Bárður Diðriksson var meðalmaður að vexti, vel vaxinn, fjörlegur og fimur, smáfeldur í andliti með mjög dökkleit augu, eldsnör, rjóður var hann í kinnum með kolsvart hár, stutta höku, beint nef og barta í vöngum. Þótt Bárður væri vínhneigður, var hann meinleysismaður en jafnvel án víns var hann all-kerskinn í kveðskap sínum og klæminn, enda þóttist hann vera hagyrðingur í betra lagi, en það gat naumast kallast svo, heldur hroðvirknislegt hnoð.
Bárður var vinnumaður á ýmsum stöðum, einkum á Tóftum og á Háeyri, hjá Þorleifi gamla Kolbeinssyni sem kvað um hann vísu þessa:
Bárður minn er bústólpi,
bjargvættur í sveitinni
Hjálpar oft um harðæti,
honum gamla Þorleifi.
Óvíst er þó, að vísan sé eftir Þorleif, heldur Sigfús Guðmundsson „snikkara“ föður séra Eggerts í Vogsósum. Það þykir mér líklegra, því Sigfús kvaðst oft á við Bárð, engu síður en Þorleif og Álf gamla Jónsson en þessi fjórir, Sigfús, Bárður, Þorleifur og Álfur voru „höfuðskáld“ þeirra Bakkamanna á þeim tímum, þótti eigi væru þeir neinir skáldjöfrar.
Síðustu æviár sín bjó Bárður í Útgörðum; þar kvongaðist hann konu þeirri, er Halldóra hét, er um tíma var ráðskona hjá Adólfi á Stokkseyri, tengdaföður mínum, en ekki eignuðust þau börn, svo ég muni að greina frá því, nema verið hafi eitt, er andaðist í æsku. Áður hefir Bárður eignast dóttur er Jónína hét.
Systkini Bárðar voru þau Egill í „Ráðleysu“ hér í Reykjavík. Sá bær var við Laugaveg 40-42 og heitinn eftir bæ þeirra Diðriks systra, en alls ekki heitinni svo, að hann var í fyrstu byggður nokkuð fjarri aðalbyggingu bæjarins eins og séra Bjarni Jónsson Dómkirkjurprestur mun hafa getið sér til (í Lesbók Morgunblaðsins?). Egill var faðir Jóns þess er myrtur var og sveins bílstjóra og bíleiganda hér í bænum.
Systir þeirra var Anna, er giftist Helga Pálssyni frá Simbakoti og bjuggu þau lengi í Hvíldarkoti við Stokkseyri. Lifir Helgi einn (1939) en Anna andaðist um nírætt síðastliðið ár. Voru þau foreldrar Ólafar Helgasonar kaupmanns á Eyrarbakka.
Bárður var um nokkurra ára skeið formaður á Stokkseyri, en fremur var hann óheppinn með afla og tvívegis barst honum þar á. Til Bárðar völdust oftast hásetar þeir er engir aðrir þóttust geta flutt og því var sjósókn Bárðar öll hin lingerðasta sem von var og hann lítt hugaður enda stundum vant við látinn sökum annríkis síns hjá Bakkusi. Eftirfylgjandi vísa getur um nokkra þá kappa í liði Bárðar er mest kvað að:
Á barkanum hvílir Bjarni læða,
á bitanum situr Rosi Karl
Þorvarð nátthúfu höldar hæða,
hann er ei gefinn fyrir svall
Við stýrið hangir helst að von,
höfðinginn Bárður Diðriksson.
Bjarni læða var umrenningur. Hann drukknaði með Einari í Vörum í Leiru.
„Rosi Karl“ (eða Kall) var Vigfús, er nefndur var Vigfús Rosi, enda var hann rosafenginn nokkuð, einkum við vín. Sennilega mun hann hafa verið Sunnlendingur (úr Landeyjum, enda þóttist hann vera náskyldur Sigurði á Skúmsstöðum, jafnvel vera sonur hans, en hann var víðförull mjög og óvíst hvað heimili hans hafi verið. Þorvarður nátthúfa er mér óþekktur að öðru leyti en því að ég sá hann oft, þá er hann reri hjá Bárði, og svo síðar (1883) er við náttuðum saman í fjárhúsinu að Hvammi í Kjós, ásamt Bjarna læðu í óskaplegu illviðri. Vorum við þar 30 saman í beitifjöru og lágu þeir Bjarni og Þorvarður ystir í húsi þessu um nóttina. Fór illa um okkur alla og eigi síst um þá Bjarna og Þorvarð.
Annars var sá ljóður á ráði manna mjög almennt á þessum tímum og þó enn meiri áður, að þeir uppnefndu marga menn. Þótt það ætti að vísu eigi allsendis illa við, að Þorvarður væri nefndur nátthúfa og Bjarni væri nefndur læða – því nátthúfulegri og læðulegri menn gat þó naumast – þó var þetta hótfyndni eins og kerskni, að nefna þá svo, því báðir voru þeir meinleysismenn, lítils um komnir og hæfðu þeim er nöfnin höfðu til fundið; sennilega hvorki verið betri né meiri en þeir. Heldur regluleg skítmenni.
Aðrir hásetar Bárðar voru Helgi gamli á Leirubakka á Landi og Árni Guðmundsson (?) er nefndur var Árni Stór-son; báðir Rangvellingar svo og aðrir þeirra líkir. Var því eigi að undra, þótt Bárður gæti ekki „borið sig“ vel til sjósóknarinnar með þvílíka skipshöfn, enda hefi ég aldrei aðra eins skipshöfn séð.
Bárður var jafnan ein hin mesta söguhetja á sumardaginn fyrsta þar í veiðistöðinni, ásamt þeim Sigga Bersa Gíslasyni frá Yrsuholti, Bjarna Lárussyni (Nikulássonar) og Pésa á 50 fótunum (Pétri Jónssyni). Allt voru þetta þó trúverðugir, ráðvandir og góðir menn, en allir voru þeir ármenn Bakkusar konungs, höfðu þjónað honum alla æskudaga sína og fram á elliár með þeirri hollustu sem honum kom best. Að drekka, hvenær sem færi gafst, enda gátu þeir aldrei við hann skilið og svo fór að síðustu fyrir Bárði, hann lét líf sitt á orrustuvelli víndrykkjunnar sem einn hinn frægasti foringi eða hershöfðingi í fyrirliði Bakkusar konungs. Bar það til með þeim hætti, að Bárður hafði verið á margra daga túr, en varð nú ekki vakinn úr vímunni þá er formaður hans, Pálmar bróðir minn kallaði hann til róðurs um miðjan dag og varð því að fara án hans að því sinni. En á meðan Pálmar var í róðrinum vaknaði Bárður við illan draum og þá er hann varð þess var að Pálmar væri róinn, tók Bárður fjörubát einn þar á sandinum upp af lendingunni, setti bátinn ein á flot og reri honum beint af auga út í brimgarðinn þar sem hann var verstur, *arður (bls. 74) og *ýrður mjög af margra daga „fylliríi“ og þar drukknaði hann 19. maí 1896 aðeins 51 árs að aldri.
Bárðar Diðrikssonar minnist ég ávalt með söknuðu, sem góðs vinar. Hann var svo góður og glaðlyndur maður, veinveittur og velviljaður eins og þeir voru allir þessir fjórir félagar mínir er ég hefi áður nefnt, fyrsta-sumardags hetjunnar gömlu, er ég mun aldrei gleyma, heldur ávalt minnast með þakklæti og virðingu, þrátt fyrir drykkjuskaparhneigðar þeirra, því allir voru þeir hrekklausir að eðlisfari, vel vinveittar sálir og skemmtilegir náungar.
Ævikjör þessara manna og einkum síðustu afdrif Bárðar bera þess vott að þjóðfélag vort hefir verið og er enn ótrúlega sinnulaust um það, að fjöldi margra og efnilegra manna fer árlega forgörðum fyrir þá sök, að þeim er engin lækning veitt, engar leiðbeiningar gefnar áður en svo er komið, að þeir hljóta fyrr eða síðar að falla sem offur síns eigins vanmáttar á altari erkifjandar alþjóðar, vínguðsins Bakkusar. Þessi ótölulegi fjöldi ungra manna selur honum því líf sitt dýru verði og bakar þjóðinni með því óbætanlegt tjón.
Þjóðfélagið hefir lækningastofur og sjúkrahús handa flestum örðum mönnum er vanheilir verða á sál eða líkama, lækna og hjúkrunarkonur til þess að stunda þá og bæta mein þeirra, en þessa manna, sem á unga aldri ana út í drykkjuskapar-ófæruna, skarðalausan brimgarð tortímingarinnar, um þá skeytir þjóðfélagið als engu. En hverjir skyldu frekar þurfa lækningar við? Sennilega mætti lækna flesta þeirra, ef til þess ráðs væri í tíma tekið.
Sannfæring mín, og jafnvel reynsla í þessu efni er sú að fjöld þessara manna mundu sjálfir vilja gefa sig fram og leggja sig undir þvílíka læknisaðgerðir.
Menn hafa stungið upp á því, að koma þyrfti upp drykkjumannahæli – að mínu áliti er það eina ráðið, ef bindindið eigi nægir fyrir þá. En þvílíkt hæli má eigi reisa eða starfrækja þar, sem þó hefir verið stungið upp á, t.d. úti í Engey, þar sem sjúkingarnir hafa freistingarstaðinn fyrir augunum og það má á enga lund ske, að sjúkingarnir finni það eða skilja í neinu, að þeir sér einverjir afbrotamenn, sem þjóðfélagið sé að hegna með þessu. Nei, þeir verða umfram alt að finna það og skilja, að þeir séu á lækningastofunni, viðeigandi sjúkrahúsi fyrir þá, en ekki í neinu fangelsi!
Svo mögnuð og megin-ill er ástríða margra drykkjumanna, að hún er þeim alveg óþolandi, þeir kveljast á sál og líkama, þá sárlangar að losna við allar þær óþolandi kvalir sem henni fylgja, þeir óska þess og biðja, að eitthvert bjargráð finnist fyrir þá, ástvini þeirra og aðstandendur, en þeir eru látnir afskiftalausir með öllu og ofaná annað lítilsvirtir og smáðir. Þetta finna þeir sjálfir best. Væri það nú skynsöm ráðstöfun, að einangra þá í þá lund, að þeir finndu það og sæju, að lækningatilraunir væru fyrst og fremst miðuð við það, að láta þá dvelja þar, sem freistingin væri ávalt fyrir augum þeirra og í ofanálag væru þeir látnir skilja það, að svo miklir vandræðamenn og ræflar væru þeir nú orðnir, að fangelsisvistin hæfði þeim bezt! Hvílík fásinna! Hitt væri sýnu nær, að láta þá njóta fullkomins frelsis og óskoraðs trausts, þótt þeir hinsvegar yrðu vitanlega að vera undir nákvæmu eftirliti eins og hverjir aðrir sjúklingar.
Ég sagði áður, a´ég hefði reynslu fyrir því að þannig löguð læknishjálp gæti verið og væri örugg til þess að bjarga mörgum manninum frá algerðir eyðileggingu. Án þess að nefna nein nöfn, gæti ég bent á dæmi þess til sönnunar – sönn dæmi!
Hvað hefir nú þjóðfélagið sem heild gert til þess, til þess að útrýma víndrykkjunni úr landinu? Harla lítið og ekki neitt! Það er kunnara en frá þurfi að segja, að nú þegar fjöldi nauðsynlegustu neysluvara er skamtað svo, að naumast nægir , þá er vínið flutt inn án nokkurra takmörkunar og að daglega er sú verslun rekin í stórum stíl, fyrir mörg þúsund krónur á degi hverjum. Hvað hjálpar drykkjumanninum veitt meðferð? Andbauningarnir gömlu sögðu: Sjálfur leið þú sjálfan þig! Þetta var þeirra hjálp! Það voru þeir, sem leyfðu vínsölumönnunum að birgja sig upp með vín til þriggja ára. Þetta varð til þess, að sumir þeirra gáfu – auk ýmislegs annars – eignast nokkra ómerkilega doðranta, bókapésa og blaðasnepla til þess gefa þá einni af æðstu menntastofnunum landsins og verða svo Dannebrogsmaður, doktor eða prófessor fyrir alla rausnina, og raunina sem þvílíkir máttarstólpar mannfélagsins veittu um leið mörgum drykkjumanninum, ættingjum hans og vinum. Það voru andbanningarnir gömlu, sem leyfðu að ræðismenn erlendra ríkja mætti hafa ótakmarkaðan innflutning á vínum fyrir sig.
Þessir sömu herrar lögleiddu loks brennivínið – það var þó ekki öllum læknum til sóma – og Spánarvínin, svo, að þá og þá fyrst kom bruggið,2 smyglið og algleymis