Adólf Adólfsson Móhúsum

Adólf Adólfsson Móhúsum

Adolf Kr. Adólfsson, bóndi á Stokkseyri og formaður (áður í Móhúsum), tengdafaðir minn, var talinn framúrskarandi góður formaður og það með réttu. Frábærlega fljótur á sjóinn og aðgætinn vel, heppinn og lagsæll, enda hafði hann eins og hinir aðrir, er beztir voru taldir formenn austur þar, gott vit á sjó og hafði stundað sjóróðra frá því hann var á 13. ári.

Adólf var tvíkvæntur: Ingveldur Ásgrímsdóttir Eyjólfssonar frá Litlu Háeyri var fyrri kona hans (d. 16. júní 1876, 30 ára að aldri. Börn þeirra: Jón Adólfsson kaupm. á Stokkseyri, Anna Sigríður kona mín, Jón Guðmundur fór til Ameríku, Jóhann Diðrik o.fl. (sjá Bergsætt).

Síðari kona Adólfs var Sigrún Gísladóttir Thorarensen, prests frá Ásgautsstöðum (d. 25. des. 1874). Börn þeirra: (sjá Bergsætt). Sigrún  andaðist 19. júlí 1992, 29 ára að aldri. Báðar voru konur þessar valkvendi og fríðar ásýndum, einkum Ingveldur.

Adólf var maður „þéttur á velli og þéttur í lund“. Meðalmaður á hæð, gildur og þéttvaxinn. Hann var með ljósrautt hár og skegg í vöngum og undir höku, mikið og breitt enni, beint og velvaxið nef, gráleit augnabrýr og bláleit augu; kvikur var hann á fæti og furður léttur í spori. Margmáll var hann ekki, en gat oft veri kýminn í tilsvörum og jafnvel dálítið kerskinn, einkum þegar hann vildi slá á hroka, mont og stærilæti annarra eða einhvera sérstak fávisku þeirra og athugunarleysi.

Hér er smásaga ein, sem sýnir hversu þvílíkar athugasemdir hans voru, á þess að særa, en láta þó þann er hann talaði við, skilja fávizku sína og fljótræði:

Jón í Eystri Móhúsum var einn meðal hinna duglegustu sjómanna austur þar, framúrskarandi mikill aflamaður en fljótfær og fór mikið eftir því sem aðrir höfðust að; einkum þótti hann semja sig mjög að siðum Einars Jónssonar í Aldarminni, enda stóðu sjóbúðir þeirra hvor við annars hlið, þá í Móhúsum. Þetta vissu „strákarnir“ í Stokkseyrarhverfi, að ef Einar reri, þá þætti Jóni einnig fært að róa. Nú bar svo við, að foráttubrim var, svo að enginn leit til sjávar , en Jón hafði lengi verið uppi á heygarði að taka í lampana og ekki litið til sjávar. Finna þá „strákarnir“ upp á því að hlaupa um húsagarðinn hjá Jóni og kalla hver til annars, svo að Jón heyrði, að Einar væri genginn og hlupu þeir síðan á brott. Frá Móhúsum sést ekki til sjávar. – Jón heyrir hvað „strákarnir“ sögðu, hleypur inn í búð sína og segir „Skinnklæðið ykkur fljótt piltar“!“. Þeir segja: Hvaða vitleysa er þetta maður! Það lítur enginn til sjávar í þessari foráttu!“  Segir þá Jón: „Hvað um það! Einar er farinn!“  Vitanlega hlýddu hásetar kalli formanns síns, skinnklæddu sig og lögðu síðan af stað í einni halarófu niður að Stokkseyri, en þar stóðu öll skipin í naustum, og gekk Jón sjálfur fyrir þeim, fór hratt og leit hvorki til hægri né vinstri, því hann vissi að „Einar var farinn“!

Nú hittist svo á, að þegar hersingin öll gengur um Stokkseyrarhlað, mætir hún Adólfi, sem vitanlega sér hvað Jóni er í hug og að hér er um athugunarleysi hans og fljótræði að ræða: Að hann ætlar sér að róa, en hefir ekki litið til sjávar allan daginn. Adólf gengur borsandi á móti Jóni og segir ofur vingjarnlega eins og hans var vandi og sprellaði spaugið í augum hans og á andliti: „Hvaða ferðalag er á þér núna, Jónsi minn?” Jón hélt að vísu áfram, en er fram í sjógarðshliðið kom og hann sá að sjór allur var skarpófær, sneri hann aftur og gekk fram hjá Adólfi, en stóð við húsdyr sínar á hlaðinu og sagði, hvorugur þeirra eitt orð, en mér er sem ég sjái „svipinn“ á Adólfi þá.

Áður fyrri, og einkum meðan Adólf „var á milli kvenna“ hneigðist hann til víndrykkju og breytti þá mjög skapi til hins verra. Hann harmaði Ingveldi konu sína mjög, en er hann var kvæntur Sigrúnu breyttist þetta mjög og minnist ég ekki að ég sæi á honum vín eftir það, en nú fór þó mótlætið mjög að steðja að honum: missir kvenna sinna, mágkonu, tengdamóður og erfiður efnahagur tók við; allt fylgdist að á skömmum tíma og nú tók hann saman við konu eina, er varð mjög heilsubiluð, en þá sýndi hann alveg aðdáanlegt og dæmafátt sálarþrek og manngæsku í meðferð sinni allri og aðbúð að þessi konu, sem honum var þó að engu leyti vandabundin. Veikindi hennar – móðursýki á hæsta stigi – voru svo tilfinnanleg fyrir alla sem um þau vissu, að því er ekki með neinu móti hægt að lýsa, og má nærri geta, hversu mjög þetta allt gekk nærri Adólfi, svo viðkvæmur maður sem hann var og góðsamur við alla þá er bágt áttu, enda varð hann nú öreigi og andaðist 31. des. 1913 73 ára að aldri, áreiðanlega saddur lífdaganna. Vinsælli og raunbetri mann en Adólf var, er vandfundinn.

Close Menu