Engin tök eru á því að rekja nákvæmlega breytingar þær, sem orðið hafa á afstöðu láðs og lagar á þessum slóðum, síðan land byggðist. Til þess skortir allar beinar heimildir öldum saman, en draga má þó nokkrar líkur af örnefnum o. fl. Á seinni öldum verða heimildir fjölskrúðugri, og má þá margt af þeim ráða. Tvennt kemur hér einkum til álita, annars vegar landsig, sem hér verður fátt eitt um sagt, og hins vegar landbrot, sem ýmislegt er kunnugra um fyrr og síðar.
Það var Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi, sem gaf kenningunni um landsig á svæðinu milli Þjórsár og Ölfusár og raunar á öllu Suðurlandi fyrstur manna byr í seglin. Mál sitt rökstuddi hann á þessa leið: ,,Það getur ekki verið neitt vafamál, að á þessu svæði, – eins og t. d. á Suðurnesjum og víðar, – hefir landið sigið niður og lækkað frá því sem fyr var. En þessu hefir miðað svo hægt, að menn hafa ekki orðið þess varir eða merkt áhrif lækkunarinnar, fyr en stórflóð kom og braut meira eða minna framan af jarðveginum við sjávarmálið. Þá kom það í ljós, að bergið, sem undir lá – og það er á þessu svæði alstaðar hraun, – var lægra en svo, að þar hefði nokkurntíma getað myndast jarðvegur, vegna sjávarins, ef það hefði ekki verið hærra áður.“[note] Árbók fornl. 1905. 1 (Leturbreytingar höfundar). [/note] Ýmsir hafa tekið undir þetta, m. a. Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur, sem styður það enn fremur með því, að hann hafi fundið mó, þ. e. mýramyndun, ofan á hrauninu í fjörunni vestan við Stokkseyri, sem sé þar í kafi um hálffallinn sjó.[note] Jarðmyndandir í Holtum og nágrenni, 19. [/note]
Gegn landsigskenningunni hefir Trausti Einarsson prófessor hins vegar ritað rækilega og fróðlega grein. Þar kemst hann m. a. svo að orði um röksemdir Brynjúlfs frá Minna-Núpi: ,,Með lauslegri athugun getum við séð margar veilur á landsigskenningunni. Þannig virðist Brynjúlfur Jónsson ekki gera greinarmun á landbroti og landsigi. Þegar hann ræðir um ströndina milli Þjórsár og Ölfusár, bendir hann á það, að jarðvegur hafi náð mun lengra fram á landnámstíð en nú og byggð verið þar, sem nú eru fjöruklappir. Þetta telur hann sönnun þess, að landið hafi sigið frá landnámstíð. En nú hagar svo til á þessum slóðum, eins og Brynjúlfur lýsir einmitt sjálfur, að hraungrunnurinn, sem jarðvegurinn liggur á, nær aðeins óverulega upp fyrir sjávarmál. Brimið nær því til að sleikja jarðveginn ofan af hrauninu frammi við ströndina. En auk þess bendir Brynjúlfur á það, að brimið vinni einnig auðveldlega á hrauninu. Það er því ekkert vafamál, að þessi strönd hlýtur að eyðast ört, hvort sem landið er að síga eða ekki. Um hitt verður svo nákvæmari rannsókn að skera úr, hvort brimið eitt og stórflóð séu nægileg skýring á þeim breytingum, sem þarna hafa orðið frá því fyrr á öldum, eða hvort nauðsynlegt sé að gera auk þess ráð fyrir landsigi. En svipaða sögu er að segja um Önnur rök Brynjúlfs í þessu máli, öll eru þau meira en vafasöm og í rauninni er hugmyndin um landsig upphaflega gripin úr lausu lofti.“ [note]Skírnir 1946, 165-166. (Afstaða láðs og lagar á síðustu árþúsundum. [/note]
Um fjörumóinn er þess að geta, að hann er því að eins öruggt merki um landsig, ef víst er, að hann sé myndaður ofan sjávarmáls. En hér kynni að vera þannig ástatt sem sums staðar verður, að slíkur mór hafi myndazt í mýrlendi eða strandlóni að baki sjávarbakka eða malarkambs, sem sjórinn hefir smám saman brotið eða etið sig í gegnum, unz mórinn hefir komið fram í flæðarmálinu.[note] Sbr. sama rit, 195-196. [/note]
Hér greinir hina sérfróðu menn á, og eg játa það fúslega, að það er engan veginn á mínu færi að skera úr þeim ágreiningi. Það virðist þó mega fullyrða, að sé um landsig að ræða á annað borð, þá er það svo hægfara, að þess gætir í rauninni alls ekki. Árþúsundir virðist þurfa til, að þess verði vart. Mun eg og eigi heldur gera það frekar að umtalsefni.
Um landbrotið gegnir aftur á móti öðru máli, því að um það eru heimildir nærtækari. Það er engum vafa undirorpið, að sjórinn hefir síðan á landnámsöld brotið upp nokkra landræmu með ströndinni, sums staðar meiri, sums staðar minni. Þannig hafa t.d. brotnað af bæjarstæðin á Framnesi, Stjörnusteinum og Skipum, en síðastnefndur bær var fluttur þangað, sem hann er nú eftir miðja 17. öld. Mestöllum þeim jarðvegi, sem sjórinn sópaði þannig burtu, hefir hann varpað upp á bakkann, þar sem upp hlóðst sandur, grjót og möl, svo að hann varð hærri en landið fyrir innan. Fylgdist þannig að nokkru leyti að niðurrif og uppbygging.
Eigi eru menn á einu máli um það, hversu miklu landbrotið nemur, en yfirleitt virðist alþýða manna hafa haft tilhneigingu til þess að gera sem mest úr því. Þannig hafa gengið munnmælasagnir um gömul bæjarstæði frammi undir núveranda brimgarði og víðs vegar í fjörunni. Sagt ert. d., að landnámsbærinn Stjörnusteinar hafi staðið framarlega á Langarifi og landnámsbærinn Framnes úti undir Framnesboða, en þar er nú ekkert sker upp úr um stórstraumsfjöru á nokkru svæði. Stokkseyrarbær á að hafa staðið frammi í Baðstofuklettum; þar fyrir framan eru Gerðahleinar og á bærinn Gerðar að hafa staðið þar, en á Háleygjaborg, sem er sker framarlega í fjörunni undan Íragerðí, á að hafa verið fjárborg frá Stokkseyri. Bærinn Móhús á að hafa staðið á Móhúsahellum, sem eru fjöruklappir fram undan Beinateig, og Hóll á Hólshellum, sem eru langt frammi í fjöru fyrir framan Sandfell. Bær á að hafa verið á Imbutanga í Gamla-Hraunsfjöru, og loks á kaupstaðurinn í Einarshöfn að hafa verið þar, sem nú eru fjöruklappirnar sunnan megin við höfnina. Sagnir þessar bera það með sér, að þær eru mjög þjóðsögukenndar, og stundum er auðsætt, að þær eru myndaðar til þess að skýra örnefni í fjörunni. Brynjúlfur frá Minna-Núpi hefir í áður tilvitnaðri ritgerð sinni tekið allar slíkar sagnir, sem hann hafði heyrt, trúanlegar og gerir mjög mikið úr landbrotinu á þessum slóðum.[note] Sbr. Árb. fornl. 1905, 5-18. [/note] Flytur hann það mál af mikilli sannfæringu og styður það munnmælasögnum og eigin tilgátum og því, sem verra er, ýmsum staðlausum fullyrðingum. Það yrði of langt mál að taka ritgerð hans til rækilegrar athugunar, en þar sem landbrotið er viðfangsefni, sem skiptir talsverðu máli, verð eg að finna orðum mínum stað. Eg nefni aðeins þrjú atriði.
1) Brynjúlfur segir, að „gamla bæjarstæðið“ á Háeyri sé fyrir löngu af brotið og staður þess gleymdur. Með því gefur hann sér það sem víst og sannað mál, að bærinn á Háeyri hafi verið fluttur og sjórinn brotið hann af. En fyrir því eru engin rök, ekki einu sinni líkur.
2) Í Landnámu er sagt, að skip Hásteins Atlasonar hafi borið að landi á Stálfjöru fyrir Stokkseyri. Þetta örnefni er enn til. Fjaran er kennd við klett, sem Stál heitir og er uppi undir landi fyrir framan Vestra-Íragerði. Hér eru staðhættir furðu lítið breyttir síðan á landnámstíð eða að minnsta kosti síðan á 12. öld, er Landnáma var fyrst færð í letur. Brynjúlfur sá vitanlega, að hugmyndir hans um hið mikla landbrot rákust hér óþægilega á staðreyndir. En hann lét það ekki á sig fá. Skýring hans var sú, að örnefnið Stálfjara, sem Landnáma nefnir, væri ekki til nú og gengur að því vísu, að kletturinn, Stálið, hafi ekki verið kominn framundan jarðvegi í fornöld. ,,En þá er hann korn fram, hefir nafnið Stálfjara líklega eigi verið týnt og kletturinn því nefndur eftir henni.“ Ekki er ómaksins vert að eyða orðum að skýringartilraun eins og þessari. Eða hver vill trúa því, að Stál sé dregið af Stálfjöru eða þekkir hliðstæð dæmi örnefnamyndunar? Hér þarf engrar skýringar við. Örnefnin og staðhættirnir sýna, að þegar á landnámstíð hefir fjaran náð inn fyrir Stálið og landbrot á þessum stað því verið sára lítið.
3) Eitt af því, sem Brynjúlfur leiðir til vitnis um mjög ört landbrot, er sundtré hjá Gamla-Hrauni, og nemur landbrotið þar samkvæmt því hvorki meira né minna en yfir 60 föðmum á hálfri öld. Honum segist svo frá: ,,Vorútræði er frá Gamla-Hrauni um Hraunssund.austanvert við Framnesboða. Til sundmerkis er þar haft tré, sem um miðja 19. öld stóð á grasbakka fram undan bænum. Og enn stendur það raunar á sama stað, en sá er munurinn, að nú er það skorðað í fjörukletti, og er þaðan upp að grasbakkanum meir en 60 faðma langur spölur um fjörugrjót. Sýnir þetta, hve sjórinn heldur áfram að brjóta af jarðveginum.“ Þótt ótrúlegt megi virðast um svo vandaðan mann sem Brynjúlfur var, verður að segja sem er, að þetta er allt í meginatriðum tilbúningur einn. Friðrik Sigurðsson frá Gamla-Hrauni, greindur maður og athugull, sem ól nær allan sinn aldur í Hraunshverfinu, segir svo um þetta: „Það vantar mikið til, að tréð sé 60 faðma frá bakkabrúninni. Og það sanna er, að það hefir aldrei staðið neitt sundtré á Gamla-Hraunsbakka. Þetta umgetna tré settu formenn af Eyrarbakka upp þarna í klöppunum um 1890 og er hliðarmerki frá Rifsós, sem er sund fram undan austanverðum Eyrarbakka og var mikið notað í tíð áraskipanna. En eins og segir í Árbókinni, er Hraunssund austan Framnesboða, og eru mið á því Borg (gamli bærinn), sem er austasti bærinn í Hraunshverfinu og á að bera í austuröxl lngólfsfjalls. Sjá þá allir, sem koma á þessar slóðir, hvað það er fjarri, að mið á Hraunssundi hafi staðið í Gamla-Hraunsbakka.“[note] Lesbók Morgunbl. 1949, 541-542. (Landsig og landbrot millum Ölfusár og Þjórsár). [/note]
Þess ber að geta, að Vigfús Guðmundsson hefir hent á ýmsar veilur í staðhæfingum Brynjúlfs eða dregið sumar niðurstöður hans í efa, og hefir honum þó ekki tekizt að losa sig til neinnar hlítar undan landbrotshugmyndum hans og áhrifavaldi munnmælasagnanna. Um Stokkseyri segir Vigfús t. d., að þó að talað sé um Baðstofuklett eða Danabaðstofu á skeri framan við bæinn, þá sé það ekki næg sönnun þess, ,,að bærinn allur hafi verið fluttur úr stað á Stokkseyri“. Auðvitað er það engin sönnun. En hvað á hann við? Á hann við það, að nokkuð af bænum hafi staðið frammi í Baðstofuklettum, en hinn hlutinn á sama stað og nú? Sjálfur hefir Vigfús hent á rök fyrir því, að bærinn á Stokkseyri hafi aldrei verið fluttur, enda má telja það vafalaust. Hann hallast og að því, að bærinn í Framnesi hafi staðið frammi undir brimgarði, og færir það til líkinda, að lausagrjót, sem hann fann í Hraunsfjöru, sé hleðslugrjót úr hinum forna Framnesbæ.[note] Saga Eyrarbakka I, 22; 11, sbr. 56-57. [/note] Um það segir Friðrik Sigurðsson hnyttilega í áður tilvitnaðri grein: ,,Það hefir ekki verið neitt smákot að veggjum, ef á að trúa því. Það hefir verið byggður stór sjóvarnargarður fyrir öllu landinu, mest af lausagrjóti úr flæðarmálinu, og er þó mikið eftir. Það er annað, sem færir til grjótið í Hraunsfjöru. Þegar frostakaflar eru, kemur íshella í fjöruna, og þegar svo skiptir um veður í sunnanátt, verður oft brim og brýtur upp allan ísinn á einu flæði. Berast þá jakarnir upp í flæðarmál, og eru þá oft steinar, sem frosið hafa í íshelluna, með, og má sjá á gróðrinum á sumum þeirra, að þeir eru framarlega úr fjörunni.“
Ein ástæðan til þess, að menn hafa miklað fyrir sér landbrotið á vissum tímaskeiðum, er án efa hin breytilega jarðvegsmyndun og gróðurfar í fjörunni. Menn, sem komnir voru á efri ár fyrir síðustu aldamót, mundu eftir stórum, grónum spildum í fjörunni, þar sem bithagi var góður og jafnvel slægjur. Þannig sagði Símon Þorkelsson á Gamla-Hrauni ( 1800-1881), að á yngri árum hans hefði verið mikið graslendi á Flæðitorfu, sem er frammi í fjörunni fyrir framan Bjarnavörðu, og hefðu lambær með lömbum verið látnar þangað á vorin og þrifizt vel. Einnig er sagt, að Jón Þorkelsson halti (1817-1889), bróðir Símonar, hafi eitt sinn á yngri árum slegið á 8 hesta frammi á svonefndum Hellum, austan til í Gamla-Hraunsfjöru. Þá er það og haft eftir Jóni Adólfssyni í Grímsfjósum (1837-1916), að í Lambatorfu fyrir framan Rauðarhóla hefði verið mikið af grasgefnu landi, þar sem sauðfé gekk á vorin, og þannig mætti nefna fleiri dæmi. Það er augljóst af frásögnum þeirra manna, sem til mundu, að fyrir og alllöngu eftir miðja 19. öld hefir verið mikið gróðurlendi víðs vegar í fjörunni, sem var nær allt horfið um og eftir síðustu aldamót. Hvaða öfl voru hér að verki? Var þetta merki þess, að sjórinn væri að brjóta landið með vaxanda hraða?
Staðkunnugir og eftirtektarsamir menn svara slíkri spurningu neitandi og hafa aðra skýringu á þessu fyrirbæri. Það er ísinn og klakinn í fjörunni, sem spjöllunum veldur. Þegar fjaran verður ein klakahella og jakarnir brotna loks upp og losna, rífa þeir með sér torfur úr jarðveginum, sem er frosinn fastur við ísinn, og bera þær með sér, á sama hátt og áður er sagt um lausagrjótið í Hraunsfjöru. Hin miklu frosta- og harðindaár 1881-1887 marka hér tímamót. Þá hófst mikil eyðing á gróðurvinjum fjörunnar. Harða vorið 1882 rak mikinn hafís að landi, sem fágætt er á þessum slóðum. Var hann einn dag við brimgarðinn og eyðilagði mikið þaragróður, en rak síðan burt, tók stefnu fyrir Hafnarnes og hvarf. Stóran klettadrang, sem stóð frammi á miðju Trölllendarifi og stóð upp úr um flóð, þá er brimlaust var, felldi hafísinn. Svo sagði Einar Einarsson í Garðhúsum. Mestar voru þó skemmdirnar af lagnaðarísnum í fjörunni á þessum árum. Varð þar engin rétting á allt fram yfir frostaveturinn 1918. En upp úr því fór fjaran smám saman að gróa á ný, jarðvegur að myndast og grænar grastorfur að skrýða sker og klappir. Þessi þróun hefir haldizt áfram síðan með hlýnandi veðráttu. Nú er talið, að hægt væri að heyja frammi á Hellum eigi minna en á dögum Jóns halta. Þegar eg spurði gamlan Stokkseyring, síra Guðmund Bjarnason frá Stardal, sem fór til Vesturheims um fermingaraldur og kom heim eftir 48 ára fjarveru, hvað honum sýndist hafa tekið mestum breytingum í átthögum hans, síðan hann fór, þá svaraði hann hiklaust: ,,Fjaran.“
Loks kemur hér við sögu eyðingarafl, annað en sjórinn, sem valdið hefir landspjöllum í Stokkseyrarhreppi, en það er sandfok og uppblástur. Af þeim völdum hafa mestar skemmdir orðið á Baugsstaðalandi og á jörðunum út við Ölfusá, Nesi og Rekstokki. Á öndverðri 13. öld hefir sandur þegar verið tekinn að spilla landi Baugsstaða, eins og sjá má af vísu Ámunda smiðs 1226:
Sitt ræð“ selja
sandauðigt land
fullsviðr Flosi
fúss Dufgúsi,
Nú hefr keypta
kvalráðr fala
geirs glymstærir
glaðr Baugsstaði.[note]Sturlunga saga, Rvík 1946, I, 314. [/note]
Á Baugsstaðagrjótum hefir til forna verið þykkur jarðvegur, sem eyðzt hefir af uppblæstri, unz bæinn varð að flytja einhvern tíma á miðöldum. Má enn í dag sjá leifar túngarðsins á Fornu-Baugsstöðum á kampinum fyrir framan Knarrarósvita. Um Rekstokk er þess getið í jarðabókinni 1708, að sá bær hafi verið fluttur framan af sandinum fyrir sjóarágangi og eytt sé hið forna bæjarstæði og túnstæði allt, en á hinum nýja stað grandi sandfok túninu til stórskaða. Sjávarflóð gerði loks út af við byggðina á Rekstokki, eins og síðar verður getið. Nes var sizt betur farið. Eftir sömu heimild hafði bærinn í Nesi að sögn aldraðra manna verið færður fjórum sinnum undan vatnagangi og landbroti Ölfusár. Um það bil tveimur áratugum síðar var hann færður í fimmta sinn af sömu ástæðum, en íbyrjun þessarar aldar fór jörðin loks í eyði af sandfoki.
Af því, sem nú hefir verið rakið um hríð, má augljóst vera, að landspjöll í Stokkseyrarhreppi eiga sér mismunandi orsakir. Hins vegar hefir mönnum hætt til að mikla fyrir sér þær skemmdir, sem sjórinn hefir valdið, og þá sérstaklega landbrot af hans völdum. Eg skal að lokum benda á nokkur atriði, sem mér virðast sýna, að hugmyndir manna um það efni séu stórum ýktar:
1) Bæirnir á Skúmsstöðum, Háeyri og Stokkseyri hafa aldrei verið fluttir undan sjó.
2) Bæirnir á Fornu-Baugsstöðum, Rekstokki og Nesi hafa fyrst og fremst eyðzt af uppblæstri, sandfoki og ágangi Ölfusár.
3) Stál og Stálfjara hafa svipaða afstöðu til lands og þau virðast hafa haft á 12. öld.
4) Eftir flóðið mikla 1653 var Hraun flutt frá sjó vegna skemmda á jörðinni. Nokkrum áratugum seinna var bær reistur aftur á gamla bæjarstæðinu og stendur þar enn í dag (Gamla-Hraun). Þarna frammi á sjávarbakkanum hefir því verið bær, síðan Hraun var byggt úr Framnesi á 12. eða 13. öld.
5) Enginn bær hefir verið fluttur frá sjó á þessu svæði síðastliðnar þrjár aldir þrátt fyrir landspjöll af sjávarflóðum.
Þessar staðreyndir virðast tala sínu máli um það, að landbrot af völdum sjávar hafi yfirleitt verið mjög hægfara allt frá landnámstíð. Því ber þó vitanlega ekki að neita, að það hafi átt sér stað til einhverra muna, en sennilega mismikið, á einum stað meira og á öðrum minna, eftir því hvernig aðstæður voru. Skolað hefir t. d. burt eyrum þeim, sem Stokkseyri og Háeyri eru kenndar við, og brotnað hefir framan af nesi því, er landnámsbærinn Framnes stóð á. Á hinn bóginn eru það sjávarflóðin, sem mestum spjöllum hafa valdið, ekki svo mjög með uppbroti lands sem með uppburði af sandi, möl og grjóti, þangi, þara og alls konar ranamoski úr fjöru og dreifingu þess yfir tún og grundir. Þess konar landspjöll má líta enn í dag á bökkunum fyrir austan Skipa, þar sem ströndin er óvarin. Þetta gerði óbyggilegt sums staðar frammi við sjóinn, svo að flytja varð bæi þangað, sem þeir voru óhultir fyrir flóðum. Flestir bæjaflutningar, sem kunnugt er um á þessu svæði, hafa einmitt orðið af völdum stórflóða. Koma þau svo mikið við sögu þessarar byggðar, að sjálfsagt er að gera nokkra grein fyrir þeim helztu og afleiðingum þeirra.