085-Landprang og borgarar

Í tilskipun um verzlunina á Íslandi frá 13. júní 1787 er m. a. mælt svo fyrir, að allir þeir, sem fengið hafi borgararéttindi í einhverjum kaupstað, megi hindrunarlaust setjast að á hvaða stað sem þeir vilji og njóta þar fullkomins frelsis til að verzla. Hins vegar er öllum þeim, sem ekki hafa hlotið borgararéttindi, algerlega bannað að reka nokkra verzlun með innfluttar vörur og verði þær gerðar upptækar fyrir þeim, er sekir finnast. Sérstakar sektir eru lagðar við óleyfilegri verzlun með brennivín og tóbak. Sá, sem kærir allt þess háttar landprang fyrir yfirvöldum, hlýtur ½ hluta af sektum og andvirði upptækrar vöru að launum, en ½ hluti skal renna til fátækra í þeim hreppi, þar sem vörurnar voru seldar. Málskostnað allan greiðir hinn seki.[note]Lovsaml. for lsland V, 434-35, sbr. 462-63.[/note]

Fyrst eftir að verzlunin var gefin frjáls, leit út fyrir, að nýtt líf mundi færast í hana. Hinir gömlu einokunarkaupmenn höfðu að vísu keypt af konungsverzluninni alla helztu verzlunarstaðina, en nýjum kaupmönnum var gert kleift að setjast að í kaupstöðunum, lausakaupmönnum heimiluð afnot af hafnargögnum í verzlunarstöðunum og framtakssamir Íslendingar tóku að gefa sig að verzlun. Meðal þeirra voru þrír Árnesingar, þeir Bjarni Sigurðsson lögréttumaður á Bjarnastöðum í Selvogi, síðar kaupmaður í Hafnarfirði, Þórður Gunnarsson bóndi í Þorlákshöfn og tengdasonur hans, Ásmundur Jónsson lögréttumaður á Litlalandi í Ölfusi. Þeir byrjuðu að verzla í Selvogi og Þorlákshöfn með því að taka vörur í umboðssölu af lausakaupmönnum. Verzlun þessa kærði Petersen Eyrarbakkakaupmaður, sem áður hefir verið nefndur, fyrir sýslumanni, en hann skaut málinu til stiftamtmanns, sem úrskurðaði verzlun þeirra ólöglega. Fengu þeir félagar þá allir borgarabréf hinn 16. sept. 1789, og eru þeir fyrstu Árnesingarnir, sem það gerðu, keyptu síðan umboðsvörur sínar og verzluðu í eigin nafni. Þegar Petersen kaupmaður kom út vorið 1790, fekk hann því til leiðar komið, að stiftamtmaður bauð sýslumanni Árnesinga að rannsaka, hvort hinir nýju kaupmenn hefðu haft hlutfallslega nægilega mikið af nauðsynjavöru á boðstólum samanborið við munaðarvöru. svo sem tóbak og brennivín, og verzlun þeirra teldist því vera landprang. Réttarhald leiddi í ljós, að þeir voru saklausir af öllu prangi. En Petersen kaupmaður var ekki af baki dottinn. Þegar hann kom til Danmerkur um haustið, kærði hann mál sitt fyrir dönsku fjármálastjórninni. Kom svo fyrir málflutning Petersens og fleiri selstöðukaupmanna, að stjórnin gaf út auglýsingu 1. júní 1792,[note]Lovsaml. for Island VI, 27-29. [/note] þar sem verzlunarlögin voru túlkuð á þá leið, að hændur mættu ekki eiga borgarabréf, nema þeir ættu heima í kaupstað. Jafnframt var lausakaupmönnum bannað að verzla annars staðar en á hinum gömlu kauphöfnum, en þar voru fastakaupmenn alls staðar fyrir. Dró þetta mjög úr hinni frjálsu verzlun, en styrkti aðstöðu selstöðukaupmanna. Af þremenningunum er það að segja, að Þórður og Ásmundur hættu að verzla, enda voru borgarabréf þeirra af þeim tekin, en Bjarni útvegaði sér verzlunarleyfi á ný og hóf verzlun í Hafnarfirði og síðar einnig í Reykjavík og varð einn af merkustu brautryðiendum íslenzkrar verzlunar, eins og kunnugt er.[note]Sig. Skúlason, Saga Hafnarfjarðar, 254–57; Þorkell Jóhannesson, Saga Íslendinga VII, 226-28.[/note]

Eftir þetta fara ekki sögur af neinum tilraunum til að efna til verzlunarsamkeppni á kaupsvæði Eyrarbakkaverzlunar í marga áratugi. Hins vegar e1 kunnugt um nokkra menn í Stokkseyrarhreppi hinum forna, sem fóru með lítils háttar landprang á fyrra hluta 19. aldar og síðar. Einn þeirra var Jón ríki Þórðarson í Vestri-Móhúsum, og er svo sagt um verzlun hans, ,,að á hverjum degi dró hann nokkuð af sér af smjöri því, er honum var skammtað til viðbits, og var það þó oftast lítið, sem von var til. Afganginum safnaði hann í öskjur, sem tóku eitt pund. Þegar þær voru orðnar fullar, seldi hann smjörið, en fyrir verðið keypti hann brennivín, er hann seldi aftur með miklum ágóða. Þessu hélt hann áfram, þar til er hann var orðinn svo efnaður, að hann gat keypt brennivínstunnu; hana fekk hann með góðu verði, en seldi aftur svo dýrt, að hann hafði tvo peninga fyrir einn. Tóbak keypti hann líka; það seldi hann í þumlungatali á vertíðinni, þá er það var uppselt hjá kaupmanni.“[note]Br. J., Kambránssaga I, 4. kap.[/note] Þess skal getið, að fyrir þessu prangi Jóns finnst hvergi stafur í samtímaheimildum, svo að oss sé kunnugt, en eitthvað mun þó vera hæft í því. Um Jón Geirmundsson á Stéttum er sagt, að hann hafi slátrað hestum á haustum og selt kjötið fátæklingum á vetrum. ,,En hann seldi margt fleira, einkum búðarvarning, er hann fekk út í reikning sinn við Eyrarbakkaverzlun.“[note]Sama rit III, 2. kap.[/note] Þá er og heimild fyrir því, að Sigurður stúdent Sigurðsson á Stóra-Hrauni hafi viðhaft nokkra verzlun með útlendar vörur.[note]Þingb, Árn. 24. júní 1868. [/note] Lengst allra mun þó Þorleifur Kolbeinsson á Háeyri hafa fengizt við slíkt verzlunarhokur, og verður nánar frá því sagt hér síðar. Loks eftir miðja öldina byrjar Einar Jónsson, er síðar var kallaður borgari, að verzla í óleyfi eða fást við landprang, og verður einnig nánar sagt frá því. En síðasti maður, sem byrjaði á þess konar verzlun í Stokkseyrarhreppi, mun hafa verið Jón Adólfsson á Stokkseyri, síðar bóndi í Grímsfjósum. Sagt er, að hann hafi fengið að láni 200 dali hjá föður sínum, Adolf Petersen á Stokkseyri, til þess að koma verzlun þessari á fót, en verzlunina hafði hann í skemmu, er kölluð var Aftanköld, bak við austurbæinn á Stokkseyri. Jón var hinn mesti greiðamaður. Hann gekk í sjóbúðirnar á vertíðinni með sykur og tóbak í vösunum. ,,Vantar þig ekki út í bollann, lagsi?“ spurði hann, eða „Vantar þig ekki upp í þig?“ Svo gaf hann vermönnunum spotta og spotta af tóbaki og sykurmola með kaffinu. Konunum í hverfinu lánaði hann kaffi, sykur og fleira, sem þær vanhagaði um, og áttu þær að borga í smjöri, þegar kýrnar báru. Þá komu þær með pinklana og fengu Jóni. ,,Hefirðu vigtað það?“ spurði hann. Þær kváðu svo vera. ,,Jæja,“ sagði hann, ,,eg þarf þá ekki að vigta það; eg sé það líka á fyrirferðinni.“ Verzlun Jóns stóð ekki nema einn vetur, og hefir þetta verið á árunum 1860-65. Enginn þessara manna var kærður fyrir landprang nema Þorleifur og Einar.

Fyrsti maðurinn, sem kærður var fyrir landprang, var Einar Jónsson, sem þá var vinnumaður á Grjótlæk. Kærandi var Guðmundur Thorgrímsen verzlunarstjóri á Eyrarbakka, og var þingað í málinu af Þórði sýslumanni Guðmundssyni á Litla-Hrauni 6. des. 1854. Einar skýrði svo frá, að hann hefði róið suður í Hafnarfirði og fengið hálfan hlut sinn í kaup og lagt hann inn hjá Ara Jónssyni, en af því að hann hafi ekki getað fengið peninga út á hlutinn, hafi hann leiðzt til að taka danskar vörur út á hann; þó hafi hann ekki gert það fyrr en nú í vor. Hann hafi svo skipt þeim fyrir íslenzkar vörur og sumt selt fyrir peninga, kveðst þó ekkert leyfisbréf hafa til að verzla og hvergi tekið borgarabréf. Danska varninginn hafi hann mestmegnis selt fyrir haustull, tólg og smjör, en lítið eitt fyrir peninga. Því næst skýrir hann frá verðlaginu hjá sér. Hann neitar því, að hann hafi verzlað með brennivín, og tekur fram, að enginn hafi kvartað um mæli hans eða vog eða að varningur hans hafi verið svikinn. Þingvottarnir, Adolf Petersen hreppstjóri og Símon Björnsson á Skipum, staðfesta það, sem Einar hafði sagt um verðið á vörunum, og álíta, að verðlagið hjá honum sé jafnvel betra en í verzluninni á Eyrarbakka, eins og það var þá.

Sýslumaður kvað upp dóm í máli Einars 11. des. sama ár. Dæmdi hann upptækar þær útlendu vörur, sem kyrrsettar höfðu verið hjá honum, nefnilega 53 pd. af kaffi, 15 pd. af róltóhaki og 13 stykki af 60 faðma færum, þar eð hann hefði eigi öðlazt leyfi eða borgarabréf til verzlunar. Dóminn byggði sýslumaður á tilskipuninni frá 13. júní 1787, sem áður er getið, og skyldi andvirði hinnar upptæku vöru renna að ¾ til uppljóstrarans, Guðmundar Thorgrímsens verzlunarstjóra, en að 1/2 til fátækrasjóðs Stokkseyrarhrepps. Málskostnað skyldi Einar borga, en vera að öðru leyti sýkn af ákæru hins opinbera.[note]Þingb. Árn. 6. og 11. des. 1854.[/note]

Dómi þessum áfrýjaði Einar til landsyfirréttarins, og var kveðinn þar upp dómur í málinu að nýju 26. febr. 1855. Var Einar algerlega sýknaður og vörunámið ógilt, en greiða skyldi hann málskostnað.[note]Landsyfirréttar- og hæstaréttardómar VII, 185-187.[/note]

Vorið 1868 bar sýslumaður fram fyrirspurnir um landprang á manntalsþingum í sýslunni. Mun sú herferð efalaust hafa verið runnin undan rifjum Lefoliisverzlunar eða fulltrúa hennar, Guðmundar Thorgrímsens. Upp úr krafsinu hafðist það, að 7 menn voru kærðir fyrir óleyfilega verzlun. Menn þessir voru: Gísli Þormóðsson á Lambastöðum í Hraungerðishreppi og bræður hans Ólafur og Guðmundur Þormóðssynir í Hjálmholti, Diðrik Diðriksson í Króki í sömu sveit, Björn Snæbjörnsson í Króki í Pörtum, Einar Jónsson, sem áður getur og nú var orðinn bóndi í Eystri-Rauðarhól, og loks Þorleifur Kolbeinsson á Háeyri. Skal hér aðeins skýrt frá málum tveggja hinna síðastnefndu.

Einar var yfirheyrður um verzlun sína á heimili hans í Rauðarhól 20. júní 1868. Hann játaði fúslega, að hann hefði haft dálitla verzlun í síðastliðin 6 ár, eða síðan hann fór að búa á þessum bæ, án þess að hafa leyfi til þess. Hann hefði verzlað með kramvöru, korn, kaffi og lítils háttar með tóbak og brennivín, en aldrei hefði hann skenkt það eða selt í staupatali. Taldi hann, að umsetning hans hefði í það harðasta verið 900 rd. árlega, en oft hefði það verið minna, sem hann seldi fyrir af útlendum varningi. Fyrir útlenda varninginn hefði hann sumpart fengið peninga og sumpart íslenzkar vörur og hefði hann lagt þær inn í kaupstaðinn og tekið út fyrir þær vörur til eigin afnota eða til að selja. Í þessi 6 ár hefði hann einungis haft viðskipti við Fischer kaupmann í Reykjavík, en ekki væri það svo að skilja, að hann hefði verið maður Fischers og ekki væri honum kunnugt um verzlun sína. Einar kvaðst hafa haldið, að yfirvaldið mundi þola hann, þar sem hann seldi ekki með hærra verði en í kaupstöðunum, einkum í Reykjavík, og taldi hann, að hann hefði jafnvel oft og tíðum selt með vægara verði en verzlunin á Eyrarbakka. Sérstaklega sagðist hann þora að fullyrða, að hann hefði selt kaffipundið 4 sk. ódýrara ( 36 sk.) og matartunnu 1 rd. ódýrara (11 rd.) en þessi verzlun hafi selt einstökum mönnum í vetur, enda hafi almenningur alls ekki fengið mat keyptan á Eyrarbakka mikinn part af vetrinum. Í vetur hafi hann líka selt rullutóbak 1 mk ódýrara en verðið hafi þá verið, er hann taldi hafa verið 1 rd. 8 sk. í verzluninni. Sykur seldi hann 4 sk. ódýrara (28 sk.). Róltóbak hafi hann selt fyrir 4 mörk, en á Eyrarbakka hafi það kostað 5 mörk. Brennivín hafi hann selt í vetur fyrir 1 mk. 8 sk. pottinn, en á Eyrarbakka hafi það verið 2 mörk. Að lokum voru rannsakaðar vörubirgðir Einars, og reyndust þær ekki miklar: fatavarningur fyrir 69 rd. 4 mk. 15 sk. og nokkuð af innlendum varningi.[note] Þingb. Árn. 20. júní 1868.[/note]

Þorleifur á Háeyri var yfirheyrður um hina ólöglegu verzlun sína hinn 24. júní, og er í skýrslu hans merkilegur fróðleikur um þennan sérkennilega mann og verzlunarhætti hans. Hann skýrir svo frá, að við og við í þau 41 ár, sem hann hefir búið, hafi hann viðhaft litla verzlun. Fyrst bjó hann á Stéttum í 2 ár, en hafði þar enga verzlun, þar eftir 4 ár í Borg og seldi þá svolítið í þrjú ár. Þar eftir bjó hann á Hrauni í 8 ár, en hafði þar enga verzlun. Frá Hrauni fór hann að Háeyri, og getur það verið, að hann hafi þá gefið eitthvað svolítið falt, en 1847 gekk hann í bindindi og var í því í 8 ár, og seldi hann ekki brennivín á þeim tíma. Að hann hafi selt annað, þorir hann ekki að þverneita, þó að hann muni það ekki. Eftir að hann var kominn úr bindindi, byrjaði hann aftur að gefa falt brennivín, en það var fyrst lítið. Hann hefir mest selt brennivín í pela- og hálfpelatali eða gefið það falt, og oftast, einkum í byrjuninni, hafa menn, sem keyptu hjá honum, drukkið brennivínið á staðnum. Auk brennivíns hefir hann selt tóbak, en það var lítið í byrjuninni eða að minnsta kosti minna en seinna hefir verið, þar að auki kaffi bæði malað og ómalað, sykur og kaffirót. Sirz og annars konar fatavarning ber hann ekki minni til að hafa haft á boðstólum seinustu þrjú árin, en áður fyrri eins og í tvö til þrjú ár. Oftast hefir hann selt fyrir búðarverð hér á Eyrarbakka, stundum, en þó sjaldan yfir búðarverð og í vetur undir búðarverði. Hann neitar ekki, að hann hafi í fyrradag selt ¼ pd. af kaffirót, er í búðinni kostar 4 sk., fyrir tvær blautar ýsur, en þær hafa þá ekki vegið meira en 4 pd., því það er föst regla hans, þegar hann tekur við blautri ýsu í borgun fyrir vörur, að reikna pund af ýsunni á 1 skilding. Aðrar íslenzkar vörur tekur hann eins og þær eru teknar í búðinni, en samt segist hann geta rekið verzlun sína með ábata, þar sem hann fái ævinlega í Reykjavík og stundum á Eyrarbakka afslátt, þegar hann kaupir mikið í einu, t. d. þegar hann kaupir hálfa tylft af klútum og 100 álnir af sirzi. Seinasta árið fór hann ekki suður sjálfur, en Einar í Rauðarhól verzlaði þá fyrir hann suður frá. Hann hefir árlega selt fyrir hérumbil 120 rd. af brennivíni, og hefir það einkum verið seinustu tvö til þrjú árin. Af öðrum vörum hefir hann selt fyrir hérumbil 100 rd. árlega. Hann er ólögfróður maður og hefir þó heyrt tilskipunar 13. júní 1787 getið og að þar væri öðrum mönnum en þeim, sem hefðu kaupmannsborgarabréf, bannað að verzla, en aldrei hefir hann séð þessa tilskipun. Hins vegar vissi hann, að fleiri menn viðhefðu slíka verzlun sem hann rak og yfirvöldin aldrei bannað þeim það, og þess vegna verzlaði hann, þó að hann hefði aldrei keypt borgarabréf. Hann kvaðst hafa verið til staðar á manntalsþinginu í vor, en haldið þó áfram að selja eitthvað smávegis.

Eftir áskorun dómarans sýndi Þorleifur því næst góðfúslega hýbýli sín og það, sem hann hafði í þeim af vörum. Var það eftir áliti dómarans og vottanna ekki meira en hann gæti notað til heimilisins, en hann hafði 11 manns í heimili. Rétturinn taldi því ónauðsynlegt að kyrrsetja þær fundnu vörur, en bannaði Þorleifi stranglega að selja eða gefa falt nokkuð af þeim eða af þeim vörum, sem hann keypti seinna, og tilkynnti honum um leið, hverjar afleiðingarnar mundu verða af því, að hann héldi áfram sinni ólöglegu verzlun. Loks bauð rétturinn Þorleifi að sýna vog og mál sín. Voru þau flest ólöggild, bæði kvarðar og vogir, og tók rétturinn þær í sínar vörzlur fyrst um sinn.[note]Þingb. Árn. 24. júní 1868.[/note] Sýslumaður tók vægilega á málum þeirra Einars og Þorleifs, og dóm fengu þeir engan. Hins vegar mun sýslumaður hafa hent þeim á, að þeir yrðu að gera eitt af tvennu: að hætta að verzla eða kaupa borgarabréf, og völdu þeir báðir síðari kostinn. Í sendibréfi til Sigríðar Hafliðadóttur, bróðurdóttur sinnar, segir Þorleifur svo frá þessu hinn 24. okt. 1868: ,,Samt skal eg að endingu geta þess, að 24. júní þ. á. var tekið for(h)ör um undanfarna verzlun mína af sýslumanni og bannað að selja nokkurn útlendan varning framar á ævi minni. Þú manst nú, að eg seldi dálítið af ýmsu, þegar þú varst hér eystra. Kunni eg því hálfilla við þessar trakteringar af sýslumanni mínum, brá mér suður í Reykjavík, þó sjötugur væri, með útskrift af for{h)örinu, en 12 dögum síðar, þ. e. 6. júlí, varð hann að gefa mér verzlunarleyfi eða svo kallað borgarabréf. – Taktu nú ekki svo orð mín, að eg sé orðinn stórkaupmaður, eg verzla litlu meira en vant er, heldur gjörði eg þetta til að láta ekki undan, fyrst eg hafði fjör til þess.“[note]Blanda VIII, 308-309.[/note]  Einar Jónsson fekk verzlunarleyfi 18. sept. sama ár. Þessir tveir menn eru því fyrstu innlendu mennirnir með kaupmannsréttindi í Stokkseyrarhreppi hinum forna.

Fram til þessa tíma virðast báðir þessir menn, og þó einkum Þorleifur, hafa hugsað um það eitt að græða á verzlun sinni, og hvað hann snertir, verður ekki vart neinnar breytingar að þessu leyti, eftir að hann fekk borgarabréfið. Verzlun hans varð því aldrei, hvorki fyrr né síðar, til þess að bæta á nokkurn hátt hag héraðsbúa. Allt öðru máli gegnir um Einar borgara, eins og hann var nú jafnan nefndur. Hann mátti minnast þess, að Lefoliisverzlun hafði tvívegis kært hann fyrir landprang og reynt þannig að koma verzlunartilraunum hans á kné. Jafnskjótt sem hann fekk borgarabréfið, tók hann að búa sig undir baráttu við hina gömlu selstöðuverzlun í opinni samkeppni. Sú barátta stóð í fulla tvo áratugi og varð til mikilla hagsbóta fyrir almenning í héraðinu.

Sama haust sem Einar fekk verzlunarréttindi, 24. nóv. 1868, fekk hann byggingarbréf fyrir Skúmsstöðum eða hluta þeirrar jarðar af Guðmundi Thorgrímsen fyrir hönd Lefoliis kaupmanns, sem var eigandi jarðarinnar. Er þar stranglega bannað, að hann noti hús sín á Skúmsstaðalandi til að verzla í eða til nokkurs þess, er að verzlun lýtur, og ekki mátti hann leyfa hestum viðskiptamanna þar hagagöngu.[note]Bogi Th. Melsteð, Framtíðarmál o. s. frv., bls. 41.[/note] Einar fluttist að Skúmsstöðum vorið eftir og bjó þar síðan, en fekk leyfi Þorleifs á Háeyri til að reisa hús til að verzla í í Háeyrarlandi. Þannig fór hann í kringum byggingarbréfið.

Einar tók nú af alefli að auka verzlun sína. Hann fekk skip til þess að flytja vörur til sín frá Reykjavík og keypti sjálfur skip til flutninga. Svo segir Þorleifur á Háeyri í bréfi einu 21. júlí 1873: ,,Einari borgara er að fara fram. Hann er búinn að kaupa jakt fyrir 1700 rd. Hún er búin að fara tvær ferðir í vor til Reykjavíkur, og er í mæli, að hún fari þá þriðju.“[note]Vigf. Guðm., Saga Eyrarbakka I, 366.[/note] Um 1880 fór Einar að fá skip með vörur beint frá Kaupmannahöfn. Hafði hann næsta áratuginn mikla verzlun með útlenda vöru, en keypti ull og aðra sveitavöru af bændum. Um eða upp úr 1883 byrjaði Guðmundur Ísleifsson á Háeyri að verzla, og 1886 fór hann að fá vöruskip frá útlöndum. Gerðist hann allumsvifamikill kaupmaður í nokkur ár, og jókst þá enn samkeppnin við Lefoliisverzlun.

Þegar þeir Einar og Guðmundur fóru að fá vöruskip frá útlöndum, bannaði Lefolii þeim að leggja skipum sínum við hafnarfestarnar. Ætluðu þeir þá að leggja nýjar.festar í skerin, en Lefolii bannaði þeim það einnig, þar sem skerin voru í hans landi. Fór þetta í mál milli þeirra. Unnu þeir Guðmundur málið fyrir dómstólum hér, en hæstiréttur í Kaupmannahöfn staðfesti bannið.[note]Um málaferli þessi má lesa í Landsyfirréttar- og hæstaréttardómum Ill, 447–52, og IV, 104-106; sbr. B. Th. Melsteð, Framtíðarmál o. s. frv., bls. 1-4, og Ágúst Helgason, Endurminningar, bls. 153.[/note] Hafnarbann Lefoliis bakaði þeim Einari og Guðmundi mikil óþægindi og erfiðleika, en ekki varð það þó til þess að koma þeim á kné. Hins vegar komust þeir í skuldir við erlenda lánardrottna, sem gengu hart að þeim. Varð Einar af þeim sökum að gefa upp verzlun sína 1890, en Guðmundur 1893. En þeir höfðu ekki unnið til einskis. Öll verzlun batnaði stórum, þar með einnig talin Lefoliisverzlun, bæði um vöruverð og birgðir, á meðan þeirra naut við, svo að sjaldan var skortur á nauðsynjavörum á Eyrarbakka, eftir að þeir fóru að verzla. En hin sögulega þýðing þessara manna, og einkum frumherjans Einars borgara, var sú, að þeim tókst, svo að um munaði, að brjóta á bak aftur einveldi og einokun hinnar dönsku Eyrarbakkaverzlunar.

Leave a Reply