Ásgrímur Eyjólfsson verslunarmaður á Litluháeyri, var ættaður frá Torfastöðum í Grafningi og var Páll Jónsson klausturhaldari langafi hans. Ásgrímur var bróðir þeirra Páls á geysi og Einars „stafs“. Kona hans var ættuð frá Tannastöðum og Hrauni í Ölvesi; hét hún Anna Andrésdóttir, ein hin mesta gæðakona er ég hefi heyrt getið. Börn þeirra voru Andrés verslunarmaður við Lefoliiverslun, dáinn 9. ágúst 1883, kvæntur Málfríði Þorleifsdóttur Kolbeinssonar á Stóruháeyri (sjá síðar). Ingveldur, Kona Adólfs á Stokkseyri (dáin 16. júlí 1876), Valgerður, kona Jóns Þorkelssonar í Vestari-Móhúsum (d. 5. júlí 1917, 69 ára) og Guðríður, kona Péturs Guðmundssonar í garðbæ á eyrarbakka en hann var frá Þjórsárholti.
Ásgrímur var fremur smár vexti, en lipurlega limaður, ljósleitur í andliti með lítið alsskegg. Hann var góður maður, hygginn og ráðhollur. Orð var á því gert, að hann væri blótsamur. Ég var með honum í Móhúsum síðustu æfiár hans og aldrei heyrði ég eitt einasta blót eða styggðaryrði af hans munni. Var hann á blindur orðinn, en ávalt var fjörið hið sama og fræðandi upplýsingar og góð ráð við ýmsu að finna hjá honum. Hann þótti afskiftasamur um ýmislegt það er honum þótti öðrum fara illa úr hendi; leti og ómennsku átti hann bágt með að þola, enda var hann síúðandi sjálfur við smíðar (tré) hvenær sem nokkur tóm gafst til. Hann var lengi við fisktöku og saltmælingu fyrir Lefoliiverslun í Þorlákshöfn og þar sem annarsstaðar sýndi hann ráðvendi sína og trúmennsku. Sennilegt er að honum hafi hrotið stóryrði af minni þá, en mörg hundruð manna þyrptust að honum og heimtuðu afgreiðslu og sérstaklega ef þeir sýndu einhver brögð í tafli, t.d. við það að sparka fæti í saltmálið, hrista það eða skekja, en hitt er jafnvíst að hann var góðgjarn maður og göfugur í hugsunum, orðum og verkum. Hann andaðist 16. mars 1894 75 ára að aldri, en kona hans, Anna Andrésdóttir 3. ágúst 1889, 79 ára að aldri. Þau voru afi og amma konu minnar, en hún hét í höfuðið á þeim báðum ömmum sínum, Önnu þessari og Sigríði á Stokkseyri og þykir hún hafa líkst þeim nöfnum sínum í fleiru en því að bera nöfn þeirra.