviárum sínum varð hann sjóndapur og rangeygður nokkuð, en ávalt var hann fríður sýnum og bauð af sér góðan þokka. Hann var spaugsamur, án þess þó að færa að öðrum í tala eða látbragði og mjög var hann orðvar og gætinn í öllu sínu dagfari.
Missir Bjarna fóstursonar síns, fann mjög á hann, sem alla aðra, en hann höfðu þekkt, enda reyndist hann Bjarna ávalt og þau hjón bæði, sem væru þau foreldrar hans. Hjúum sínum voru þau ávalt sem beztu vinir og þau voru bæði elskuð og virt að maklegheitum af öllum þeim, er eitthvað þekktu til þeirra.
Ég mun lengi minnast þessa mæta manns og þess, með hversu miklu sálarþreki hann tók hina dapurlegu dánarfregn um fráfall fóstursonar síns: Hann sagði ekki eitt orð, en gekk afsíðis – og grét. Hálfur öðru ári síðar féll hann sjálfur frá, eftir velunnið dagsverk og dygðugt líferni.
Bjarni gamli í Götu (svo var hann oftast nefndur) var bróðir Símonar í Skipum Björnssonar, en kona Símonar var Guðrún Magnúsdóttir. Bjuggu þau lengi að Skipum áður en Hannes Hannesson fór þangað frá Eystri-Rauðarhól, og voru þau jafnan talin meðal bestu bændafólks hreppsins og efnuð vel. Einkadóttir þeirra var Þórdís, er fluttist til Hafnarfjarðar og giftist þar Kristjáni Auðunarsyni (d. 15. des. 1915) og voru þau foreldrar Magnúsar verkamanns þar og hins mesta bindindisfrömuðar. Þau Kristján og Þórdís eignuðust 11 börn. Þórdís andaðist 1938, 83 ára að aldri.